Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi og sá núverandi þingmaður sem setið hefur lengst á Alþingi, kallaði Sjálfstæðisflokkinn „fatlaðan“ á frambjóðendafundi Menntaskólans á Akureyri í dag vegna tregðu flokksins til að afla ríkissjóði tekna.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, svaraði Steingrími fullum hálsi, gagnrýndi orðaval hans og uppskar mikinn fögnuð.
Orðrétt sagði Steingrímur: „Það yrði þægilegast að við og Samfylkingin myndum ná saman, en síðan horfum við til viðbótar til þeirra flokka sem eru næst okkur í litrófinu, af því að við viljum mynda vinstristjórn, félagshyggjustjórn, sem nær af stað með sterka uppbyggingaráætlanir fyrir landið og velferðarkerfið og ég sé ekki að það verði auðvelt að koma því saman með Sjálfstæðisflokknum, sem er eins og kunnugt er fatlaður og getur ekki aflað tekna.“
Áslaug Arna svaraði og sagði Steingrím vera að líkja Sjálfstæðisflokknum við hreyfihamlaðan einstakling. „Ég þarf nú fyrst að frábiðja mér það að pólitíkusar tali með þeim hætti að líkja einhverjum sem þeim líkar ekki við við fatlaða einstaklinga. Það er fáránlegt. Við tölum ekki um að flokkar séu fatlaðir,“ sagði hún.
Þetta er annað dæmið í dag um að reyndir stjórnmálamenn veki athygli vegna ummæla á frambjóðendafundum í menntaskólum, en Stundin fjallaði í dag um viðbrögð Bjarna Benediktssonar við spurningu um Borgunarmálið á fundi sem haldinn var í Verzlunarskóla Íslands.
Steingrímur J. baðst afsökunar á ummælum sínum næst þegar hann fékk hljóðnemann í hendurnar.
Athugasemdir