Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Engeyingarnir fengu tveggja milljarða kúlulán til að eignast N1

Gögn­in úr Glitni sýna það að­gengi sem Bjarni Bene­dikts­son og fjöl­skylda hans hafði að láns­fé hjá Glitni. Yf­ir­taka þeirra á Olíu­fé­lag­inu var nær al­far­ið fjár­mögn­uð af Glitni. Bjarni sjálf­ur fékk 50 millj­óna kúlu­lán.

Bjarni Benediktsson þingmaður, faðir hans, bræður, skyldmenni og fjárfestar tengdir þeim, fengu samtals 2.400 milljóna króna kúlulán hjá Íslandsbanka til að BNT ehf. gæti keypt allt hlutafé í Olíufélaginu hf., Esso, árið 2006. Fyrirtækið fékk síðar nafnið N1 og er stærsta olíufélag landsins í dag.

Á þessum tíma var Einar Sveinsson stjórnarformaður Íslandsbanka en hann og bróðir hans, Benedikt Sveinsson, voru jafnframt í hópi stærstu hluthafa bankans. Íslandsbanki hafði umsjón með söluferlinu þegar félag Ólafs Ólafssonar, Ker hf, seldi allt hlutafé sitt í Olíufélaginu. Þetta kemur fram í gögnunum frá Glitni sem Stundin hefur undir höndum ásamt breska blaðinu The Guardian.

Samtals 26,6 milljarða lán

Benedikt Sveinssoneigandi Hafsilfurs og faðir Bjarna Benediktssonar

Kúlulánin til Engeyjarfjölskyldunnar fyrir hlutafénu í BNT voru aðeins lítill hluti lánveitinga Glitnis til fjárfestahópsins. Yfirtaka Engeyinganna og viðskiptafélaga þeirra á olíufélaginu var að nær alfarið skuldsett,  fjármögnuð með lánum frá Íslandsbanka sem þeir sjálfir áttu og stýrðu.

Í gögnunum kemur fram að af 16,9 milljarða kaupverði olíufélagsins hafi Íslandsbanki lánað fjárfestahópnum 16,4 milljarða. Þessi lán runnu til eignarhaldsfélaganna sem voru stofnuð utan um fjárfestinguna. Þá fékk fasteignafélag, sem síðar fékk nafnið Umtak hf. og var hluti af N1 samstæðunni, 7,8 milljarða króna að láni frá bankanum í viðskiptunum.

Samtals var því um að ræða lánveitingar frá Íslandsbanka til fjárfestahópsins upp á um 26,6 milljarða króna.

Kaup Engeyjarfjölskyldunnar á Olíufélaginu voru þannig nær alfarið fjármögnuð með lánsfé úr þeirra eigin banka. 

Bjarni leiddi fjárfestahópinn

Eitt af því sem vekur athygli í gögnunum er að það var þingmaðurinn Bjarni Benediktsson sem leiddi fjárfestahópinn ásamt Hermanni Guðmundssyni, sem svo varð forstjóri N1. Bjarni varð svo stjórnarformaður BNT og N1 eftir viðskiptin.

Í samkomulagi um fjárfestingarverkefnið frá því í febrúar 2006, þar sem meðal annars er rætt um fjármögnun viðskiptanna,  segir meðal annars: „BB[Bjarni Benediktsson]  og HSG [Hermann Sævar Guðmundsson] og hópur fjárfesta á þeirra vegum munu leggja fram sem hlutafé í félagið reiðufé að fjárhæð kr. 2.000 milljónir.“ Þetta samkomulag var undirritað af Bjarna, Hermanni, Íslandsbanka og Fjárfestingarfélaginu Mætti ehf. sem var meðal annars í eigu fjölskyldu Bjarna og hann stýrði sem einn af stjórnarmönnum.

Mynduðu fjárfestahópinnHermann Guðmundsson og Bjarni Benediktsson mynduðu fjárfestahópinn sem tók yfir N1.

Tóku lán frá Olíufélaginu

Þrátt fyrir að Bjarni og Hermann yrðu ekki stærstu hluthafar N1, heldur faðir og föðurbróðir Bjarna, voru það þeir tveir sem leiddu verkefnið og voru í forsvari fyrir það.

