Nú þegar styttist í næstu kosningar má ég til með að átta mig á hvort ég þekki einhverja íslenska stjórnmálamenn. Og þá rifjast upp þegar ég fór með Illuga Gunnarssyni í bað. Þetta var rétt eftir hrun og á þeim tíma áttum við Illugi sameiginlega vini því Ísland getur verið svo skelfilega lítið. Eitt leiðir af öðru og fyrr en varir er maður flæktur inn í vafasöm matarboð og endar sem diplómatískur ísbjörn í heitum potti í úthverfi Reykjavíkur.
Fljótt á litið virtist Illugi ekki vera verri félagsskapur en hver annar, bara Íslendingur með aðrar skoðanir og lífssýn en ég sjálfur. Hann átti að vísu eftir að reynast þjóðinni dýrt spaug sem menntamálaráðherra – gott ef það var ekki hann sem setti virðisaukaskatt á bækur og lét senda öllum börnum á Íslandi auðar síður til að lesa af; svokallaða hvítbók. Enda líkastur ugluspegli þarna í pottinum. Glotti djöfullega og endurtók í sífellu sömu söguna um alnafna sem átti að hafa verið með honum í verbúð á Vestfjörðum og var alltaf að fá send til sín klámblöð. Þetta reyndist síðan haugalygi því það er bara einn miðaldra Illugi Gunnarsson í Íslendingabók.
Að öðru leyti man ég ekki mikið eftir því hvað fór fram í þessum potti fyrir utan að við drukkum bjór og Illugi reyndi að sannfæra mig um hvað Margrét Thatcher hefði verið sniðugur stjórnmálamaður. Þegar loks tók að birta af degi afréð ég að drífa mig upp úr pottinum og leita að salerninu. Einhvern veginn tókst mér að villast í stóru einbýlishúsi og mætti á endanum öskrandi húsmóður – henni brá auðvitað við að hitta fyrir hvítabjörn heima hjá sér. Af einhverjum ástæðum situr þetta kvöld í mér eftir öll þessi ár þótt ég geti varla kvartað undan trakteringum húsráðenda.
„Við erum öll einhvern veginn alltaf ofan í hvert öðru í þessu litla landi.“
Hvað var ég, hvítabjörninn, annars að gera þarna? Við eigum auðvitað að virða skoðanir náungans en stóra spurningin er samt sem áður hvort sífelldar málamiðlanir, það að hanga í heita pottinum fram á morgun með fólki sem er ósammála manni um nánast allt milli himins og jarðar sé endilega heilsusamlegt til lengdar, jafnvel fyrir bjarndýr. Við erum öll einhvern veginn alltaf ofan í hvert öðru í þessu litla landi og á endanum getur reynst fjári erfitt að taka af skarið og breyta nokkrum sköpuðum hlut.
Ég umgekkst fleiri pólitíkusa þarna rétt eftir hrun, gott ef ég var ekki einhvern tímann í bröns með Illuga Gunnarssyni og Katrínu Jakobsdóttur því á Íslandi hittast pólitískir andstæðingar á sínum prívat tíma, þeir borða saman og hlæja kattarlega að bröndurum hver annars meðan ísbjörninn lætur fara lítið fyrir sér úti í horni og hugsar um hvað hrátt kjöt er gott á bragðið. Þetta var aldrei mín sena vegna þess að ég er ísbjörn og ég skil ekki íslenska stjórnmálamenn. Ég skil ekki hvernig þeim tekst að klúðra stjórn landsins jafn illa og raun ber vitni.
Við búum í einu ríkasta landi í Evrópu og samt er það þannig að atvinnulaus aumingi sem býr í Berlín getur gengið inn í fallega skreyttan stórmarkað með tíu evru seðil og keypt sér mat sem dugar honum út daginn. Á sama tíma þarf Íslendingur sem er kannski með yfir hálfa milljón í laun á mánuði að keyra lengst út í úthverfi Reykjavíkur og versla í hráslagalegum vöruskemmum, hann þarf helst að kaupa hverja vöru í miklu magni til að sjá sér og sínum farborða. Tíu evru seðill dugar varla fyrir helstu nauðsynjum.
Í sumar þegar umræðan um sauðfjárskjötfjallið stóð sem hæst sló ég fram þeirri hugmynd að við ættum að flytja inn hundrað kokka af tuttugu þjóðernum. Halda stóra street food-hátíð í vöruskemmu úti á Granda með mat frá tíu löndum þar sem lambakjöt væri þrjátíu prósent af hráefninu. Alls konar lambakjötsréttir byggðir á matarhefð frá Karíbahafinu til Indlands. Aðalmarkhópurinn væru túristar en við hin nytum góðs af.
Þessari brjáluðu hugmynd var yfirleitt tekið ágætlega þar til ágæt kona sem hefur starfað lengi í veitingageiranum skaut hana niður. Hvar áttu kokkarnir að búa? Hvort ég vissi hversu erfitt væri að fá leyfi fyrir svona? Og þá mundi ég eftir þessum stjórnmálamönnum sem ég þekki. Gætu þeir ekki látið sér detta eitthvað í hug varðandi þetta blessaða kjötfjall? Nei, það er einmitt vandamál að þeim dettur aldrei neitt í hug. Þeir sitja bara í heitum pottum fram á morgun, eða í sjónvarpssölum, eða í reykfylltum bakherbergjum og hlæja kattarlega að bröndurum hver annars og semja af sér. Þeir munu skeina sér með nýju stjórnarskránni og loka landinu með Útlendingastofnun og matvörutollum. Og það er víst nokkuð sama hvern ég kýs, því á endanum er ég bara hrakinn ísbjörn á hjara veraldar.
Athugasemdir