Má vera að mannkindina sé, með góðu móti, hægt að skera í tvennt — skipta limum hennar upp í aðskilda flokka góðs fólks og slæms? Vissulega auðveldar slíkt til muna alla þekkingarleit, greiningu og skilning, hverja tilraun til skýringar á fortíð jafnt sem samtíð: hrakfarir mannskepnunnar, hennar allra ljótustu móment, usli og eyðilegging, illvirki og svonefndar afturfarir — allt þetta og fleira til má, frá þessu sjónarhorni, rekja til þeirrar einföldu staðreyndar einberrar að vont fólk hafi, á tilteknum tímapunkti, haft yfirhöndina í átökum við gott fólk. Hugmyndin hringir kunnuglegum bjöllum, hljómar reyndar hreint ekki ný af nálinni, virðist til að mynda — þó allra síst eingöngu — harmónera í kvarttónum við afbrotafræði abrahamískra eingyðistrúarkredda. Saga hins viti og síðar riti borna manns, saga siðmenningarinnar, verður þannig ekki skilin í ljósi stéttaátaka — heldur einfaldlega sem stöðugur núningur tveggja ólíkra og að því er virðist alveg óskyldra manntegunda.
Síðastliðinn föstudag, þann 22. september, bauð Spegillinn, fréttaskýringaþáttur Ríkisútvarpsins, upp á örstutta predíkun á einmitt þessum nótum. Mættur var í hljóðverið maður, lögmaður nefndur Jón Gunnar Zoëga, sem á sínum tíma var réttargæslumaður Valdimars Olsen, eins fjórmenninganna sem árið 1976 máttu þola þriggja mánaða langa gæsluvarðhaldsvist í Síðumúlafangelsinu vegna rannsóknar Guðmundar- og Geirfinnsmálsins, en málið ræddi Jón einmitt við Hallgrím Indriðason, fréttamann. Torskiljanlegt er hvernig og hvers vegna til viðtalsins kom, enda hafði lögmaðurinn ekki upp á neitt innihald að bjóða — engan nýjan og áhugaverðan vinkil á málið, engar bitastæðar og óvæntar niðurstöður eftir skoðun málsskjalanna, engar vel steyptar stoðir afstöðu hans til stuðnings; í stuttu máli nákvæmlega ekkert — að undanskildum algjörlega óundirbyggðum alhæfingum og þreyttu og þreytandi, löngu úrsérgengnu aurkasti í garð þeirra sem Hæstiréttur sakfelldi í málinu.
Endurupptöku málsins kallar Jón Gunnar peningasóun. Fimmtán dómarar hafi nú þegar yfirfarið málið og komist að sömu niðurstöðunni — allir sem einn — og vísar til þess fjölda manna úr efsta lagi samfélagsins sem á einhverjum tímapunkti hafa haft ævi og æru sakborninganna í höndum sér: þrír í Sakadómi árið 1977, fimm í Hæstarétti þremur árum síðar, og loks sjö til viðbótar — í sama Hæstarétti, á sirkabát sama bletti, en undir annarri yfirbyggingu — tveimur áratugum eftir úrskurð Sakadóms, þá í tengslum við endurupptökubeiðni Sævars Marinós Ciesielski, eins hinna dæmdu. Um þessa niðurstöðu kemur endurupptökuferlið ekki til með að breyta miklu, segir lögmaðurinn, en bætir þó við — eins og til þess að baktryggja sig — að slíkt yrði honum „mikið áhyggjuefni,“ tæki vindhani réttlætisins skyndilega upp á því að snúa goggi sínum og kambi í aðra átt en fyrir tveimur áratugum og fjórum. Þessar yfirlýsingar rökstyður hann ekki — og er heldur ekki beðinn um það.
