Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar og fulltrúi flokksins í nefnd um gjaldtöku í sjávarútvegi, vonar að nefndin geti komið sér saman um fyrirkomulag þar sem gerðir verði langtímasamningar milli útgerðarinnar og ríkisins á einkaréttarlegum grunni en jafnframt tryggt að gjaldtaka fyrir nýtingu hinnar sameiginlegu auðlindar endurspegli arðsemi greinarinnar á hverjum tíma.
„Ég hef lagt fram á fundi nefndarinnar minnisblað með hugmynd að umræðugrundvelli,“ segir Hanna Katrín í samtali við Stundina og bætir því við að hugmyndin byggi að hluta til á sjónarmiðum sem Viðreisn hefur haldið á lofti en taki jafnframt mið af vinnu starfshóps Guðbjarts Hannessonar úr tíð vinstristjórnarinnar og frumvarpsdrögum Sigurðar Inga Jóhannssonar frá síðasta kjörtímabili. „Hugmyndin er á þessu stigi ekki nákvæmlega útfærð, en einfaldlega hugsuð sem framlag til málamiðlunar, meðal annars með hliðsjón af því sem unnið hefur verið að í tíð tveggja síðustu ríkisstjórna,“ segir Hanna Katrín.
Frumvarpsdrög Sigurðar Inga um fiskveiðistjórnun vöktu hörð viðbrögð árin 2014 og 2015, en þar var lagt til að gerðir yrðu nýtingarsamningar til 23 ára við núverandi handhafa aflaheimilda. Niðurstaða starfshóps Guðbjarts Hannessonar, sem einnig fól í sér samningaleið í sjávarútvegi, var einnig umdeild. Raunar vék vinstristjórnin í veigamiklum atriðum frá niðurstöðum þeirrar nefndar þegar Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, lagði fram frumvarp til laga um stjórn fiskveiða árið 2012. Þar var byggt á úthlutun nýtingarleyfa fremur en að gerðir yrðu einkaréttarlegir samningar milli ríkisins og útgerðarinnar. Þótti ráðstöfun nýtingarleyfa til afmarkaðs tíma betur til þess fallin en samningar að tryggja eignarhald þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni.
Augljóst að auðlindin sé þjóðareign
Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna og fulltrúi flokksins í nefndinni um gjaldtöku í sjávarútvegi, skrifaði nýlega pistil í Kjarnann þar sem hún gagnrýndi að í tillögu Viðreisnar innan nefndarinnar væri ekki fjallað um þjóðareign á auðlindinni heldur byggt á þeirri nálgun að gerðir yrðu samningar milli útgerðarinnar og ríkisins á einkaréttarlegum grunni.
Hanna Katrín segist ekki hafa lagt fram formlega tillögu heldur minnisblað. „Að sjálfsögðu er gengið út frá því að fiskveiðiauðlindin sé sameign þjóðarinnar! Það er svo augljóst að það þarf ekki að tiltaka það sérstaklega í vinnuskjali sem þessu,“ segir hún í svari við fyrirspurn Stundarinnar.
„Þær tillögur sem hugmyndin byggir á eiga það sameiginlegt að endurgjald komi fyrir tímabundin veiðiréttindi. Tilgangurinn með afmörkun veiðiréttinda til ákveðins tíma er fyrst og fremst að ná efnislegri, og í verki, viðurkenningu á þjóðareigninni. Ég áttaði mig hreinlega ekki á því að einhverjir nefndarmanna gætu misskilið þetta.“
Þá tekur hún fram að í minnisblaði sínu sé orðrétt fjallað um „sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar“.
Betra að byggja á leyfum en samningum
Svandís Svavarsdóttir segir í samtali við Stundina að sér finnist lykilatriði að nefndin nái samstöðu um að innleiða auðlindaákvæði í stjórnarskrá og festa þannig varanlega í sessi eignarhald þjóðarinnar yfir auðlindinni. Þetta sé í raun frumforsenda þess að hægt sé að ná sátt um skynsamlega útfærslu á gjaldtöku í sjávarútvegi til frambúðar.
Hún bendir líka á að í tíð vinstristjórnarinnar hafi á endanum verið lagt upp með að koma á fyrirkomulagi einhliða „leyfa“ eða úthlutunar til afmarkaðs tíma með afmörkuðum skilyrðum, frekar en tvíhliða „samningum“. Sterk rök hefðu hnigið að því að þetta væri betri aðferð til að tryggja eignarrétt þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni heldur en samningar á einkaréttarlegum grunni.
Starfsmaður nefndarinnar segir veiðigjöld aldrei verða meiriháttar tekjustofn
Daði Már Kristófersson, hagfræðingur og ráðgjafi nefndarinnar um gjaldtöku í sjávarútvegi, sagði nýlega í viðtali við Fiskifréttir að veiðigjöld yrðu „aldrei neinn meiriháttar tekjustofn fyrir ríkið“ og að fólk hefði gert sér grillur um umfang rentunnar í íslenskum sjávarútvegi. Daði var einn af stjórnarmönnum Viðreisnar við stofnun flokksins í fyrra og er nú varamaður í stjórninni. Fyrir síðustu þingkosningar kynnti Viðreisn kosningaloforð um stórfellda aukningu innviðafjárfestinga sem fjármögnuð yrði með því að afla ríkissjóði árlega 15 til 20 milljarða tekna úr sjávarútvegi með uppboði aflaheimilda.
Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar tók til starfa í byrjun árs 2017 varð ljóst að ekki yrði látið reyna á uppboðsleiðina. Hins vegar skipaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þingmannanefnd sem falið var að leita leiða til sanngjarnrar gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni. Formaður nefndarinnar er Þorsteinn Pálsson, en
Athugasemdir