Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Ingvi Hrafn fékk Bjarna í viðtal: „Hlýtur að fara í pirrurnar á þér“

Bjarni Bene­dikts­son sem hef­ur neit­að að svara fyr­ir­spurn­um Stund­ar­inn­ar, mætti í við­tal á ÍNN þar sem þátta­stjórn­and­inn, Ingvi Hrafn Jóns­son, upp­nefndi nafn­greind­an blaða­mann Stund­ar­inn­ar „verk­færi“ og „böð­ul“. Bjarni gerði enga at­huga­semd við slík­an mál­flutn­ing á með­an við­tal­inu stóð.

Ingvi Hrafn fékk Bjarna í viðtal: „Hlýtur að fara í pirrurnar á þér“
Bjarni í viðtali Bjarni Benediktsson neitar að svara spurningum Stundarinnar, en kom í viðtal hjá Ingva Hrafna Jónssyni sem kallaði Bjarna „töffara“ og uppnefndi blaðmann Stundarinnar „böðul“ og „verkfæri“. Mynd: Skjáskot/ÍNN

Bjarni Benediktsson, sem ekki hefur svarað fyrirspurnum Stundarinnar varðandi aðkomu sína að viðskiptum í aðdraganda bankahrunsins samhliða störfum sínum á Alþingi, veitti Ingva Hrafni Jónssyni hins vegar langt viðtal á ÍNN síðastliðinn þriðjudag. Ingvi Hrafn áréttaði afstöðu sína í upphafi viðtalsins, þar sem hann uppnefndi blaðamenn Stundarinnar „götustráka“ og „pörupilta“ og kallaði nafngreindan blaðamann Stundarinnar „verkfæri“ og „böðul“. Bjarni gerði enga athugasemd við orðalag þáttastjórnandans heldur leyfði ávirðingunum að liggja í loftinu. 

Áður en Ingvi Hrafn beindi fyrstu spurningunni að Bjarna hélt hann tölu um mörk tjáningarfrelsis. Þar sagði hann meðal annars: „Þegar allt þetta tal um málfrelsi, tjáningarfrelsi og standa vörð um ritfrelsi og allt þetta sem við blaðamenn og við sem störfum við fjölmiðla og að miðla upplýsingum til almennings stöndum fyrir, ég velti fyrir mér hvenær hættir þetta að vera tjáningarfrelsi? Hvar liggur línan á milli prentfrelsis og tjáningarfrelsis og ritfrelsis og málfrelsis og alls annars, hvar liggur línan á milli þessa og rógs? Illvilja rógs, uppspuna og svona Gróa á Leiti vinnubrögð. Hvar eru þessi mörk?“

Spurði svo Bjarna hvort þetta færi ekki í „pirrurnar“ á honum.

Bjarni, sem hefur fengið ítrekaðar fyrirspurnir frá Stundinni, sagðist „feginn að fá tækifæri“ til að tjá sig um málið. Hann hefði látið yfir sig „ganga umræðu um persónuleg málefni sem eiga nákvæmlega ekkert erindi í opinbera umræðu og varða með engum hætti almannahagsmuni“. Áður en sýslumaður samþykkti lögbannskröfu á frekari fréttaflutning upp úr gögnum sem sýna tengsl viðskipta og stjórnmála hefði hann rætt við flesta fjölmiðla um efni fréttanna sem Stundin, Reykjavík Media og The Guardian hafa flutt upp úr gögnunum.

Hann hefur hins vegar ekki svarað spurningum Stundarinnar um efnisatriði fréttanna, þar sem enn er mörgum spurningum ósvarað, orðið við viðtalsbeiðnum eða viljað koma sínum sjónarmiðum á framfæri í miðlinum. Í stað þess að koma frekari upplýsingum á framfæri sakar hann fjöliðilinn um „dylgjur“  og „hálfsannleik“ . 

„Mér hefur fundist margt sem hefur verið skrifað í þessum tiltekna fjölmiðli vera bara hreinar dylgjur, menn geri í því að vera með hálfsannleik, menn skjóti undan upplýsingum sem gefi betri heildaryfirsýn yfir stöðu mála og svo framvegis,“ sagði Bjarni í viðtalinu.  