Þessi mikla aðkoma Bjarna að stofnun og rekstri N1 kemur líka vel fram í fundargerð frá stjórn BNT frá því í janúar árið 2007. Þar segir: „BB [Bjarni Benediktsson] sagði fundinn boðaðan til að ræða um nauðsyn þess að auka hlutafé í BNT og lagði fram minnisblað um þrjá möguleika sem miðuðust við að auka hlutafé í BNT um 3.700 m.kr.“ Bjarni bætti því líka við að að ein af ástæðunum fyrir því að þetta þyrfti væri til að greiða Olíufélaginu 2,4 milljarða króna sem BNT fékk lánaða frá því. Engeyingarnir keyptu því Olíufélagið og byrjuðu að lána peninga út úr því til eigin fyrirtækja.

Bjarni var þannig algjör prímusmótor í stofnun og öllu starfi N1. Í gögnunum eru faðir hans og föðurbróðir aldrei hafðir með í ráðum um fjárfestingar og stefnu félagsins þrátt fyrir að vera ráðandi hluthafar í fyrirtækinu.  Meðal annars segir í áðurnefndri fundargerð þar sem rætt var um mögulega hlutafjáraukningu í BNT að Bjarni vissi ekki hvaða skoðanir faðir sinn og föðurbróðir hefðu á hlutafjáraukningu í fyrirtækinu: „BB sagðist ekki vita um afstöðu „bræðranna“ en dró heldur niður í þeim möguleika án þess að segja nei.“

Þingmaðurinn fékk 50 milljóna kúlulán

Samkvæmt tölvupóstsamskiptum og gögnum úr bankanum sem Stundin hefur undir höndum fékk Hafsilfur, eignarhaldsfélag Benedikts Sveinssonar, 600 milljóna peningamarkaðslán frá Íslandsbanka og Hrómundur, félag Einars Sveinssonar, 700 milljóna lán í febrúar 2006. Um var að ræða lán til þriggja ára í fjórða áhættuflokki, þ.e. lán með „hóflega áhættu“ samkvæmt skilgreiningu bankans. Lán Hafsilfurs var í evrum, svissneskum frönkum og jenum en lán Hrómundar í krónum.

Einar og BenediktFeðgarnir Einar Sveinsson og Benedikt Einarsson

Systkini Einars og Benedikts, þau Guðrún og Ingimundur Sveinsbörn fengu bæði 200 milljóna kúlulán vegna viðskiptanna. Þá fengu Bjarni Benediktsson og bræður hans, Jón og Sveinn Benediktssynir, hver um sig 50 milljóna kúlulán; Benedikt Einarsson, sonur Einars Sveinssonar, fékk 40 milljónir í gegnum eignarhaldsfélag sitt Hæng ehf, og systir hans, Ásta Sigríður Einarsdóttir, 82 milljónir. Aðrir í fjárfestahópnum, Hermann Guðmundsson sem varð forstjóri N1, Hjalti Geir Kristjánsson, Halldór Teitsson og Guðbjörg Edda Eggertsdóttir fengu 450 milljóna lán fyrir kaupunum.

Hér má sjá skjáskot úr gögnum Glitnis um kúlulánin til Engeyinga og viðskiptafélaga þeirra.

Samtals lánaði bankinn fjárfestahópnum um 2,4 milljarða króna og gerði þannig Engeyingum og viðskiptafélögum þeirra kleift að leggja fram 2.000 milljóna hlutafé í nýtt félag, BNT hf, sem var stofnað til að halda utan um eign­ar­hlut­ina í Bílanausti hf. og Olíu­fé­lag­inu ehf. Alls voru hluthafar BNT hf. á þriðja tug talsins og lögðu 10,2 milljarða króna til félagsins í formi hlutafjár. Í apríl 2007 voru Bílanaust og Olíufélagið sameinuð í félag sem fékk heitið N1.

Fékk undanþágu frá skilmálum

Bjarni Benediktsson var stjórnarformaður BNT og N1 á árunum fyrir hrun meðan hann var þingmaður. Gögnin sem Stundin hefur undir höndum sýna að kaup Bjarna sjálfs á hlutabréfum í Olíufélaginu árið 2006 voru fjármögnuð með 50 milljóna kúluláni sem var veitt til þriggja ára með handveði í skráðum verðbréfum sem hann var með í stýringu hjá einkabankanum. Líkt og faðir hans tók hann lánið í evrum, svissneskum frönkum og jenum.

