Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands ætlar ekki að tjá sig um veitingu uppreistar æru til barnaníðings sem dæmdur var árið 2004 fyrir að hafa misnotað stjúpdóttur sína í 12 ár frá því hún var um fimm ára gömul. Ólöf Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, lagði til í fyrra að maðurinn fengi uppreist æru og óflekkað mannorð. Forseti undirritaði tillöguna, í samræmi við viðteknar stjórnskipunarvenjur, þann 16. september, sama dag og barnaníðingurinn Robert Downey fékk uppreist æru.
„Forsetinn hefur þegar tjáð sig um uppreist æru og málsmeðferðina almennt og mun ekki tjá sig frekar um málsatvik að því er varðar einstaklinga sem fengið hafa uppreist æru,“ segir Örnólfur Thorsson forsetaritari í samtali við Stundina. Vísar hann þar til þess þegar Guðni tjáði sig um málefni Roberts Downey eftir að einn af brotaþolum mannsins hafði kallað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni.
Guðni steig þá fram í fjölmiðlum og benti á að ákvörðun um uppreist æru væri ekki tekin af honum sjálfum heldur í innanríkisráðuneytinu. Hann sagðist miður sín yfir máli Roberts Downey, ekki vera að biðja um vorkunn en óska eftir að fólk sýndi sér sanngirni að teknu tilliti til málsmeðferðarinnar. Aðspurður, í samtali við DV, hvað myndi gerast ef hann neitaði að skrifa undir tillögu um uppreist æru sagði Guðni að engin fordæmi væru fyrir slíku. „Hugsanlega yrði ég sakaður um stjórnarskrárbrot. Hugsanlega yrði ég sakaður um lagabrot, því þessi maður, samkvæmt lögum uppfyllir öll skilyrði til að fá uppreist æru. Látum þetta mál þá verða til þess að breyta því sem fólkið í landinu vill breyta. Ég vil breyta því. Ég á nóg með bera ábyrgð á mínum eigin ákvörðunum þó að ég þurfi ekki að bera ábyrgð á því sem er ákveðið annar staðar samkvæmt lögum og hefðum. Ég myndi vilja breyta lögum um völd og verksvið forseta Íslands.“
Sem kunnugt er bera ráðherrar ábyrgð á stjórnarathöfnum öllum samkvæmt stjórnarskrá en forseti veitir þeim gildi með undirskrift sinni.
Maðurinn sem Stundin fjallaði um í dag var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi árið 2004 fyrir að hafa nauðgað stjúpdóttur sinni nær daglega frá því hún var um 5 ára gömul þar til hún var tæplega 18 ára. Um er að ræða þyngsta dóm sem fallið hafði vegna kynferðisbrota gegn barni á þessum tíma, en Hæstiréttur taldi manninn hafa misnotað freklega vald sitt yfir stúlkunni sem stjúpfaðir, brotið ítrekað og gróflega gegn henni og valdið henni djúpstæðum skaða. Hann fékk uppreist æru þann 16. september síðastliðinn, sama dag og Robert Downey, sem var dæmdur fyrir að brjóta kynferðislega gegn fimm stúlkum, meðal annars meðan hann var um sextugt en stúlkurnar á unglingsaldri.
Athugasemdir