Klukkan er alveg að verða sex eftir langa viku, maturinn er ekki tilbúinn og börnin eru þreytt, svöng og nálægt því að rjúfa hljóð- og þolinmæðimúrinn. Á þessum tímapunkti hefur mig oft dreymt um að bakka bara rólega út og loka. Þögn, svefn og heilsuhælið í Hveragerði freista mín mikið, Leifsstöð eiginlega líka. Það er hins vegar einmitt á þessum augnablikum sem ég þarf að snúa mér að aðstæðunum, að börnunum, en ekki frá þeim.
Þegar fjölskyldulífið er í ójafnvægi hjá mér, þá leysir það ekki vandann að mynda fjarlægð. Þvert á móti þarf ég að styrkja tenginguna við börnin. Þá kemur nefnilega léttirinn, börnin verða öruggari, allir verða rólegri, streituástandið líður hjá í bili og það verður auðveldara fyrir foreldrana að læðast út í smá verðskuldað frí. Ég hélt að þolinmæði og uppeldisgleði væru auðlind sem þornaði aðeins meira upp í hvert sinn sem uppeldið væri krefjandi. En það er akkúrat öfugt – við verðum sterkari.
Mömmur og pabbar eru algjörir naglar. Svefnlaus nótt? Við höfum tæklað sextíu í röð. Þrjú samtöl í einu? Allan daginn. Snúa aftur frá barmi örvæntingar? Vikulega. Við erum undir gríðarlegu álagi, en erum út frá því að byggja upp ótrúlega hæfni. Börn virðast síðan hafa meðfædda hæfileika til að sérsníða þroskaprógramm fyrir foreldra sína og kenna þeim einmitt það sem þau eiga eftir að læra. Mín kenndu mér að það má vera gaman þótt það sé erfitt.
Athugasemdir