Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gat ekki sagt til um heildarkostnað við loforðin sem flokkurinn hefur gefið í kosningabaráttunni þegar hann var inntur eftir slíkum upplýsingum í viðtali við Harmageddon í morgun. Hann fullyrti þó að loforðin væru „vel fjármögnuð“ og að kostnaðurinn lægi fyrir.
Flokkurinn hefur lofað 100 milljarða viðbótarútgjöldum til innviðauppbyggingar næstu fjögur árin, umfram það sem tilgreint er í fjármálaáætlun, samhliða stórfelldum skattalækkunum fyrir fólk og fyrirtæki, en jafnframt stórauknum útgjöldum til velferðarmála. Hagdeild ASÍ hefur varað við þessari stefnu og bent á að hún stangist á við sjálfbærnimarkmið laga um opinber fjármál.
„Ég er ekki með [það] samantekið, en þetta liggur allt fyrir með einum eða öðrum hætti og þetta er vel fjármagnað,“ sagði Bjarni í viðtali við Harmageddon í morgun eftir að útvarpsmaðurinn Frosti Logason spurði hvort hann gæti gefið upp heildartölu yfir kostnað alls þess sem Sjálfstæðisflokkurinn lofar í kosningabaráttu sinni.
„Þið eruð að tala um loforð eins og þessi, það á að styrkja stöðu öryrkja með börn, geðheilbrigðisþjónustu í forgang, efla nýsköpun og rannsóknir, tækninýjungar í heilbrigðiskerfinu, fjórfalda frítekjumarkið, átak í fjölgun hjúkrunarheimila, hækka greiðslur í fæðingarorlofi, heilbrigðisþjónusta óháð efnahag, námsstyrkjakerfi, efla löggæslu í hverfunum. Hvernig í ósköpunum ætliði að fjármagna þetta allt saman og lækka skatta á sama tíma?“ spurði Frosti snemma í viðtalinu.
Bjarni svaraði á þá leið að til að standa undir útgjöldunum þyrftu stjórnvöld að skapa umhverfi þar sem landsmönnum þætti þess virði að elta drauma sína og skapa verðmæti. Svona hljóðaði svar Bjarna hans við spurningu Frosta í heild:
„Með því að við hér á Íslandi upplifum okkur hluta af samfélagi þar sem er einhvers virði að leggja sig fram, að stjórnvöld séu í því að styðja við fólk. Þegar ég fer um landið og ég sé þá sem hafa komið fiskeldinu af stað aftur fyrir vestan, það er fólk sem trúir á framtíðina og er tilbúið að láta til sín taka. Það er ekki eins og við höfum ekki áður reynt fiskeldi. Eða þegar maður sér nýjar fiskvinnslur á landinu, þessa nýjustu tæknivæddustu, þar eru menn að skapa verðmæti. Þegar ég fór til Vestmannaeyja og hitti karlana sem fundu makrílinn og þróuðu leiðirnar til að veiða hann og koma honum í land og allt í einu vorum við farin að flytja út 30 milljarða verðmæti af makríl. Við þurfum að skapa umhverfi þar sem menn finna að það er þess virði að leggja á sig að elta drauma sína og skapa verðmæti og þá mun sanngjarnt skattkerfi skila ríkinu því sem það þarf til að halda hér úti hraustu velferðarkerfi, grípa þá sem lenda í áföllum eða slysum eða eru sjúkir.“
Nokkru síðar áréttaði hann sérstaklega að sanngjarnir skattar væru það sem málið snerist um.
Undir lok viðtalsins var Bjarni beðinn um að tilgreina sérstaklega hvað loforð flokksins kosta. Því gat hann ekki svarað og sagðist ekki vera með kostnaðinn samantekinn. Af orðum forsætisráðherra mátti skilja að hann telji unnt að standa undir útgjaldaaukningunni með tekjum úr bönkunum, annars vegar vegna lækkunar eigin fjár þeirra og hins vegar vegna sölu á hlut ríkisins í þeim. Lágir skattar muni svo skila stórauknum tekjum með því að stuðla að aukinni verðmætasköpun og athafnasemi.
Athugasemdir