Stundum vinn ég sem leiðsögumaður. Ég fer gullna hringinn sitjandi í sjötíu manna rútu og mala værðarlega í hljóðnema um landslagið sem þýtur framhjá. Sjáiði gott fólk! Þarna er íslensk sauðkind! Þarna! Íslenskur hestur!
Þetta starf hentar mér ágætlega því ég kemst út úr hausnum á sjálfum mér. Ég, sem hef mest allt mitt líf verið að blaðra eitthvað við útlendinga, fæ nú borgað fyrir það. Þegar við erum komin framhjá Þingvöllum mala ég svolítið um Siggu í Brattholti. Sigga er auðvitað frægust fyrir að bjarga Gullfossi en færri vita að hún var fyrsti almennilegi myndlistarrýnirinn okkar. Þegar sveitungar hennar ætluðu að verðlauna Siggu fyrir vel unnin störf með því að færa henni málverk af fossinum góða líkaði konunni ekki myndin og henti henni umsvifalaust út í Hvítá.
Við hleypum fólkinu út við Gullfoss. Ég halla mér aftur í sætinu og sé landið mitt með augum útlendings. Langjökull er í sérstöku uppáhaldi. Hann sefur vært, rammaður inn af oddhvössum fjallatoppum sem nema við hvítan ísinn.
En Adam var ekki lengi í paradís. Tvær hressar amerískar konur banka á rúðuna hjá mér. Þær eru í hátíðarskapi, með pela og svolítið hressar.
Heyrðu, manni! Voruð þið ekki að kjósa í gær?
Jú jú, ansa ég dræmur, í gær voru kosningar. Ég ætla mér ekki djúpt í pólitík með Ameríkönum, það samtal mun bara enda í tómu trump-tjóni.
En konurnar gefa sig ekki strax.
Af hverju kjósið þið þessa sömu menn enn og aftur yfir ykkur? Er þetta einhver masókismi? Þið fyrirgefið þessum körlum allt!
Ég bít í vörina og dreifi talinu yfir í ýmis öryggisatriði.
Ekki stinga puttunum í hverinn þarna! Sjáið þið löggumennina? Þeir eru sjálfsagt að kæla bólgna putta sem fóru of nálægt Strokki.
Konurnar hverfa gallvaskar í átt að hverasvæðinu en sjálfur hugsa ég með mér að þetta sé sennilega rétt hjá þeim; þrátt fyrir allt þá er örugglega alveg frábært að vera íslenskur karlmaður í pólitík. Það er jú nóg að vera sæmilega hávaxinn, þá er þér fyrirgefið allt.
„Þrátt fyrir allt þá er örugglega alveg frábært að vera íslenskur karlmaður í pólitík. Það er jú nóg að vera sæmilega hávaxinn, þá er þér fyrirgefið allt.“
Forsætisráðherra síðustu ríkisstjórnar er ágætt dæmi um það. Hvað þarf íslenskur stjórnmálamaður eiginlega að brjóta af sér til að vera dæmdur úr leik á Íslandi? Þarf hann að drepa einhvern? Svo er ekki bara frábært að vera karl í pólitík á þessu landi – það er einfaldlega tær snilld að vera karlmaður á Íslandi.
Íslenskar konur geta kveinað „mí-tú“ á samfélagsmiðlum þangað til þær verða Facebúkk-bláar í framan en það breytir því ekki að ef íslenskum karli dettur í hug að nauðga konu þá kemst hann yfirleitt mjög vel frá því. Íslenski karlmaðurinn er nefnilega svo trúverðugur, og svo er hann líka hávaxinn og myndarlegur. Á þessu landi skiptir mestu máli hvernig þú kemur fyrir akkúrat núna á þessari sekúndu, ekki eitthvað sem þú gerðir eða sagðir í gær.
Á leiðinni í gegnum minjagripasöluna dreg ég upp símann og rek augun í viðtal við frægan íslenskan fjölmiðlamann sem er í hálfgerðu stofufangelsi heima hjá sér vegna þess að hann sveik sinn síðasta atvinnuveitanda með því að ráða sig til samkeppnisaðila.
Þarna er hann mættur enn og aftur; hávaxni íslenski karlmaðurinn. Alls staðar annars staðar í heiminum væri pressan búin að kjöldraga hann en hér er hann virtur álitsgjafi, hann skammar okkur góðlátlega fyrir óþarfa neikvæðni út í stjórnmálamenn. Ég finn hvernig ákveðin öryggistilfinning hríslast um mig, því við íslenskir karlmenn stöndum þétt saman þrátt fyrir allt.
Ég sting símanum í vasann, geng framhjá matsölunni og áfram inn í gegnum faldar dyr þar til ég enda í hliðarheimi sem ferðamenn sjá aldrei. Hér í þessu bakherbergi eru bílstjórar og leiðsögumenn frá öllum heimshornum. Sumir eru sofnaðir í myndarlegum leðursófum eftir að hafa vaknað allt of snemma á sunnudegi.
Þeir sem tala íslensku stinga saman nefjum yfir kaffibolla og ræða kosningarnar. Fyrirfram hafði ég haldið að bílstjórar væru almennt frekar hægri sinnaðir. Þarna leynist hins vegar allt hið pólitíska litróf, stundum eru menn víðsýnir, jafnvel róttækir. Einn heldur því fram að átta flokkar á Alþingi sé alls ekkert svo slæm staða. Menn neyðist til að vinna saman. Ég klára kaffið og rölti aftur út í rútu.
Í lok ferðarinnar dregur til tíðinda. Við erum búin að halda tímaáætlun og bílstjórinn ákveður að verðlauna ferðalangana með því að gera aukastopp við Faxa, lítinn foss í Biskupstungum sem skartar skemmtilegum laxastiga.
Tvítugur náungi af asískum ættum vill stytta sér leið upp brekkuna á milli göngustiganna en lendir óðar í sjálfheldu í sleipri drullunni. Fimmtugur Indverji ákveður að koma til bjargar. Það fer ekki betur en svo að hann etur óvart eiginkonu sinni á foraðið. Hrindir aumingja frúnni fram fyrir sig í miðri brekkunni þannig að hún er þakin drullu frá toppi til táar þegar hún rís upp aftur. Ég flýti mér upp í rútu og kem aftur með klút sem ég nota til að þurrka það mesta framan af henni. Ferðalangar taka þessu öllu með jafnaðargeði og ég slæ á létta strengi í hljóðnemann þegar við rennum úr hlaði.
Þetta atvik er þvílík myndlíking, hugsa ég með sjálfum mér. Mannfólk vill hvað öðru almennt vel. Það ætlar að bjarga sér úr háska en endar með því að dragast saman niður í svaðið. Eru þetta ekki við íslenskir kjósendur í hnotskurn? Við liggjum saman í drullunni, veltum okkur eins og svín. Sum okkar horfum að vísu til himins og höldum að við sjáum stjörnur eða norðurljós – en það getur allt eins verið tálsýn.
Athugasemdir