Stjórnarmyndunarviðræðum Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata hefur verið slitið.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar var þetta gert að frumkvæði Framsóknarflokksins en þingmenn flokksins höfðu lýst áhyggjum af því að meirihlutinn væri of tæpur til að stjórnarsamstarfið gæti gengið upp.
Uppfært kl. 14:00:
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, skrifar á Facebook:
„Það eru mikil vonbrigði að ekki hafi náðst að mynda ríkisstjórn Vinstri-grænna, Framsóknarflokks, Samfylkingar og Pírata að þessu sinni. Ljóst var frá upphafi að meirihlutinn var naumur og stór verkefni framundan. Málefnalega gengu samræður þessara flokka mjög vel og ég upplifði traust á milli formannanna; mín, Sigurðar Inga, Loga og Þórhildar Sunnu. Fyrir liggur hins vegar að hinn naumi meirihluti vóg of þungt til að Framsókn treysti sér til að ljúka myndun meirihlutastjórnar. Eftir sem áður er það okkar verkefni að koma á starfhæfri ríkisstjórn fyrir fólkið í landinu.“
Kl. 13:20:
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, skrifar á Facebook:
„Að mati okkar Framsóknarmanna þarf að mynda trausta ríkisstjórn sem stuðlar að pólitískum, félagslegum og efnahagslegum stöðugleika. Framundan eru stór verkefni í íslensku samfélagi, eins og kjarasamningar, sem þarfnast þess að mynduð sé ríkisstjórn í landinu sem býr að traustum meirihluta. Stóra verkefnið í íslenskum stjórnmálum í dag er að endurreisa traust og skapa sátt í samfélaginu okkar. Það þarf að mynda ríkisstjórn með breiða skírskotun.“
Kl. 13:10:
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur boðað Katrínu Jakobsdóttur til fundar við sig á Bessastöðum kl. 17:00.
Kl. 12:50:
Þingflokkur Pírata hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:
Þingflokkur Pírata telur ekki fullreynt að ná jákvæðri niðurstöðu í stjórnarmyndunarviðræðum. Samtalið hefur gengið vel og telja Píratar alla hafa komið að borðinu með það að markmiði að ganga í þau stóru mál sem bíða okkar. Píratar skilja áhyggjur af naumum meirihluta og telja hinu augljósu leið að bjóða fleirum að borðinu. Milli flokkanna fjögurra ríkir mikið og gott traust.
Þolinmæði almennings fyrir stjórnmálum spillingar, eiginhagsmuna og sjálfhverfu er á þrotum. Það er von Pírata að aðrir stjórnmálaleiðtogar hafi heyrt þau skilaboð og gangi ekki til stjórnarviðræðna þar sem slík stjórnmál fá áfram að viðgangast. Þingflokkur Pírata hefur í þessum viðræðum haft það að markmiði að skila stjórnarsáttmála sem er almenningi til heilla. Þar liggur hugur okkar enn.
Þær samningaviðræður sem fram fóru voru ánægjulegar og jákvæðar miðað við áherslur Pírata í nýafstöðnum kosningum. Mál sem ágreiningur hefur verið um hafa verið rædd í sátt.
Píratar eru flokkur málefnalegra vinnubragða og kerfisumbóta. Við erum hreyfing sem hefur það að markmiði að stunda ábyrg stjórnmál til ávinnings fyrir almenning og til raunverulegra umbóta. Niðurstaða kosninga skilaði engum augljósum meirihluta. Píratar lýsa sig tilbúna til að leita að breiðari samstöðu og halda samtalinu áfram. Píratar skilja að verkefnið er stærra en við sjálf.
Athugasemdir