„Svona götustrákar “

Í viðtalinu fóru þeir Ingvi Hrafn og Bjarni um víðann völl, ræddu meðal annars efnahagsmál, atvinnulífið og stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokkum, en hér að neðan má lesa þann hluta viðtalsins sem snýr að umfjöllun Stundarinnar síðustu vikna, stöðu fjölmiðla, tjáningarfrelsinu og lögbanninu. 

Ingvi Hrafn: Sæl veriði. Hrafnaþing, þriðjudagur 17. október. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hjá mér hér á eftir. Við vissum ekki þegar þetta var ákveðið fyrir helgi að hann yrði að hann yrði hér í dag, að hamfarirnar yrðu í pólitíska heiminum þegar Sýslumaðurinn í Reykjavík lagði lögbann á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media á málefni er varðar forsætisráðherrann sjálfan.

Í minni bók þá er Stundin, og þeir sem að þessu standa, þessum níðskrifum um Bjarna Benediktsson og hans fjölskyldu alla, svona götustrákar sem eru með skírteini frá Blaðamannafélagi Íslands og ég skammast mín fyrir að vera í sama félagi og þessir, að því er ég kalla, pörupiltar.

Ekki það, ekki misskilja mig, ef það væri eitthvað, einhvers staðar einhver ofboðslegur leyndardómur, einhver svik, einhver spillin, eitthvað það sem snertir gjörðir Bjarna Benediktssonar þá myndi ég fyrstur standa að því að hann yrði gerður ábyrgur fyrir slíku. Málið er bara það að þetta fólk er búið að ráðast látlaust að persónu Bjarna Benediktssonar frá því hann varð formaður Sjálfstæðisflokksins, má í raun og veru segja. 

Ég er allur fyrir málfrelsi og tjáningarfrelsi og ritfrelsi og ég veit ekki, allt það frelsi sem er, nákvæmlega eins og Sjálfstæðisflokkurinn. Ég er að velta fyrir mér, eins og til dæmis í Bandaríkjunum, þar sem Trump forseti, Donald Trump, sennilega aldrei í bandarískri sögu hefur verið gerð jafn hörð atlaga að einum mann eins og þessum forseta. Og hann stofnar alveg sjálfur til þeirra illinda sem hann vill gera.

En þegar allt þetta tal um málfrelsi, tjáningarfrelsi og standa vörð um ritfrelsi og allt þetta sem við blaðamenn og við sem störfum við fjölmiðla og að miðla upplýsingum til almennings stöndum fyrir, ég velti fyrir mér hvenær hættir þetta að vera tjáningarfrelsi? Hvar liggur línan á milli prentfrelsis og tjáningarfrelsis og ritfrelsis og málfrelsis og alls annars, hvar liggur línan á milli þessa og rógs? Illvilja rógs, uppspuna og svona Gróa á Leiti vinnubrögð. Hvar eru þessi mörk? 

Ég fór að hugsa um það þegar ég horfði á þessa tvo pörupilta í beinni útsendingu frá gömlu fréttastofunni minni, RÚV, sjónvarpsins, að þeir, þar sem þeir stóðu þarna, verjendur lekinna eða stolinna gagna. Sennilega með gögn og upplýsingar um bankaviðskipti þúsunda einstaklinga, þúsunda Íslendinga, ég meðal annars og aðrir, sem við teljum að sé verndað af bankaleynd. En þarna stóðu þessir pörupiltar og eins og fréttamaðurinn á RÚV í beinni útsendingu, í beinni, [klappar saman höndum, innskot blaðamanns] útsendingu.