Fram kemur í bókun lánanefndar bankans vegna beiðni Bjarna um kúlulánið í febrúar 2006 að hann hafi fengið undanþágu frá skilmálum markaðsviðskipta þegar lánið var veitt. Ekki kemur fram um hvaða atriði í skilmálum Markaðsviðskipta var að ræða, en tölvupóstsamskipti milli bankastarfsmanna benda til þess að málið varði reglu um að undirritað frumrit af samningi hafi borist áður en lán er greitt út.

Gengið var frá lánveitingunum þann 16. febrúar 2006. „Erum að fara að setja inn lán á neðangreinda aðila sem öll eiga að greiðast inn á reikn 515-26-1561 sem er í eigu BNT. Sum lánanna verða í erlendri mynt og þá verður spot samningur með til þess að setja það yfir í krónur,“ segir í tölvupósti frá Rúnari Jónssyni, starfsmanni Íslandsbanka í markaðsviðskiptum og gjaldeyrismiðlun, til áhættunefndar bankans. „Það á bara setja hverja greiðslu fyrir sig inn á reikning BNT þannig að hreyfingarnar verði eins og hér fyrir neðan,“ segir í gögnunum sem Stundin hefur undir höndum.  

Bjarni átti þetta hlutafé svo áfram en á hlutahafalista N1 í árslok 2007 var hann skráður fyrir rúmlega 0,8 prósenta hlut í félaginu sem var 82 milljóna króna virði. Í grein í DV árið 2009 kom fram að Bjarni hefði selt þetta hlutafé á fyrrri helmingi árs 2008 til föðurbróður síns Einars Sveinssonar. Engin heimild var tilgreind fyrir þessari staðhæfingu í blaðinu en miðað við þetta losaði Bjarni sig við hlutaféð nokkru fyrir hrun.

„Hrein lygi“ að tala um skuldsetta yfirtöku

Þessar upplýsingar um skuldsetta yfirtöku Engeyinganna og viðskiptafélaga þeirra á N1 eru athyglisverðar í ljósi þess hvað helstu arkitektar viðskiptanna með olíufélagið hafa sagt um þau í gegnum tíðina. Gögnin um kaup þeirra á olíufélaginu segja raunar allt aðra sögu en komið hefur fram opinberlega.

Bjarni Benediktsson tjáði sig um fjárhagsvanda N1 í föstudagsviðtali í Fréttablaðinu árið 2011. Sagði hann meðal annars: „Ég tel að fólk sjái það í hendi sér að það eru ytri aðstæður sem gjörbreytast og valda vandræðum hjá þessu félagi og um allt þjóðfélagið. Í því samhengi skiptir líka máli að eigendur félagsins komu með mikið eigið fé í reksturinn og það stóð vel eftir kaupin.“

 „Enn heldur þetta sorprit
áfram að skrifa lygasögur“

Í kjölfarið birti DV frétt um að kaupin á Olíufélaginu hefðu verið „skuldsett yfirtaka“; stærstu hluthafar BNT ehf., sem fór með eignarhlut fjárfestanna í olíufélaginu, hefðu fengið lán til þess að setja hlutafé inn í félagið. Bent var á að á árinu 2006, þegar Hafsilfur eignaðist hlutabréf í BNT upp á 2,2 milljarða miðað við bókfært verð, jukust skuldir Hafsilfurs um meira en milljarð. Sömu sögu var að segja af skuldsetningu Hrómundar á árinu sem kaupin fóru fram.

Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, brást harkalega við fréttaflutningnum. „Enn heldur þetta sorprit áfram að skrifa lygasögur,“ skrifaði hann á Facebook. „Það er hrein lygi að halda því fram að hlutaféð sem var uppá 10 milljarða hafi verið tekið að láni. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvaða hvatir liggja að baki því að skrifa svona þvætting viku eftir viku í þeim tilgangi einum að skíta út og grafa undan heiðarlegu fólki.“

N1 var stærsti lántakandi Glitnis

Gögnin sem Stundin hefur undir höndum renna þó stoðum undir að hlutaféð hafi að miklu leyti verið tekið að láni. Auk 2,4 milljarða króna kúlulána til Engeyinga og viðskiptafélaga þeirra veittu Íslandsbanki og Máttur sameiginlegt millilagslán vegna kaupanna sem nam kr. 1,6 milljörðum króna.

Eins og rakið var í frétt DV á sínum tíma eignaðist Íslandsbanki 12 prósenta hlut í N1 og Fjárfestingarfélagið Máttur 12 prósent, en bankinn átti þá 50 prósent í Mætti á móti SJ1, dótturfélagi Sjóvár. Bankinn seldi svo 12 prósenta hlut sinn í N1 til Máttar árið 2007 og jafnframt 50 prósenta hlut í Mætti til Hafsilfurs og Hrómundar.

