Sonur minn er búinn að vera grænmetisæta í þrjá mánuði og ætlar greinilega ekki að láta deigan síga. Hann borðar ekki kjöt og er sérlega stoltur af því. Um daginn þegar ég var að slafra í mig kjötmeti horfði hann á mig með yfirlætissvip og sagði með glotti á vör: „Ég er betri en þú!“
Þetta var vitaskuld kaldhæðnispaug hjá unga manninum – en allt gott spaug fær mann jú til að hugsa. Er sá sem borðar kjöt verri manneskja en sú sem sleppir því? Og hvað er að vera góð manneskja?
Sjálfur tel ég mig hafa fengið frekar venjulegt íslenskt uppeldi. Foreldra mína tel ég vera gott fólk og sem ungur drengur tel ég mig hafa verið nokkuð góðan – svona þannig. Ég var ekkert að pína dýr eða stríða vinum mínum alltof mikið. Ég var að vísu pínu vondur við litla bróður minn – en ég hef reynt að bæta mig síðan – og svo átti hann það auðvitað skilið. En kannski var ég ekkert voða mikið að hugsa um það hvort ég væri góður eða vondur.
En þegar ég komst á unglingsár þá fór heimur minn að snúast um pönktónlist, sem í eðli sínu byggði á niðurrifi og því að vera á móti því sem áður þótti vera gott. Þessu fylgdi grundvallarafstaða sem var á vissan hátt neikvæð – öfugt við það sem fylgdi hippunum tíu árum áður, en þeir gengust upp í að vera friðsamir, síðhærðir, allsberir, frjálsir og umfram allt – góðir.
Pönkarar vildu meira vera vondir. Við vildum að fólk óttaðist okkur. Við vildum hrinda frá fremur en laða að. En það var samt í raun bara yfirborð. Ég man ekki eftir að neinn af pönkaravinum mínum hafi verið vond manneskja. Eiginlega þvert á móti. Góðmennskan var í raun mjög mikil hjá þessum hóp.
Fyrir nokkrum árum sagði ágæt kunningjakona mín mér sögu frá æskuárum hennar í Kópavogi. Hún var rétt um átta ára gömul og var alltaf svo hrædd við pönkarana sem hengu á skiptistöðinni við Digranesveg. Einn daginn þurfti hún að fara yfir fjölfarna götu þegar pönkari vatt sér að henni og bauðst til að leiða hana yfir götuna. Þarna urðu hvörf í sálarlífi þessarar ágætu stúlku. Hún hætti að vera hrædd við pönkara.
Þessi saga fannst mér lýsa vel hinu hreina hjartalagi hjá okkur pönkurunum. Fyrir mér voru það diskófríkin sem voru slæm. Íþróttagaurarnir sem tóku í vörina. Einu sinni sá ég diskógaur lemja kærustuna sína á diskóteki. Það fannst mér allt annað en falleg sjón. Svona gerðist aldrei í kreðsum pönkaranna – allavega ekki í mínu minni.
„Af hverju var ég svona á móti því að talað væri um mig sem góðan? Kannski vegna þess að ég hafði lært að góðmennska er afstætt hugtak.“
En þrátt fyrir að við værum góðir krakkar var aldrei haft orð á slíku. Við vildum helst ekki heyra á það minnst. Mér fannst fátt ömurlegra en að vera talinn „góður strákur“. „Hér hvílir Sigurjón Kjartansson, hann var góður strákur“ – nei takk!
Og af hverju var ég svona á móti því að talað væri um mig sem góðan? Kannski vegna þess að ég hafði lært að góðmennska er afstætt hugtak. Og jafnvel hægt að halda því fram að það sé valkvætt. Við ölumst upp í menningu sem hreinlega neyðir okkur til að horfa í hina áttina þegar okkur hentar. Og það er sama hvaða menningu við ölumst upp í – hvort sem um er að ræða vestrænni borg eða í litlum ættbálki í Amazon-frumskóginum – öll þurfum við að kljást við mennskuna í okkur sjálfum.