Eins og Bogi segir; takk fyrir að koma hérna í myndverið í beina útsendingu. Mikið mál greinilega að vera í beinni útsendingu en þarna var, að mínum dómi, verið að afhenda þessum pörupiltum jólagjafir með því að setja þetta lögbann á og sennilega hefur ekkert komið sér, eða valdið Bjarna Benediktssyni og Sjálfstæðisflokknum jafn miklum erfiðleikum, ergilegheitum og öðru slíku, eins og það að þessi flokkur stendur fyrir frelsi fólks til athafna, tjáningarfrelsis og frelsi fjölmiðla, að það hafi verið sett lögbann á. En Bjarni Benediktsson hefur ekkert að fela. Nákvæmlega ekkert að fela. Ef hann hefði eitthvað að fela, væri eitthvað í pokahorninu sem ekki passaði, þá væri hann löngu farinn. 

„Vinstra hyskið á Íslandi er að setja upp skilti“

Svo núna, þá er verið að setja upp skilti. Vinstra hyskið á Íslandi er að setja upp skilti, til dæmis í Hlíðunum, þar sem segir eitthvað á þá leið að Engeyjarættin séu bófar. Við erum að breytast í eitthvað skítaþjóðfélag. 

Heyrðu, forsætisráðherrann okkar og formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, hérna eftir stutt auglýsingahlé. Tæpitungulaust hjá honum, ég lofa ykkur því. 

[Auglýsingar]

Ingvi Hrafn: Sæl aftur. Bjarni Benediktsson, velkominn enn einu sinni á Hrafnaþing. 

Bjarni: Já, takk fyrir það. 

Ingvi Hrafn: Ég var í ræktinni í hádeginu, sem er nú ekki frásögufærandi…

Bjarni: Það gerist nú ekki oft.

Ingvi Hrafn: Nei. Svo fara menn í gufuna og menn eru í heita pottinum. Þetta eru svona, þetta eru mikið þínir menn. Menn sem reka sín eigin fyrirtæki og eru að reka fyrirtæki og menn sem eru kannski að borga tryggingagjald og eru ekkert ofboðslega glaðir með það. En það var mikið talað um þetta Stundarmál og þegar menn fréttu það að þú yrðir hjá mér í kvöld þá sögðu þeir; Ingvi, þú verður að taka þetta!

Ég segi; já bíddu, taka hvað? Já, þú verður bara að spyrja hann um þetta. Já, ókei, ég skal spyrja hann út í þetta, en ef þetta er ekki neitt? Dettur ykkur til hugar að ef það væri eitthvað gruggugt, að Bjarni Benediktsson væri að biðja um lögbann á Stundina? 

Bjarni: Já, nei ég reyndar…

Ingvi Hrafn: Það hlýtur að, á einhverjum punkti, þá hlýtur þetta að fara í pirrurnar á þér?

Bjarni: Ég er nú feginn að fá tækifæri til að tjá mig aðeins um þetta. Mig langar að byrja á því að segja að frá því að ég gaf kost á mér til forystu í stjórnmálum þá hefur reglulega verið skrifað um þau ár sem ég var í viðskiptum. Og það hafa oft verið notuð gögn sem greinilega voru ekki vel fengin.

Ég hef ávallt svarað því sem mér hefur fundist að þyrfti að bregðast við. Ég hef líka látið yfir mig ganga umræðu um persónuleg málefni sem eiga nákvæmlega ekkert erindi í opinbera umræðu og varða með engum hætti almannahagsmuni.

Ég hef líka tjáð mig um þessi nýjustu gögn sem menn eru núna að tala um og það hafa verið birtar tugir frétta um þau mál. Ég talaði við flesta fjölmiðla um þau mál og gefið út yfirlýsingu út af því.

Aldrei á nokkrum tímapunkti hef ég reynt að stöðva fjölmiðlaumfjöllun, hvorki sem varðar þessi ár sem ég var í viðskiptum, persónuleg mál um mig eða annað. Ég bað ekki um þetta lögbann. Þetta lögbann er í raun og veru að koma sér mjög illa fyrir mig.

Ég get ekki talað fyrir alla þá sem mér sýnist að Glitnir sé að reyna að vernda. Glitnir, sem er skelin af gamla bankanum í eigu kröfuhafa, stígur hér inn í atburðarás á mjög óheppilegum tíma. Það er eiginlega algjörlega út í hött að menn tali þannig að það sé til þess að hjálpa mér, eða vernda mig.