Þessar lánveitingar áttu sér hins vegar stað þegar Engeyjarfjölskyldan var ráðandi í Glitni, sem áður hét Íslandsbanki. Vorið 2007 seldu þeir Einar og Benedikt Sveinssynir bróðurpart hlutabréfa sinna í bankanum til aðila tengdum Baugi. Þá yfirtók FL Group og Jón Ásgeir Jóhannesson bankann og eftir það var samband Engeyinganna við Glitni ekki eins náið og áður.

Fjallað er um lán bankanna til BNT í 2. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið. Þar kemur fram að N1 hafi verið stærsti einstaki lántakandi Glitnis á árunum fyrir hrun, en Máttur og BNT hafi einnig verið stórir lántakendur með tæplega 100 milljóna evra lán hvort við fall bankans. „Sem hlutfall af eiginfjárgrunni bankans fóru heildarútlán Glitnis til hópsins hæst í yfir 20% í byrjun árs 2006 og voru tæp 15% við fall bankans,“ segir í skýrslunni. 

Alls voru skuldbindingar BNT hjá Glitni um 30 milljarðar árið 2008. Árið 2011 greindi svo Viðskiptablaðið frá því að heildarskuldir BNT, Umtaks og N1 hefðu numið nærri 60 milljörðum króna þegar Arion banki og Íslandsbanki, stærstu kröfuhafar félaganna, samþykktu fjárhagslega endurskipulagningu þeirra ásamt skuldabréfaeigendum sem að stórum hluta voru íslenskir lífeyrissjóðir. RÚV greindi frá því sama ár að lífeyrissjóðirnir hefðu tapað 4,4 milljörðum króna þegar gengið var frá samningnum kröfuhafa við N1. 20 milljarða skuldir Umtaks, fasteignafélags N1, voru afskrifaðar af kröfuhöfum og þegar BNT var úrskurðað gjaldþrota árið 2013 fundust engar eign­ir upp í 4,3 millj­arða kröf­ur á hend­ur fé­lag­inu. 

 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Viðskipti Bjarna Benediktssonar

Öll hneykslismálin sem Bjarni stóð af sér
Greining

Öll hneykslis­mál­in sem Bjarni stóð af sér

Bjarni Bene­dikts­son, formað­ur Sjálf­stæð­is­flokks­ins og fyrr­ver­andi fjár­mála­ráð­herra, tengd­ist ýms­um hneykslis­mál­um sem komu upp á Ís­landi í kjöl­far efna­hags­hruns­ins ár­ið 2008. Hann stóð þau öll af sér og var fyr­ir vik­ið oft kennd­ur við efn­ið teflon vegna þess að hann náði alltaf að hrista af sér erf­ið mál á með­an aðr­ir stjórn­mála­menn gátu það ekki.
Selur bankann sem fjölskyldan átti
Úttekt

Sel­ur bank­ann sem fjöl­skyld­an átti

Bjarni Bene­dikts­son upp­lýsti ekki um að­komu sína að fjár­fest­ing­um Eng­ey­inga á með­an hann sat á þingi í að­drag­anda hruns. Fjöl­skylda hans átti ráð­andi hlut í Ís­lands­banka sem lán­aði fé­lög­um þeirra tugi millj­arða króna og einnig Bjarna per­sónu­lega. Nú mæl­ir hann fyr­ir sölu rík­is­ins á hlut í bank­an­um. For­sag­an skað­ar traust, að mati sam­taka gegn spill­ingu.
Atburðarásin í aðdraganda hruns: Hvað vissum við og hvað vissu þeir?
Rannsókn

At­burða­rás­in í að­drag­anda hruns: Hvað viss­um við og hvað vissu þeir?

Þeg­ar erf­ið­leik­ar komu upp hjá Glitni og stór­um hlut­höf­um, fyrst í fe­brú­ar 2008 og svo í sept­em­ber, skipt­ist Bjarni Bene­dikts­son á upp­lýs­ing­um við stjórn­end­ur Glitn­is og sat fundi um stöðu bank­anna með­an hann sjálf­ur, fað­ir hans og föð­ur­bróð­ir komu gríð­ar­leg­um fjár­mun­um í var. Hér er far­ið yf­ir at­burða­rás­ina í máli og mynd­um.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár