„Ég skrifa ykkur fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands. Við förum fram á að greinin ‘Ríkisstjórn Íslands féll vegna þess að faðir forsætisráðherra vildi að barnaníðingur yrði náðaður. Hvað er í gangi?’ verði fjarlægð vegna fjölda staðreyndavillna og afbakana.“
Þannig hefst tölvupóstur sem ritstjórnarskrifstofu Washington Post, eins virtasta dagblaðs heims, barst frá starfsmanni almannatenglaskrifstofunnar Burson Marsteller þann 27. september síðastliðinn.
Málið snýst um pistil eftir Janet Elise Johnson, prófessor í stjórnmálafræði og kvennafræðum við Brooklyn College, þar sem fjallað er um stjórnmálaástandið á Íslandi, stjórnarslitin og það sem kallað hefur verið „barnaníðingahneykslið“ í erlendum miðlum.
Villan sem fór helst fyrir brjóstið á íslenskum stjórnvöldum er sú að í greininni var upphaflega talað um „náðun“ (e. pardon) frekar en uppreist æru (restored honour) og gefið í skyn að barnaníðingar hefðu fengið hreint sakavottorð frekar en „óflekkað mannorð“. Þetta var lagfært skömmu eftir að greinin birtist.
Stundin hafði samband við almannatengilinn, sem sérhæfir sig í krísustjórnun hjá Burson Marsteller, og spurði hvort hún starfaði fyrir forsætisráðuneytið eða utanríkisráðuneytið og í hverju vinnan fælist. Hún vildi ekki svara spurningum blaðamanns í síma en bað um að blaðamaður sendi sér upplýsingar um sjálfan sig.
Eftir að Stundin sendi henni tölvupóst og spurði hvort hún hefði sent fleiri sambærileg skeyti til dagblaða barst svar frá upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins. Þar segir:
Íslensk stjórnvöld hafa notið ráðgjafar almannatengslafyrirtækisins Burson-Marsteller er varða orðspor Íslands, m.a. í tengslum við efnahagsmál, sjávarútvegsmál, jafnréttismál, ferðamennsku ofl. eins og komið hefur fram í fjölmiðlum. Utanríkisráðuneytið hefur umsjón með þessari vinnu fyrir hönd stjórnarráðsins. Hluti starfs Burson-Marsteller er að leiðrétta það sem rangt er farið með, eins og í þessu tilviki, þar sem rangfærslur sem varða uppreist æru og íslenska stjórnskipan birtust í einu virtasta dagblaði heims. Rétt er að minna á að utanríkisráðherra sagði frá því í íslenskum fjölmiðlum fyrir tæpum hálfum mánuði að utanríkisráðuneytið ynni að því að leiðrétta rangfærslur tengdar málinu.
Athugasemdir