Ef það hefur verið hugsunin, þá hefðu menn nú átt að hreyfa sig eitthvað fyrr, ekki satt? Áður heldur en að allir þessir tugir frétta birtust.

Í fyrsta lagi hefðu menn þá átt að, ef það hefur verið hugsunin, þá hefðu menn nú átt að hreyfa sig eitthvað fyrr, ekki satt? Áður heldur en að allir þessir tugir frétta birtust. En síðan er bara hitt að ég vil vera að tala um allt aðra hluti núna í aðdraganda kosninga heldur en lögbann á fjölmiðla. Ég hef bara enga hagsmuni af því að þetta mál sé svona. 

Ingvi Hrafn: Menn spurðu líka, Bjarni…

Bjarni: Þetta er beinlínis að koma mér illa að þetta komi á þessum tímapunkti. 

Ingvi Hrafn: En þeir spurðu líka; hvað hefur Bjarni Ben gert þessum feðgum sem gerir það að verkum að þeir virðast í öllum sínum vinnubrögðum? Með mann sem heitir Ingi Freyr Vilhjálmsson, sem hefur verið aðalverkfærið eða böðullinn, með blaðamannaskírteinið, til þess að taka á þessu. Og menn velta fyrir sér; hefur einhver ykkar gert þeim eitthvað þannig þetta fólk telur sig eiga ofboðslegra harma að hefna? 

Með mann sem heitir Ingi Freyr Vilhjálmsson, sem hefur verið aðalverkfærið eða böðullinn

Bjarni: Sko, hérna, veistu, ég er ekkert að velta því fyrir mér.

Það sem ég horfi á er þetta; þegar maður er í þeirri stöðu sem ég er í þá verða menn að sætta sig við að umfjöllun um þá, fjölmiðlaumræða, jafnvel fréttaflutningur, er óvægnari heldur en almennt gerist með fólk.

Ég legg upp með því að verja rétt fjölmiðla til þess að flytja fréttir. Ég vil standa vörð um tjáningarfrelsið. Við höfum sem flokkur staðið fyrir fjölmiðlafrelsi í þessu landi, til dæmis börðumst fyrir frjálsu útvarpi á sínum tíma, og það finnst mér vera miklu göfugri baráttumál heldur en það að reyna að verja mig og mína persónu, þegar ég hef sjálfur tekið ákvörðun um að stíga út í  …

Ingvi Hrafn: Fenið!

Bjarni: Ja, ég ætlaði að segja opinbera umræðu eða bara inn á vettvang stjórnmálanna. Þess vegna hef ég aldrei haft tilburði uppi til þess að stöðva umræðu um þessi mál. Þetta er bara hluti af því að vera í stjórnmálum í dag. Þetta getur verið mjög óvægið, já. Stundum mjög persónulegt.

Mér hefur fundist margt sem hefur verið skrifað í þessum tiltekna fjölmiðli vera bara hreinar dylgjur, menn geri í því að vera með hálfsannleik, menn skjóti undan upplýsingum sem gefi betri heildaryfirsýn yfir stöðu mála og svo framvegis.

En jafnvel þótt menn gefi út slíkan fjölmiðil þá vil ég vernda rétt manna til þess að gera það, og vera til, vegna þess að það er alltaf betra fyrir lýðræðisþróun í landinu, heldur en hitt að þykjast geta setið í dómarasæti og sagt; já þessir eru ágætir, þeir mega tala, þessir eru ekki nægilega góðir, þeir geta ekki haldið áfram að skrifa. 

Ingvi Hrafn: Á hvaða punkti Bjarni, þú ert löglærður maður, með framhaldsnám bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum, Þýskalandi og í Suður-Flórída, þar sem ég þekki nú dálítið til. Mín spurning er sú; á hvaða tíma hættir tjáningarfrelsið að vera frelsi til tjáningar og hvenær hættir málfrelsið að vera frelsi til að tala og breytist í róg og níð?

„Hvenær hættir málfrelsið að vera frelsi til að tala og breytist í róg og níð?