Í stuttu máli er Jón Gunnar sannfærður um fjórir sakborninganna hafi á endanum réttilega verið dæmdir sekir um tvö morð sem þeir frömdu, sá fimmti fyrir þátttöku í líkflutningi og sá sjötti fyrir hlut sinn í meinsæri ásamt tveimur morðingjanna. Lögmaðurinn hefur „enga trú“ á að lögreglan hafi beitt harðræði við yfirheyrslur — eða eins og hann orðar það, án þess að vera inntur eftir svo miklu sem hnífsoddi af kryddi, þunnu soði sínu til bragðauka: „Alveg klárt, alveg klárt, það gerðu þeir ekki.“ Hann segist þó ekkert geta sagt til um hvaða tilraunir fangaverðir í Síðumúla hafi hugsanlega tekið upp hjá sjálfum sér að framkvæma á sakborningunum, án þess þó að útskýra — og enn og aftur án þess að vera krafinn útskýringa á því — hvernig stendur á þessum feiknarlega muni á innsýn hans og þekkingu hvoru sinni: hverju sæti að hann búi yfir slíkri sannfæringu hvað góða hegðun og sannkristið atferli lögreglustéttarinnar varðar — en alls ekki í tilfelli fangavarðanna. En eins og til þess að réttlæta aðfarir fangavarðanna, hverra raunveruleikastoð er að hans mati þó enn einungis hýpótetísk, bendir Jón Gunnar á að að sökum endurtekinna breytinga á framburði sakborninga hafi andrúmsloftið í fangelsinu orðið verulega lævi blandið. „Það voru allir,“ segir hann og á þar við rannsóknaraðila og fangaverði, „orðnir svona ... pirraðir — við skulum orða það þannig.“
Raunar bendir flest til þess að ofangreindur sannfæringarmunur Jóns Gunnars eigi rætur sínar fyrst og fremst — og kannski einungis — að rekja til þeirrar meðferðar sem fyrrum skjólstæðingur hans, Valdimar Olsen, hlaut meðan á fangelsisvist hans stóð. Að sögn Jóns létust einhverjir fangavarðanna vera aðalsprautur rannsóknarinnar og fann skjólstæðingur hans, að hans sögn, fyrir því frá fyrsta degi. „Ég þekki glæpamenn þegar ég sé þá,“ sagði yfirfangavörðurinn við Valdimar í klefa hans eitt kvöldið, sem að mati Jóns Gunnars bendir til þess að fangaverðirnir hafi verið í einhverjum öðrum heimi en menn almennt. Það sem þó vantar í frásögn lögmannsins er sú staðreynd að útávið, á alla kanta, frá lögreglunni til almennings með viðkomu í fjölmiðlum, var þetta einmitt myndin sem birt var af sakborningunum — þeim sem á endanum voru sakfelldir. Þó sönn séu þarf ekki orð Ragnars Aðalsteinssonar, lögmanns og aðstoðarmanns Sævars við áðurnefnda upptökubeiðni, til að átta sig á því að sakborningarnir voru, í fjölmiðlum og af rannsóknaraðilum, dæmdir sekir löngu áður en til aðalmeðferðar málsins kom fyrir dómi — blöðin og málsgögnin tala alfarið sjálf sínu máli.
„Þarna störðu sökudólgarnir stjörfum augum framan í þjóðina á ófrýnilegum andlitsmyndum teknum í fangelsinu,“ eins og Stefán Unnsteinsson lýsir myndinni í stórgóðri úttekt sinni á Sævari Marinó — og reyndar málinu öllu — bókinni Stattu þig drengur (1980): „Útlitið eitt sér var næstum því nægilegt sem sönnun.“ Eða eins og Sævar sjálfur segir í ekki síður góðri bók sinni og Þorsteins Antonssonar, Þú skrínlagða heimska (2013): „Þegjandi samkomulag var um að fundist hefðu ekta mannhundar, sem jafnvel gætu gert sig ósýnilega. Upp frá því efaðist enginn um sekt þeirra. Það eitt nægði, að búið væri að uppgötva tilvist manngerðar, sem hefði ekki þekkst fyrr hér á landi nema í skáldsögum og í kvikmyndum. Þess utan hafði fólk heyrt af mönnum í útlandinu, sem gengu undir ýmsum nöfnum, svo sem Manson-gengið eða Boston Strangler. Þegar upp var staðið var því trúað að við hefðum drepið tvo menn með barsmíðum við sitthvort tækifærið án nokkurs skiljanlegs tilefnis.“
Gegnumgangandi út málið allt, sem og í margri umfjöllun um það, birtist þessi mynd af tvískiptu mannkyninu — annarsvegar góðu fólki, hinsvegar vondu — myndin sem nefnd var hér í upphafi og kristallast í þeim áðurgreindu orðum yfirfangavarðarins að þekkja megi glæpamenn í sjón. Til að skjóta stoðum undir þessa mynd hafa varðmenn kerfisins — hvort sem þeir bera skjaldamerki lögreglunnar, lögmannastéttarinnar eða „rannsóknarblaðamennskunnar“ — jafnan vísað til þess hin dæmdu hafi seint talist fyrirmyndarþegnar, óþokkarnir sem þau nú voru. Þeir voru „ekki neinir kórdrengir,“ eins og Ragnari Hall, settum saksóknara í málinu vegna endurupptökubeiðni Sævars, þótti ástæða til að benda á, heldur „a nasty group of kids,“ eins og Ómar Valdimarsson, blaðamaður, segir í nýlegri heimildamynd Dylan Howitt um málið, Out of Thin Air (2017). Ekkert ólíkt er uppi á teningnum hjá Jóni Gunnari Zoëga sem, undir lok samtalsins við fréttamann Spegilsins, segir „rétt að geta þess að þetta unga fólk var... voru engir englar“ — og undirstrikar þannig mikilsvert framlag sitt til afbrotafræðinnar. „Þetta var landsliðið í smáglæpum,“ segir hann að lokum með upphrópun.
