Amir Shokrgozar, samkynhneigður flóttamaður frá Íran, hefur auglýst bílinn sinn til sölu til þess að geta borgað íslenskum yfirvöldum reikning vegna flugfars lögreglumanna sem fóru með hann úr landi.
Amir bjó í tvö ár á Íslandi og hafði verið að læra íslensku, átt íslenskan unnusta og verið sjálfboðaliði hjá Samtökunum ’78 og Rauða krossinum, áður en honum var vísað úr landi í febrúar.
Amir hugði á endurkomu til Íslands, en verður að greiða skuld sína til íslenskra yfirvalda eigi það að ganga eftir. Hann giftist íslenskum unnusta sínum á Sikiley fyrr í mánuðinum.
Í skuldayfirlýsingu vegna kostnaðarins við brottvísun hans, sem hann birtir á Facebook, kemur fram að hann eigi að greiða 427.907 krónur fyrir fimm lögregluþjóna sem fylgdu honum úr landi. Þá skuldar hann íslenska ríkinu dagpeninga til handa lögregluþjónunum, samtals 120.422 krónur. Samtals er skuldin, að meðtöldu hans eigin flugfari við brottvísunina, 634.944 krónur.
Samkvæmt útlendingalögum er ríkinu heimilt að rukka hælisumsækjendur, sem ekki fá samþykkta beiðni um hæli, fyrir brottflutning þeirra úr landi.
„Útlendingur sem færður er úr landi samkvæmt lögum þessum skal greiða kostnað af brottför sinni. Útlendingurinn skal einnig greiða kostnað af gæslu þegar hennar er þörf vegna þess að hann fer ekki úr landi af sjálfsdáðum. Krafan er aðfararhæf og hún getur auk þess verið grundvöllur frávísunar við síðari komu til landsins. Lögreglunni er heimilt að leggja hald á farseðla sem finnast í fórum útlendingsins til notkunar við brottför. Sama gildir um fjármuni til greiðslu á kröfu vegna kostnaðar við brottför og gæslu samkvæmt ákvæði þessu.“
„Fyrir íslenskum yfirvöldum er ég einskis virði“
Amir segist í samtali við Stundina þakka Íslendingum fyrir stuðning sem hann hefur fengið, en hann kveðst hafa áhyggjur af framferði íslenskra yfirvalda. „Mannréttindi útlendinga eru ekki virt,“ segir hann. „Ég er utanaðkomandi og fyrir íslenskum yfirvöldum er ég einskis virði.“
Amir flúði heimalandið vegna kynhneigðar sinnar, en samkynhneigðir geta átt von á refsingum í Íran. Hann segir yfirvöld hér á landi hafa staðið í vegi fyrir því að hann gæti gifst íslenskum unnusta sínum. „Við giftum okkur á Ítalíu vegna þess að íslensk yfirvöld synjuðu okkur um heimild til að gifta okkur hér. Við viljum selja bílinn okkar til þess að láta íslensk yfirvöld fá peninginn. Ég kem aftur til Íslands, en svo lengi sem ég borga ekki má ég ekki koma aftur.“
Bíllinn, sem er Toyota Avensis frá árinu 2004, er til sölu á 400 þúsund krónur. „Ég vona að bíllinn seljist eins fljótt og mögulegt er til þess að ég geti borgað íslenskum yfirvöldum og snúið aftur eins fljótt og hægt er,“ segir Amir.
Amir er ekki eini innflytjandinn sem íslensk yfirvöld rukka fyrir að flytja úr landi. Eugene Imotu fær ekki að koma aftur til Íslands fyrr en hann hefur borgað fyrir brottflutning sinn úr landi. Hann var handtekinn í sumar, aðskilinn fjölskyldu sinni og fluttur úr landi, eftir að hafa búið á Íslandi í þrjú ár. Stuttu síðar fengu börnin hans þrjú dvalarleyfi.
Athugasemdir