Ég meina rógur og níður Bjarni, eru út af fyrir sig, hvað eigum við að segja, einhvers konar afbrot. Þú brýtur gegn, rógur rógar, og sá sem er með róg og aðdróttanir svo heldurðu áfram með lygina svo lengi að þú ferð að trúa henni. Á hvaða punkti segja menn, bíddu, ahh. Af hverju kemur svo, nú Þórólfur Halldórsson sýslumaður, hann er þá náttúrlega tengdur inn í Sjálfstæðisflokkinn, sé Bjarnamaður þú veist, og þetta sé allt gert í…

Bjarni: Já, já, það er náttúrlega allt gjörsamlega úr lausu lofti gripið. Ég hef ekki verið með nokkrum hætti aðili að þessari lögbannskröfu eða ákvörðun um hvernig það mál fór. Ég ætla bara…

Ingvi Hrafn: Hvenær breytist þetta í róg Bjarni? 

Bjarni: Já, ég ætla bara að segja við þig þetta; reglan sem þarf að fylgja í þessu er að frelsinu fylgir ábyrgð. Fjölmiðlafrelsinu, tjáningarfrelsinu, fylgir ábyrgð. Að menn þurfi þá líka að sæta því, ef á það er látið reyna, að menn séu dregnir til ábyrgðar fyrir það sem ekki stenst skoðun eða veldur öðrum tjóni.

Og þarna erum við líka að tala aftur um það sem ég var að nefna áðan að þegar maður gefur sig í opinber störf þá þarf maður að sætta sig við að það er hægt að ganga nær manni heldur en á við um allan almenning og stundum finnst manni það ekkert sérstaklega sanngjarnt. En ef maður fellir sig ekki við það þá verður maður að fara að finna sér eitthvað annað að gera. Ég hef bara einfaldlega tekið því, ég hef ávallt brugðist við því sem mér hefur fundist að þyrfti að skýra. Ég gerði það bara nýlega, núna þegar menn eru að tala um Sjóð 9.

Ég nefni sem dæmi að menn eru með hálfsannleik og koma ekki með alla myndina, mér fannst algjört hneyksli að fjölmiðlar sem fjölluðu um það mál segðu ekki bara strax frá því að Sjóði 9 var lokað á mánudegi og þriðjudegi, svo féll sjóðurinn um sjö prósent á miðvikudegi og ég sel á fimmtudegi eftir að hafa tekið á mig það högg. Auðvitað hlaut það að vera hluti af fréttaflutningi um þetta mál ef menn vildu tala um það sem hefði verið að gerast í þessari tilteknu viku.

Ég þurfti að hafa fyrir því að koma því á framfæri

En ég þurfti að hafa fyrir því að koma því á framfæri, almennt var ekki sagt frá því. Þetta fannst mér ekki sanngjörn málsmeðferð, eða sanngjarn fréttaflutningur, ef menn ætluðu af einhverri sanngirni og yfirvegun að setja sérstakt kastljós á það hvað var að gerast þessa tilteknu viku og hvaða ákvarðanir ég hafði tekið. En þessu svaraði ég bara, gott og vel, maður þarf stundum að taka daga í það og mér finnst vont núna í aðdraganda kosninga að þurfa að vera að eyða tíma í þetta mál.

Það er ekkert nýtt í þessum gögnum, það er ekkert sem stenst ekki skoðun. Öll þessi mál, öll þessi skjöl sem ég hef séð að hafa verið birt, nú veit ég ekki nákvæmlega hvað menn eru með undir höndum, en allt sem ég hef séð hefur greinilega komið til skoðunar, til dæmis hjá slitanefnd Glitnis, og hefur aldrei gefið tilefni til einhvers málareksturs eða riftanamála eða neins slíks. Ekkert af öllum þessum málum sem þessir menn hafa verið að birta er þess eðlis að það standist ekki skoðun.

Menn geta síðan alveg sagt; er ekki óeðlilegt að menn séu á sama tíma í viðskiptum og þeir eru inni á þingi? Og ég hef svarað því fyrir löngu, löngu, löngu síðan með því að stíga alfarið út úr viðskiptum, jú ég er sammála því. 

