Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, var verjandi lögreglumannsins fyrrverandi sem fékk uppreist æru árið 2010.
Maðurinn var dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn þremur ungum stúlkum árið 2003. Hann misnotaði tvær þeirra á fimm ára tímabili, frá 11 til 16 ára aldurs og þá þriðju þegar hún var 12 ára.
Á meðal meðmælenda mannsins eru þeir Grétar Sæmundsson, fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjónn og Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn, en að því er fram kemur í frétt RÚV í dag kannast hvorugur þeirra við að hafa undirritað meðmæli vegna umsóknar um uppreist æru. Raunar eru bréfin dagsett áður en dómur Hæstaréttar yfir manninum féll.
Minnst þrír af sjö, sem skrifuðu undir bréf sem fylgdi umsókn fyrrverandi lögreglumanns um uppreist æru, vissu ekki að bréfin yrðu notuð til þess.
Þetta kemur fram í gögnum dómsmálaráðuneytisins sem Stundin fékk afhent eftir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að almenningur ætti rétt á upplýsingunum, þvert á afstöðu dómsmálaráðuneytisins og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Sem formaður nefndarinnar fékk Brynjar gögn um uppreist æru dæmdra manna afhent í byrjun ágúst en lagði mikla áherslu á að þau færu leynt. Stundin hefur áður greint frá því að einn af meðmælendum kynferðisbrotamannsins Roberts Downey sé vinur Brynjars til margra ára og að Brynjar hafi, sem lögmaður, átt fund með barnaníðingnum Hjalta Sigurjóni Haukssyni eftir að hann var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni á sínum tíma. Þá upplýsti Stundin um að Brynjar hefði ranglega vísað því á bug að hafa starfað fyrir sama nektardansstað og Robert Downey.
Í gær sagði Brynjar í viðtali við Vísi.is að hann væri mótfallinn því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd rannsakaði embættisfærslur forsætisráðherra og dómsmálaráðherra í þeim málum sem leiddu til þess að ríkisstjórnin sprakk.
Brynjar Níelsson var skipaður verjandi lögreglumannsins fyrrverandi á sínum tíma. Maðurinn var svo sæmdur óflekkuðu mannorði þann 10. maí 2010 í samræmi við lög og stjórnsýsluvenjur, að tillögu Rögnu Árnadóttur, þáverandi dómsmála- og mannréttindaráðherra.
Athugasemdir