Á föstudaginn var notaði Donald Trump tækifærið þegar fellibylur nálgaðist Texas og náðaði mjög umdeildan fyrrverandi lögreglustjóra í Arizona. Hugmyndin var greinilega sú að athygli fjölmiðlanna yrði minni en ella vegna fellibylsins.
Lögreglustjórinn fyrrverandi átti yfir höfði sér sex mánaða fangelsi fyrir lögbrot og fyrir að hafa gengið gegn þeim ákvæðum bandarísku stjórnarskrárinnar sem banna að gert sér upp á milli fólks á grundvelli ætternis.
Hver er þessi fyrrum lögreglustjóri og hvað hafði hann til saka unni?
Hann heitir Joe Arpaio, fæddist 1932 í Massachusetts og er af ættum ítalskra innflytjenda. Kóreustríðið braust út þegar hann var 18 ára og þá gekk hann í herinn. Hann þjónaði þó ekki í Kóreu heldur fyrst og fremst í sjúkraliðasveit í Frakklandi.
Árið 1954 lét hann af herþjónustu og gekk í lögregluna í höfuðborginni Washington og síðar í Las Vegas um tíma. Hann gerðist svo eiturlyfjalögga og starfaði sem slíkur í aldarfjórðung, eða þar til um miðjan níunda áratuginn.
Á vegum eiturlyfjalögreglunnar DEA (sem nú heitir svo) starfaði hann meðal annars í Mexíkó. Argentínu og Tyrklandi en endaði sem yfirmaður DEA í Arizona.
Síðan vann hann um tíma hjá ferðaskrifstofu konu sinnar og seldi eldflaugaferðir út í geim, sem ekkert varð af, en 1992 - þegar Arpaio var orðinn sextugur - var hann kosinn lögreglustjóri, sheriff, í Maricopa-sýslu í Arizona.
Sú sýsla er engin smásmíði því innan hennar er meðal annars borgin Phoenix sem er fimmta stærsta borg Bandaríkjanna á eftir New York, Los Angeles, Chicago og Houston.
Íbúar í sýslunni eru tæplega fjórar milljónir og það er ýmsu að sinna í löggæslumálum þar.
Arpaio varð fljótt vinsæll lögreglustjóri, því er ekki að neita. Hann kynnti sig sem harðsnúinn töffara sem lét ekki vondu kallana komast upp með neinn moðreyk og það höfðaði til þeirra sem litu á lífið sem bíómynd af vestra-taginu.
Arpaio vann sex kosningar til lögreglustjóra, allt frá 1992 til 2012.
Hann varð hins vegar æ umdeildari með árunum.
Gagnrýnisefnin hlóðust að honum. Hann þótti sýna föngum í sinni umsjá óeðlilega hörku og ruddaskap. Fjöldi fanga var látinn hafast við í tjaldbúðum þar sem hiti gat orðið 55-60 gráður yfir sumarið. Matur var af skornum skammti og lélegur.
Arpaio hlaut líka mikla gagnrýni fyrir skeytingarleysi um kynferðisafbrot. Hann hafði bersýnilega engan sérstakan áhuga á að amast við nauðgurum og barnaníðingum. Fórnarlömb úr hópi spænskumælandi íbúa í sýslunni áttu einkum uppdráttar í réttarkerfi Arpaios.
Fyrir einar kosningar settu stuðningsmenn lögreglustjórans á svið morðtilræði við hann, og um tíma leit út fyrir að ungur maður yrði dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir það tilræði.
Fjöldinn allur af dæmum eru um ofsóknir gegn pólitískum andstæðingum. Arpaio lét hefja tilhæfulausar lögreglurannsóknir gegn fjölmörgum og sýslan þurfti síðan að punga út með háar fjárhæðir í sektargreiðslur.
Arpaio lét einnig sýslu sína í Arizona kosta umfangsmikla „rannsókn“ á því hvort Obama forseti hefði látið falsa fæðingarvottorð sitt sem sýndi að hann var fæddur á Havaí-eyjum. Arpaio var nefnilega einn af fyrstu og helstu stuðningsmönnum Donalds Trumps sem árum saman reyndi að halda því að fólki að Obama væri fæddur í Keníu og gæti því ekki verið forseti Bandaríkjanna.
Barátta Arpaios gegn ólöglegum innflytjendum varð svo æ hörkulegri og þar kom að hann og lögreglusveitir hans voru gagnrýndar fyrir ýmis mannréttindabrot.
Brátt þótti sannað að Arpaio atti lögreglumönnum sínum sérstaklega gegn fólki af rómönskum uppruna.
„Racial profiling“ er það kallað vestanhafs.
Dómstólar kváðu að lokum upp þann úrskurð að Arpaio yrði að láta af því athæfi en hann virti úrskurðinn að vettugi.
Þar með sætti hann ákæru fyrir að hafa lög, rétt og stjórnarskrá að engu.
Í miðju því ferli tapaði Arpaio loks kosningum til lögreglustjóra. Auk þess sem hér hefur verið nefnt var þá kominn ósvikinn spillingarþefur af emætti Arpaios.
Það var í fyrra og hann kominn á níræðisaldur en lét lítinn bilbug á sér finna. Það fór heldur ekki milli mála að hann naut bæði stuðnings og vináttu Donalds Trumps sem fór þá æ meir í amerískum stjórnmálum.
Trump mun hafa spurt dómsmálaráðherra sinn, strax og hann tók við embætti forseta í janúar á þessu ári, hvort ekki mætti einfaldlega fella niður ákærur á hendur „Sheriff Joe“ eins og hann er kallaður af sjálfum sér og vinum sínum.
Sessions dómsmálaráðherra sagði að það mætti ekki gerast. Réttarkerfið yrði að hafa sinn gang.
Þá þegar virðist Trump hafa ákveðið að hann skyldi þá bara náða Arpaio áður en dómur félli.
Hann talaði um það opinskátt að Arpaio hefði lent í vandræðum fyrir að „vinna sín störf“, hann væri „amerískur föðurlandsvinur“ og hefði náð að fækka glæpum í Arizona.
(Þetta síðasttalda er rétt, en fækkun á glæpum í Arizona helst þó í hendur við fækkun glæpa annars staðar í Bandaríkjunum. Aðferðir Arpaios eru því á engan hátt árangursríkari en mannúðlegri aðferðir annarra lögreglustjóra.)
Og það gerðist nú á dögunum að Trump náðaði Arpaio sem fagnaði og lýsti því yfir að málarekstur á hendur sér hefði verið „nornaveiðar“ Obama-stjórnarinnar.
Forsetar Bandaríkjanna hafa víðtækt náðunarvald og þess eru dæmi að þeir hafa farið mjög frjálslega með það.
Að maður hafi verið náðaður fyrir að neita beinlínis að fara að lögum, úrskurðum dómstóla og stjórnarskrá er þó einsdæmi.
Enda reyna ekki einu sinni forystumenn Repúblikana að verja þessa ákvörðun.
Spurning hvort þetta hrekkur af Trump eins og annað.
Athugasemdir