Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, fyrrverandi formaður Framsóknarfélagsins í Reykjavík sem nýlega sagði sig úr flokknum og gekk til liðs við Miðflokkinn, nýtt framboð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, kann illa við að fjölmiðlamaðurinn Björn Ingi Hrafnsson seilist til áhrifa í Miðflokknum. „Björn Ingi sér um sig sjálfur. Hann á ekkert erindi í stjórnmál, hvað þá fjölmiðla eins og sagan sýnir því miður,“ segir Sveinn í samtali við Stundina.
Björn Ingi greindi frá því á Facebook í morgun að hann, og hópur í kringum hann sem undirbyggi nýtt borgaralega sinnað framboð til Alþingis, hefði ákveðið að ganga til liðs við hreyfingu Sigmundar Davíðs.
Sveini Hirti líst ekki á blikuna. „Nú reynir hann að klína sig utan í Miðflokkinn og Sigmund Davíð. Hefur enginn spurt hve margir eru á bakvið Samvinnuflokkinn? Ég er næstum viss um að Bingi sé þar einn og enginn annar,“ skrifaði Sveinn á Facebook í dag.
„Ég hef unnið fyrir Björn Inga í kosningum áður og veit hvernig hann vinnur. Ef hann heldur virkilega að hans sé óskað í stjórnmál í dag þá er því fljótt svarað – vertu úti!“
Sveinn segir jafnframt að Björn Ingi sé að gera „sorglega tilraun“ til að „koma sér á blað - eins og fyrr á kostnað annarra“. „Meðan ég styð Miðflokkinn þá fær þessi maður varla kaffisopa. Sem gamall dyravörður er minnsta mál að vísa honum út - aftur!“ Sveinn fjarlægði færsluna skömmu eftir að hún birtist.
Aðspurður segist Sveinn ekki hafa ákveðið hvort hann bjóði sig sjálfur fram eða einbeiti sér að grasrótinni í Miðflokknum. Hann er bjartsýnn á gengi hinnar nýju hreyfingar og bendir á að það segi ýmislegt að á aðeins fjórum dögum sé flokkurinn farinn að mælast með 7,3 prósenta fylgi í í könnunum.
Athugasemdir