Málun og stöðugt viðhald þessarar myndar þjónar þeim tilgangi einum að réttlæta meðferðina á sakborningum málsins — þá meðferð, öllu heldur, sem þau segjast hafa orðið fyrir. Vont fólk gerir vonda hluti, segir kreddan, og þar með verður smáglæpamaður fyrirhafnarlaust að morðingja, á sekúndubroti, án þess að svo mikið sem depla auga. Ekkert harðræði átti sér stað í rannsókninni, segir sagan. Hafi hin dæmdu drepið þá Guðmund og Geirfinn — sem þau vissulega gerðu, segir sagan líka — áttu þau það hinsvegar óumdeilanlega inni að verða fyrir barðinu á föstum leikatriðum landsliðsins í stórglæpum. En hafi þau ekki gert það, eins og þau í örvæntingarfullu bakkaklóri sínu halda fram, verðskulduðu þau meðferðina samt sem áður, sökum — já, hvers? — eðlislægrar illsku sinnar. Út í þau urðu menn líka svo auðveldlega „svona... pirraðir — við skulum orða það þannig.“
Valdimar Olsen var, ásamt þeim Einari Bollasyni, bróður Erlu Bolladóttur, eins sakborninganna, og Klúbbsmönnunum svokölluðu, Magnúsi Leópoldssyni og Sigurbirni Eiríkssyni, handtekinn og settur í gæsluvarðhald snemma árs 1976, sakaðir um tengsl við hvarf Geirfinns Einarssonar. Sagan opinbera — saga kerfisins — sú sem Hæstaréttardómurinn stendur og fellur með — segir að Erla Bolladóttir og Sævar Marinó Ciesielski hafi, í félagi við Kristján Viðar Viðarsson, sem einnig var sakfelldur í málinu, haft samantekin ráð um að bendla fjórmenningana ranglega við meint morðið á Geirfinni, sem í rannsókninni er gengið út frá að hafi verið framið í Dráttarbrautinni í Keflavík að kvöldi 19. nóvember 1974. Á grundvelli þessarar sögu var fjórmenningunum á endanum sleppt úr haldi og þeim síðar greiddar bætur sökum þess miska sem gæsluvarðhaldsvistin olli þeim. Og vissulega hefur Erla gengist við því að hafa bendlað fjórmenningana við málið, eins og reyndar fjölda annarra sem lögreglan sá — af (enn sem komið er) óútskýrðum ástæðum — ekki ástæðu til að handtaka. En undir allra efsta lagi yfirborðsins er framvindan með öðru sniði en sú sem í opinberu sögunni er að finna: af frásögnum Erlu og annarra sakborninga að dæma, sem og ekki síst sjálfum skjölum málsins, bendir flest — ef ekki beinlínis allt — til þess að fjórmenningunum (og hinum áðurnefnda óhandtekna fjölda) hafi verið blandað inn í málið af sjálfum rannsóknaraðilunum, en þó með vissum forvirkum varnaðaraðgerðum svo sökinni mætti, með valdi, varpa á Erlu, Sævar og Kristján ef ómögulega tækist að finna fjórmenningunum sannfærandi stað á vettvangi sögunnar. Morðsagan úr Dráttarbrautinni hafði lögreglunni borist til eyrna og augna löngu áður en Sævar og Erla voru færð í gæsluvarðhald vegna fjársvika, og í kjölfarið, að því er virðist upp úr þurru, bendluð við hvörfin tvö — fyrst Guðmundar, síðan Geirfinns. Í þokkabót hefur Jón Daníelsson — höfundur bókarinnar Sá sem flýr undan dýri (2016), sem að öðrum ólöstuðum er ein greinarbesta faktíska úttekt sem gerð hefur verið á Guðmundar- og Geirfinnsmálinu — rakið hvernig Erla bar aldrei sakir á Valdimar með beinum hætti, heldur einungis óbeinum. („Valdimar Olsen held ég að hafi einnig verið staddur þarna,“ stendur í málsskjölum sem styðja eiga ákæruna — og einnig: „Sævar sagði við mig að þeir væru þarna allir og nefndi þá Valdimar Olsen...“) Sökum þessa, bendir Jón á, var ríkissaksóknara óheimilt, samkvæmt lögum, að ákæra Erlu fyrir rangar sakargiftir í garð Valdimars.
Þetta allt telur nafni hans af Zoëga-ætt hinsvegar ekki upp á marga fiska. Jón Gunnar segir Erlu hafa verið utan tukthússins „að góðvild lögreglunnar“ — þetta eru góðir menn, því aldrei skal gleyma — svo hún gæti verið hjá nýfæddu barni sínu. Því er „af og frá,“ segir lögmaðurinn, að lögreglan hafi yfir höfuð verið fær um að beita Erlu Bolladóttur þrýstingi handan fangelsisveggjanna, líkt og hann geti — þá líklega fyrir tilstilli þeirrar talentu sem englarnir hafa fram yfir hundana — séð með augum Erlu, fundið til í gegnum húð hennar, upplifað aðstæður hennar fyrir fjórum áratugum með beinni viðkomu í líkama hennar og sál. Hér birtist mynd, máluð með penslum og litapallettu skyldrar einföldunaráráttu og myndin af átökum góðs fólks og vonds: vandræðabarnið Erla Bolladóttir, óþokkakvendið sem hefði átt að sitja bakvið lás og slá, en mátti aftur á móti um frjálst höfuð strjúka sökum ómældrar gæsku lögreglunnar, ber ábyrgð á þeirri ákvörðun sömu lögreglu, lögbundnum einkaleyfishafa slíkrar valdbeitingar, að handtaka fjóra saklausa menn, bendla þá við mannshvarf — morð — og einangra þá mánuðum saman með svo alvarlegum afleiðingum að einn þeirra, fyrrnefndur Einar Bollason, bróðir Erlu, segist á ákveðnum tímapunkti hafa hugleitt hvort hann hafi hugsanlega, í raun og veru, átt hlutdeild í atviki sem hann myndi hreinlega ekki eftir. Engu virðist skipta sú staðreynd, sem augljós er á öllu því sem skrifað hefur verið um málið, af bæði einstaklingum og hinu opinbera, að lögreglan krækti Sævari Marinó, barnsföður Erlu, á öngulinn og beitti honum þannig gegn henni — eða öllu heldur myndinni af honum sem illskuna holdi klædda — í tilfinningalegum skæruhernaði sem einungis stórglæpalandsliðið hefur færi á og svigrúm til að stunda. Heldur skiptir engu að mitt í hinu mikla athafnafrelsi Erlu á umræddum tíma var hún undir stöðugu eftirliti lögreglunnar, í öskudagsbúningi umhyggjunnar, sem raðaði bútunum þannig upp að úr varð mynd af vondum heimi hvar Erlu stóð ógn af öllum nema — hver hefði trúað því? — einmitt henni, sjálfri lögreglunni, sömu stofnun og setti púsluspilið saman til að byrja með. Nei, skófla er skófla, pípa undantekningalaust pípa, vont fólk er vont og athafnar sig eftir því — og fangelsisveggir eru einungis raunverulegir séu þeir efnislegir, harðir viðkomu, reistir úr steinsteypu, gaddavír og skotheldu gleri. Veitist hundarnir með vígtönnunum að þessum vitsmunalegu tótemsúlum mannfélagsins rísa englarnir upp á afturvængina, taka upp tólið og panta viðtalstíma hjá sérlegum útverði sannleikans — sem blessunarlega hefur ekkert út á hina einföldu afbrotafræði að setja.
Jón Gunnar Zoëga er allra síst einn um þessa sannfæringu. Og ekki er svosem við öðru að búast frá þeim sem kvittuðu undir rannsókn málsins: höfundur sögu hlýtur jú að vilja standa með henni. Öllu eftirtektarverðari — og jafnframt til marks um þá margnefndu einföldu heimsmynd sem ítrekað er máluð upp — er sú niðurstaða endurupptökunefndar að taka skuli Guðmundar- og Geirfinnsmálið upp á ný að undanskildum meinsærishlutanum einum. Hana er aðeins hægt að túlka á einn veg: þó flest bendi til þess að fólk hafi ranglega verið dæmt sekt um tvö morð — morð sem ekkert bendir til að hafi nokkurn tímann verið framin — skal samt sem áður ganga út frá því sem gefnum hlut að sama fólk hafi af illkvittni, sirkabát um það leyti sem síðara morðið var ekki framið, tekið sig saman um að bendla, löngu síðar, fjóra alsaklausa menn við hið óframda morð. Slíkt gerir auðvitað aðeins vont fólk, aðeins ekta mannhundar, sem refsa skal — sama hvað — kannski einmitt fyrir að hafa ekki staðist fyllilega þær skýru og einföldu hegðunar- og atferliskröfur sem hinir góðu setja þeim vondu.
Athugasemdir