Arabísk fjölskylda frá Ísrael með tvo unga drengi verður flutt úr landi eftir tvær vikur. Þau Hanadi Sbhehat og Muhamed Sadat Sbhehat hafa búið á Íslandi ásamt sonum sínum, sem eru sex ára og sjö ára gamlir, frá því í september 2016, en Útlendingastofnun telur að þau séu ekki í hættu í heimalandinu þrátt fyrir að arabar í Ísrael verði gjarnan fyrir aðkasti og líkamlegu ofbeldi vegna uppruna síns og þeim sé mismunað með ýmsum hætti.
Útlendingastofnun synjaði fjölskyldunni um hæli fyrr á árinu og hafnaði jafnframt þrautavarakröfu um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þau kærðu niðurstöðu Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála sem staðfesti synjunina þann 29. júní síðastliðinn. Lögmaður fjölskyldunnar fór svo fram á endurupptöku málsins og óskaði eftir því að réttaráhrifum yrði frestað. Þeirri beiðni var hafnað þann 18. ágúst.
„Strákarnir hafa eignast marga vini á Íslandi,“ segir Hanadi í samtali við Stundina. „Þeim finnst gaman í skólanum og eru glaðir. Ég vildi óska þess að við gætum fengið að búa hérna á Íslandi, vinna og lifa.“
Hanadi ólst upp í þorpinu Moquiblh í Ísrael og er arabísk að uppruna, rétt eins og Muhamed Sadat. Þau bjuggu í þorpinu Salem áður en þau flúðu frá Ísrael, en þorpið er afgirt og þar búa einungis arabar.
Fram kom í viðtölum Útlendingastofnunar við Hanadi og Muhamed að fjölskyldan hefði ítrekað orðið fyrir fordómum, mismunun og ýmiss konar áreiti vegna arabísks uppruna síns. Jafnframt vísuðu þau til þess að harðvítugar deilur hefðu átt sér stað milli fjölskyldna í Salem en ísraelska ríkið og lögreglan nær ekkert aðhafst í málinu. Mikið sé um skotárásir og íkveikjur í þorpinu og fjölskyldan hafi óttast um öryggi sitt.
Þau komu til landsins þann 13. september á síðasta ári og hafa þannig búið hér í hartnær 13 mánuði. Lagabreytingin sem Alþingi samþykkti í gær nær ekki til fjölskyldunnar, en breytingin felur í sér að stjórnvöldum er nú heimilt að veita barni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef það hefur ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 15 mánaða. Eva Dóra Kolbrúnardóttir, lögmaður fjölskyldunnar, segir í samtali við Stundina að vísað verði til lagabreytinganna málatilbúnaði fjölskyldunnar til stuðnings í ljósi hagsmuna og velferðar barnanna.
Staða araba í Ísrael er slæm
Í máli fjölskyldunnar er meðal annars byggt á því að þau séu fórnarlömb ofsókna á grundvelli þjóðernis, trúarbragða og vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi. Hanadi og Muhamed segjast hafa orðið fyrir kerfisbundinni og ólögmætri mismunun í Ísrael; fjölskyldan eigi á hættu ómannúðlega og vanvirðandi meðferð og að lífi þeirra yrði stofnað í hætti yrði þeim gert að snúa aftur til Ísraels.
Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um stöðu mannréttindamála í Ísrael kemur meðal annars fram að alvarlegustu mannréttindabrotin þar í landi séu mismunun samfélagsins og stofnana gagnvart ísraelskum ríkisborgurum af arabískum uppruna, sem margir hverjir líti á sig sem Palestínumenn. Þá eru heimildir um fjölmörg tilvik þar sem öryggissveitir Ísraelsríkis eða almennir borgarar hafi áreitt arabíska borgara vegna uppruna síns, auk fjölda tilvika þar sem hefndaraðgerður er beint gegn ísraelskum aröbum. Einnig eru dæmi um ofbeldi gyðinga gegn aröbum fyrir það eitt að tala arabísku á almannafæri.
Í skýrslu sérstaks mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna um skoðana- og tjáningarfrelsi koma fram upplýsingar um að oft sé litið á palestínska ríkisborgara Ísraels sem „óvin að innan“ í ljósi þjóðernis- og trúarlegra tengsla þeirra við Palestínumenn á hernumdu svæðunum og að þeir verði í kjölfarið fyrir margvíslegri mismunun og meðferð. Þá hafi CERD-eftirlitsnefndin einnig áhyggjur af því að sú óhóflega áhersla sem lögð sé á Ísrael sem gyðingaríki hvetji til mismununar og veiti borgurum landsins, sem ekki eru gyðingar, stöðu annars flokks borgara.
Ennfremur sæta ísraelsir ríkisborgarar af arabískum uppruna mismunun að því er varðar ríkisborgararéttindi. Samkvæmt lögum landsins er fjölskyldusameining ísralsks ríkisborgara og einstaklings sem býr á Vesturbakkanaum eða á Gaza ekki möguleg, sem skerðir fjölskyldutengsl, réttinn til að stofna til hjúskapar og val á maka. Þá eru í gildi lög í landinu sem gera kleift að svipta einstaklinga ríkisfangi af ýmsum ástæðum, meðal annars á grundvelli meintrar „óhollustu“ við ríkið eða vegna „brota á trausti“, og er lögunum stefnt óbeint að ríkisborgararéttindum palestínskra borgara landsins.
Börn sem eru ísraelskir ríkisborgarar af arabískum uppruna sæta einnig mismunun, en yfirvöld í Ísrael halda úti aðskildum almenningsskólum, annars vegar fyrir hebreskumælandi börn og hins vegar fyrir börn sem hafa arabísku að móðurmáli. Í skýrslu nefndar sem hefur eftirlit með framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna kemur fram að minna fé sé varið til menntamála vegna barna af arabískum uppruna en hinna. Þetta leiði til verri kennslu, lakari námsárangurs, alvarlegs skorts á skólastofum og kennsluaðstöðu og hærra brottfalls nemenda.
Athugasemdir