Í aðdraganda fjölmiðlaumfjöllunar um alræmt meðmælabréf Benedikts Sveinssonar, föður forsætisráðherra, sendi Stundin (Jóhann Páll Jóhannsson) fyrirspurn á dómsmálaráðuneytið og dómsmálaráðherra sjálfan. Spurt var hvort einn af umsagnaraðilum Hjalta Sigurjóns Haukssonar tengdist forsætisráðherra nánum fjölskylduböndum.
Fyrirspurninni var ekki svarað þrátt fyrir endurteknar ítrekanir, en ráðuneytið brást við með því að gera Bjarna Bendiktssyni, forsætisráðherra, viðvart um hana. Eftirfarandi er atburðalýsing frá því að fyrirspurnin er send miðvikudaginn 6. september og þar til upplýsingar um meðmælabréfið birtast í fjölmiðlum án þess að svar hafi borist. Ef trúa á því að dómsmálaráðuneytið hafi starfað af heilindum í málinu verða vinnubrögðin að teljast dularfull í meira lagi.
6. september
Stundin sendir fyrirspurn á dómsmálaráðuneytið þar sem spurt er hvort einn af umsagnaraðilum Hjalta Sigurjóns Haukssonar tengist forsætisráðherra nánum fjölskylduböndum.
Ekkert svar berst.
7. september
Ítrekun send.
Ekkert svar berst.
8. september
Ekkert svar berst.
9.-10. september (helgi)
11. september
Bjarni Benediktsson hefur upplýsingar um fyrirspurnina (óljóst er hvenær nákvæmlega Bjarna varð kunnugt um hana). Með fyrirspurnina í huga, að hans sögn, greindi hann formönnum hinna stjórnarflokkanna frá meðmælabréfi föður síns.
Sama dag kveður úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp úrskurð sem staðfestir að fyrirspurn Stundarinnar sneri að upplýsingum sem blaðið átti rétt á að fá samkvæmt upplýsingalögum.
Ekkert svar berst.
12. september
Úrskurður upplýsinganefndar gerður opinber.
Ítrekun send.
Ekkert svar berst.
13. september
Svar berst um að verið sé að undirbúa öll skjölin í málinu til prentunar, eitthvað sem er fullkomlega óþarft til að svara fyrirspurn Stundarinnar. Stundin svarar strax og biður um svar við já/nei spurningunni í samræmi við upplýsingalög.
Ekkert svar berst
Stundin heimsækir dómsmálaráðuneytið. Fær þau svör að upplýsingafulltrúi sé of önnum kafinn til að taka á móti blaðamanni, en svar við upplýsingabeiðninni (já/nei spurningunni) sé í vinnslu.
Ekkert svar berst.
14. september
Blaðamaður Stundarinnar sendir ítrekun: „Ég ítreka, er ekki hægt að fá já eða nei við þessari spurningu, er Benedikt Sveinsson einn af umsagnaraðilum Hjalta Sigurjóns Haukssonar?“
Ekkert svar berst.
Blaðamaður Stundarinnar á símtal við staðgengil upplýsingafulltrúa sem hefur engin svör.
Ekkert svar berst.
Stundin og Vísir fjalla um málið án þess að Stundin hafi fengið svar frá ráðuneytinu.
Nú er spurt: Trúir því einhver að heiðarleiki búi að baki þessum vinnubrögðum? Að stjórnvöld sem hegða sér með þessum hætti hafi hagsmuni og réttindi borgaranna að leiðarljósi fremur en sérhagsmuni?
Athugasemdir