Bjarni Benediktsson gerði ráð fyrir því árið 2007 að hagnaður af fasteignaviðskiptum aflandsfélagsins Falson & Co, yrði á bilinu 800.000 til 1.000.000 dollarar, eða rúmar 50 til 60 milljónir íslenskra króna á þáverandi gengi.
Þetta kemur fram í tölvupósti sem Bjarni sendi Ægi Birgissyni, viðskiptafélaga sínum, í desember 2007 eftir að hafa lesið stöðuskýrslu Aska Capital um Falson & Co og sóknarfæri félagsins í Dúbaí. „Þetta er aðeins lakara en maður var að vona en samt í fínu lagi,“ skrifaði Bjarni.
Allt frá því að upplýst var vorið 2016 að þrír ráðherrar þáverandi ríkisstjórnar tengdust aflandsfélögum hefur Bjarni Benediktsson gert lítið úr aðkomu sinni að viðskiptum Falson & Co og haldið því fram að hann hafi ekki vitað að félagið væri skráð á Seychelles-eyjum. Tölvupóstssamskipti sem Stundin hefur undir höndum sýna að allt frá byrjun var lagt upp með að fasteignaviðskiptin í Dúbaí færu fram í gegnum félag á Seychelles-eyjum, „Seychelles félag“ eins og viðskiptafélagarnir kölluðu það.
„Fyrir tíu árum keypti ég fyrir tæpar 40 m.kr. þriðjungshlut í eignarhaldsfélagi sem Landsbankinn í Lúxemborg hafði stofnað fyrir viðskiptafélaga minn um kaup á fasteign í Dubai,“ sagði Bjarni í yfirlýsingu þann 29. mars 2016 þegar umfjöllun RÚV um Falson og aflandsfélög fleiri stjórnmálamanna var yfirvofandi.
Bjarni fullyrti að félagið hefði aldrei tekið lán og aldrei haft neina starfsemi. „Eini tilgangur félagsins var að halda utan um eignina í Dubai en svo fór að við tókum aldrei við henni,“ sagði hann.
„Seychelles félag“
Meðeigendur Bjarna að félaginu voru Ægir Birgisson, sem vann hjá Straumi fjárfestingarbanka, og Baldvin Valdimarsson, framkvæmdastjóri Málningar hf.
„Gerum þetta líklega í Seychelles félagi. við verðum 3 sem munum eiga það til jafns. fínt að láta Lais Lux sjá um þetta,“ segir í tölvupósti Ægis til Brands Thors Ludwigs, framkvæmdastjóra Aquila Venture Partners, sem síðar átti eftir að renna saman við Askar Capital.
Tölvupósturinn var sendur 20. desember 2005, og í svari Brands er farið sérstaklega yfir kostnað þess að stofna félag á Seychelles-eyjum og fá lögfræðiráðgjöf við yfirferð samninga þar í landi.
Panamaskjölin sýndu að reynt var að fela eignarhald Falson & Co eftir því sem hægt var. Þannig voru hlutabréf í félaginu gefin út á handhafa frekar en raunverulega eigendur að sérstakri ósk starfsmanns Landsbankans í Lúxemborg sem keypti félagið úr hillum lögmannsstofunnar Mossack Fonseca sem sérhæfir sig í að setja upp félög á aflandseyjum.
Þann 3. apríl 2006 lét Bjarni Benediktsson millifæra 16 milljónir af reikningi sínum hjá Glitni yfir á Falson & Co. „Hæ, getið þið sent 227.000 USD fyrir hann Bjarna Ben?“ segir í tölvupósti milli starfsmanna. „Reikningseigandi er Falson & CO sjá allar upplýsingar í skjalinu sem fylgir hér með.“ Alls átti svo Bjarni, sem fyrr segir, eftir að greiða um 40 milljónir fyrir þriðjungshlut í Falson.
Krúnudjásn í Dúbaí
Tilgangur félagsins var að kaupa allar fjórar íbúðirnar á 28. hæð lúxusturnsins Emirates Crown Tower í Dúbaí, en til stóð að taka lán fyrir 60 til 70 prósentum fasteignakaupanna í samstarfi við Askar Capital og Icebank hf. Fram kemur í stöðuskýrslu Askar Capital að hönnunarfyrirtæki hafi verið falið að endurhanna íbúðirnar og að til standi að markaðssetja þær sérstaklega sem „krúnudjásnin“ og selja þær svo áfram með umtalsverðum hagnaði strax á öðrum ársfjórðungi ársins 2008.
Í byrjun ársins 2008 hafði Bjarni Benediktsson samband við viðskiptafélaga sína til að segja þeim að íbúðirnar í turninum væru tilbúnar.
„Nú er beðið eftir einhverjum leyfum en planið er ennþá að setja upp tvær sýningaríbúðir og selja síðan allar 5 hæðirnar sem Brandur er með á sínum vegum á 2. ársfjórðungi. Hann telur góðar líkur á því að það takist og málið verði gert upp við okkur í maí eða júní,“ skrifaði hann. „Ég spurði hann hvort það væri ekki vont að koma með 5 hæðir – samtals 20 eignir á sama tíma inn á markaðinn. Hann sagði eftirspurnina gríðarlega eftir svona stórum eignum og hafði engar áhyggjur af því. Útsýnið úr turninum hjá okkur er m.a. beint yfir pálmann – eyjaklasann.“
Eins og Bjarni hefur sjálfur lagt áherslu á drógu þeir félagarnir sig út úr viðskiptunum á Dúbaí árið 2008. „Ákveðið var að ganga út úr kaupunum árið 2008 og árið 2009 var málið gert upp með tapi og félagið sett í afskráningarferli,“ sagði Bjarni í yfirlýsingu sinni, en á þessum tíma var áhugi félaganna farinn að beinast í ríkara mæli að viðskiptatækifærum í Miami sem einnig er fjallað um í nýjasta tölublaði Stundarinnar.
Athugasemdir