Metnaðarfulla #metoo hreyfingin reynir að vekja athygli á því hversu algengt það er fyrir konur að verða fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi, en hún hefur breiðst út á samfélagsmiðlum eins og eldur í sinu. Þingmenn, rithöfundar, leikskólakennarar og konur alls staðar að úr samfélaginu deila sögum sínum af áreiti og ofbeldi, en rauði þráðurinn í frásögnunum er að karlmenn trúðu þeim ekki. Kærastar, ættingjar, vinir og vandamenn létu eins og þær væru að ímynda sér að eitthvað óviðeigandi hafi átt sér stað, eða að þær hafi boðið hættunni heim einhvern veginn.
Þegar einlægar frásagnir kvenna koma fram er aldrei langt í varðmenn karlmennskunnar sem segja að um einstök rotin epli sé að ræða en ekki alla menn, en eins og málshátturinn segir þá spillir eitt slæmt epli tunnunni. Vandinn er að það eru allt of margar konur sem hafa upplifað ranglæti af karllægu samfélagi, dómskerfi, lagagjöf og fjölmiðlaumfjöllun. Tregða karlmanna til að trúa eða styðja konur verndar rotnu eplin.
Karlmenn taka sjálfkrafa stöðu með vinum sínum þegar þeir eru ásakaðir um ofbeldi. Karlmenn horfa framhjá ofbeldishegum og segja að parið sé bara „að vinna í gegn um eitthvað.“ Karlmenn hlæja að ofbeldisbröndurum sem gera lítið úr upplifun þolanda.
Ég veit það því ég hef séð það, og ég hef tekið þátt í því. Ég hef trúað vinum sem segja að gerandinn „sé ekki týpan sem myndi nauðga.“ Ég hef hlegið að bröndurum hjá fólki sem ég komst síðan að að væru sjálfir nauðgarar.
Karlmenn þurfa í ríkari mæli að hlusta á raddir kvenna og þolenda. Það dugir ekki lengur að segja að ekki allir menn séu ofbeldismenn; við þurfum að hafa kjark til að hlusta á og styðja þolendur, og taka virkan þátt í að uppræta ofbeldismenningu.
Athugasemdir