Í síðasta tölublaði Stundarinnar sendi ég frá mér tvær ástarjátningar sem fólu í sér ákall um breytingar. Já, ég bý yfir ástríkri og þrjóskulegri trú á að við getum betur. Annað ákallið var til karla og bar nafnið Áskorun um strákahitting, hitt var til kvenna og hét Fjallkonan 2017. Bæði voru þessi hugarfóstur mest lesna efni Stundarinnar um stundarsakir og viðbrögðin kalla á eftirfarandi yfirlýsingu:
Elsku strákar og karlar. Takk fyrir að bregðast við hugmyndinni um að efla samkennd og spjalla saman um hvort skaðlegar staðalmyndir loði við líf ykkar, með tilheyrandi fórnarkostnaði fyrir samfélagið. Sumir ykkar hafa sagt mér að þið kannist ekkert við slíkar staðalmyndir, aðrir hafa sárreiðst mér og skrifað þrumandi varnarpistla. Þeir níuhundruð áttatíu og þrír ykkar sem stofnuðu og gengu í fésbókarhópinn Strákahittingur sýna að margir ykkar kannast við þennan raunveruleika – og vilja vera hluti af lausninni. Þið sem gripuð boltann og mættuð í fjölmiðlaviðtöl til að halda áfram með umræðuna eruð að vinna þjóðþrifaverk. Það skiptir engu máli á hvaða forsendum þið takið þátt í að stuðla að heilbrigði og umhyggju innan ykkar raða, hvort það er vegna eigin hagsmuna eða hagsmuna annarra. Þegar upp er staðið græðum við öll í samfélagi þar sem færri grípa til örþrifaráða, fremja sjálfsvíg eða beita sjálfan sig/aðra ofbeldi. Til mikils er að vinna, til dæmis að skora á hólm niðurstöður ítrekaðra rannsókna sem sýna tregðu meðal karla til að leita sér aðstoðar þegar þeim líður illa, draga úr félagslegri einangrun og gefa staðalmyndum sem ala á ofbeldishegðun fingurinn. Þið getið raunverulega breytt heiminum. Ekki óttast að gera mistök á leiðinni eða að mæta mótvindi, því engar mikilvægar breytingar eiga sér stað átakalaust. Það er einmitt í mótvindinum, en ekki meðbyrnum, sem flugdrekinn hefst á loft. Fljúgið hátt, strákar!
„Þið getið raunverulega breytt heiminum. Ekki óttast að gera mistök á leiðinni eða að mæta mótvindi, því engar mikilvægar breytingar eiga sér stað átakalaust.“
Elsku stelpur og konur. Þegar ég húkti eins og rækja bakvið skrifborðið mitt í heimatilbúnu stúdíói, sem samanstóð af skrifborðslampa og bókastafla, og tók Fjallkonuna upp með símanum mínum óraði mig ekki fyrir hversu sterka vængi þið mynduð ljá henni. Ég er að tala um þig, kennarann sem breytti ljóðinu í kennsluefni í íslensku. Ég er að tala um ykkur, þolendurna sem greinduð frá ofbeldisreynslu ykkar með orðunum „ég er gosið“. Ég er að tala um þig, tónlistarkonuna sem rokkaði feitan bassa í Stúdentakjallaranum svo Fjallkonan nötraði í húsgögnunum. Ég er að tala um þig, myndlistarkonuna sem bjó til stolta og brjóstgóða Fjallkonu úr garni. Ég er að tala um þig sem ætlar að gera kórverk fyrir kvennakór upp úr ljóðinu. Ég er að tala um ykkur, sem eruð að skipuleggja ljóðakvöldið „Ég er gosið“ í Gerðubergi 8. nóvember. Ég er að tala um ykkur allar, sem tengduð við innihaldið og slóguð eign ykkar á það. Við eigum söguna saman, við eigum sigrana og ósigrana í sameiningu, við eigum sömu formæðurnar og sameiginlega framtíð. Við getum skorað á hólm ranghugmyndir sem leiða til þöggunar og vanlíðunar á meðal okkar. Við getum haft hátt og hvatt hver aðra til að taka pláss. Til mikils er að vinna, til dæmis að valdefla hver aðra í baráttunni fyrir jöfnum launum og áhrifum, gefa staðalmyndum sem ala á útlitsþráhyggju og átröskunum fingurinn og stytta tímann sem við þjáumst í einrúmi og sjálfsásökun áður en við rjúfum þögnina um áreitni/ofbeldi. Við erum svo sannarlega gosið. Nú tökum við frumkraftinn og eldmóðinn og breiðum út vængina. Fljúgum hátt, stelpur!
Kæru Íslendingar. Á meðan kyn hefur áhrif á líkurnar á því hvort við verðum fyrir ofbeldi, föllum fyrir eigin hendi, komumst í áhrifastöður eða er mismunað í launaumslaginu er þörf fyrir að berjast fyrir jafnrétti, bæði innan okkar eigin raða og með sameiginlegu átaki. Tökum flugið, mætumst í miðjunni, bjóðum fjallkonunni á strákahitting og brjótum niður staðalmyndir sem halda aftur af okkur öllum – jafnt körlum sem konum og kynsegin fólki. Þetta hefst allt með okkur sjálfum. Og ástríkri, þrjóskulegri trú á að við getum betur.
Athugasemdir