Því við erum jú menn – gáfaðasta skepnan í heiminum – að okkar eigin sögn. Og við ráðum þannig yfir heiminum – lífinu. Og lífið er í eðli sínu ósanngjarnt – þó að nýleg könnun sem gerð var hér á Íslandi hafi sýnt fram á annað. Þar var spurt „Finnst þér lífið verið sanngjarnt?“ og 72 prósent svöruðu játandi. En spurningin var á vissan hátt villandi „Finnst þér ...“ Meirihlutinn var greinilega ánægður með lífið – og fannst það sanngjarnt, altént það sem sneri að því sjálfu. En spurningin snerist samt ekki um það. Hluti af þeim 29,9 prósentum sem svöruðu neitandi voru kannski ánægð með lífið en hugsuðu þetta lengra, því staðreyndin er – og þetta er ekki skoðun heldur er þetta staðreynd – að lífið er ekki sanngjarnt, sama hvernig þú lítur á það. Það er vísindalega sannað. MMR hefðu allt eins getað spurt: Finnst þér jörðin vera hnöttótt? Lífið getur ekki með nokkru móti verið sanngjarnt þótt þér líði sjálfum ágætlega.
Og þannig er það með mennskuna sjálfa. Ef þú hefur það ágætt er það alltaf á kostnað einhverrar annarrar manneskju, dýrs, plöntu eða annarrar lífveru. Og ef að góðmennska snýst um það getur þú aldrei verið fullkomlega góður. Þannig virkar nefnilega ekki lífið.
En þá komum við aftur að grundvallarspurningunni: Hvað er að vera góður? Er það að vera saklaus – og þar með nógu vitlaus til að þú gerir þér ekki grein fyrir því að þú lifir í ósanngjörnum heimi og gengur í buxum sem voru saumaðar af sjö ára gömlum þrælum á Indlandi? Eða er það að vera meðvitaður og sniðganga allt sem gæti komið þér í vitlausan enda þessa óréttláta heims? En þá byrja nú hlutirnir að flækjast.
Ef þú vilt vera umhverfisvænn en samt keyra bíl þá telja sumir að best sé að fá sér rafmagnsbíl. En þá koma aðrir sem segja að framleiðsla á rafgeymum í slíka bíla sé með afbrigðum óumhverfisvæn. Þú vilt sniðganga Ísrael af því þér finnst þeir vondir við Palestínumenn. Það þýðir að þú þarft að sniðganga ansi margar vörur sem við notum dagsdaglega í nútíma lífi og þá má líka spyrja; ertu á móti gyðingum? Gyðingar voru ofsóttir af nasistum – ertu nasisti? Svona mætti telja endalaust – en ég hef bara ekki pláss til þess.
Það er mjög vinsælt að vera góður. Sérstaklega á þessum síðustu og verstu tímum. En ég er samt ekki svo viss um að almennt séum við betri í dag heldur en við vorum fyrir tuttugu, þrjátíu árum síðan. Menn eru hins vegar duglegri að auglýsa það. Þetta hefur alltaf farið dálítið í taugarnar á mér – sennilega af því að ég er gamall pönkari. Ég kveikti til dæmis vel á því þegar ég las viðtal við Lux Interior heitinn – sem var söngvari í hljómsveitinni The Cramps – en honum fannst eins og rokktónlistarmenn væru farnir að breytast í presta. Þetta var um það leyti þegar U2 voru nýlega orðnir stórstjörnur og létu mikið til sín taka varðandi mannúðarmál. Sting var svo annar prestur sem beitti sér fyrir verndun regnskóganna. Allt saman gott og blessað en ekki beint kúl – á pönkmælikvarða.
Ég þarf ekki að auglýsa á Facebook að ég sé á móti ofbeldi eða öðru níði yfirleitt. Ég þarf ekki að auglýsa að ég elski börnin mín. Ég þarf ekki að auglýsa að ég styðji jafnrétti eða umhverfisvernd – ekki nema ég vilji hvetja aðra til hins sama. En ég þarf ekki á því að halda að allir telji að ég sé góður. Mér er nákvæmlega sama þótt einhverjir haldi að ég sé ekki góður því ég veit hvað ég er. Góður? Ekki fullkomlega – en svona yfirleitt. Ekki eins góður og grænmetisætan sonur minn samt. Hann er betri en ég.
Athugasemdir