Þú ert töffari, ég meina þú ferð ekkert úr jafnvægi þó að einhverjir götustrákar séu að atast í þér.

Ingvi Hrafn: En hvað með, Bjarni, hvað með, þú ert kominn með skráp. Þú ert töffari, ég meina þú ferð ekkert úr jafnvægi þó að einhverjir götustrákar séu að atast í þér.

En þú átt eiginkonu, þú átt börn og alveg frá Línu litlu, sem er hvað, fimm, sex ára og upp í fullorðið fólk. Þetta reynir á. Ég meina, ég veit ekki, verða krakkarnir yfir einelti í skólum? Verður þú var við það að þetta sé að, þú veist, hvað eigum við að segja, raska ró konunnar þinnar og krakkanna?

Bjarni: Já, já. Það eru alveg til dæmi um það. Já, já. Stundum þarf maður að taka fjölskyldufund og aðeins brynja menn fyrir umræðunni og það gildir alveg niður í sex ára. Já, já, það kemur fyrir. 

Ingvi Hrafn: Heyrðu, þetta er nóg fyrir mig. Mig langar að tala um efnahagslífið á Íslandi. [...] 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Við mætum í vinnuna til þess að sigra“
2
Á vettvangi

„Við mæt­um í vinn­una til þess að sigra“

Kona sem sit­ur á bið­stofu með fleira fólki er að grein­ast með heila­æxli og það þarf að til­kynna henni það. En það er eng­inn stað­ur sem hægt er að fara með hana á, til að ræða við hana í næði. Í ann­an stað er rætt við að­stand­end­ur frammi, fyr­ir fram­an sjálfsal­ann en þá fer neyð­ar­bjall­an af stað og hama­gang­ur­inn er mik­ill þeg­ar starfs­fólk­ið hleyp­ur af stað. Í fjóra mán­uði hef­ur blaða­mað­ur ver­ið á vett­vangi bráða­mót­tök­unn­ar á Land­spít­al­an­um og fylgst með starf­inu þar.

Mest lesið í mánuðinum

Leyniupptaka lýsir vinargreiða og hrossakaupum Bjarna og Jóns
1
Afhjúpun

Leyniupp­taka lýs­ir vin­ar­greiða og hrossa­kaup­um Bjarna og Jóns

Son­ur og við­skipta­fé­lagi Jóns Gunn­ars­son­ar þing­manns full­yrð­ir í upp­tök­um sem tekn­ar voru af manni sem sagð­ist vera fjár­fest­ir að Jón hafi sam­þykkt beiðni Bjarna Bene­dikts­son­ar um að þiggja sæti á lista gegn því að Jón kom­ist í að­stöðu til veita veiði­leyfi til Hvals hf. Það verði arf­leifð Jóns að tryggja Kristjáni Lofts­syni nán­um vini sín­um leyf­ið. Það sé hins veg­ar eitt­hvað sem eigi að fara leynt.
„Hann sagðist ekki geta meir“
2
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Grunaði að það ætti að reka hana
3
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Myndir af neyðarmóttöku sendar áfram: „Ekki myndir sem ég vildi sjá af sjálfri mér“
6
FréttirKynferðisbrot

Mynd­ir af neyð­ar­mót­töku send­ar áfram: „Ekki mynd­ir sem ég vildi sjá af sjálfri mér“

Lög­reglu var heim­ilt að senda mynd­ir sem tekn­ar voru af Guðnýju S. Bjarna­dótt­ur á neyð­ar­mót­töku fyr­ir þo­lend­ur kyn­ferð­isof­beld­is á verj­anda manns sem hún kærði fyr­ir nauðg­un. Þetta er nið­ur­staða Per­sónu­vernd­ar. Guðný seg­ir ótækt að gerend­ur í kyn­ferð­isaf­brota­mál­um geti með þess­um hætti feng­ið að­gang að við­kvæm­um mynd­um af þo­lend­um. „Þetta er bara sta­f­rænt kyn­ferð­isof­beldi af hendi lög­regl­unn­ar.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár