Ekkert er því til fyrirstöðu samkvæmt lögum að stjórnmálasamtök séu styrkt af eigendum eða dótturfélögum félaga í skattaskjólum. Samkvæmt ársreikningi Viðreisnar þáði flokkurinn styrk frá fyrirtækinu Aztiq Pharma ehf. í fyrra. Félagið tengist fjárfestunum Róberti Wessman og Árna Harðarsyni og er alfarið í eigu félagsins Aztiq Cayman L.P á Cayman-eyjum. Áður hefur Stundin greint frá því að Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, þáði prófkjörsstyrk frá fyrirtæki sem kemur fyrir í Panamaskjölunum vegna hlutdeildar í aflandsfélagi á Bresku Jómfrúareyjunum.
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðreisnar, segir að ekki hafi verið skoðað sérstaklega hvort fjárstyrkir til flokksins kæmu frá eigendum eða dótturfélögum félaga í skattaskjólum. „Við fylgdum lögunum og þar er skýrt tekið fram frá hverjum má ekki taka við framlögum,“ segir hún og vísar til ákvæðis í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka þar sem fram kemur að óheimilt sé að veita viðtöku framlögum frá erlendum ríkisborgurum, fyrirtækjum eða öðrum aðilum sem skráðir eru erlendis. „Við höfum ekki sett okkur aðrar mælistikur en lögin, enda eru þau alveg nógu flókin og íþyngjandi.“
Sveinn Arason ríkisendurskoðandi stakk upp á því á dögunum að Alþingi endurskoðaði hámarksupphæð fjárstyrkja sem einstaklingar og lögaðilar mega veita stjórnmálasamtökum. Þetta kom fram í viðtali við hann á RÚV eftir að greint var frá háum fjárstyrkjum Helga Magnússonar fjárfestis til Viðreisnar. Eins og Stundin greindi frá á fimmtudag bendir ekkert til annars en að Viðreisn hafi fylgt lagabókstafnum þegar flokkurinn tók við 1,6 milljónum króna frá Helga félögum sem eru alfarið í hans eigu, enda túlkar Ríkisendurskoðun lagaákvæði um tengda aðila með þeim hætti að Helgi, sem einstaklingur, sé ekki tengdur þeim félögum, lögaðilum, sem hann á 100 prósenta eignarhlut í.
Athugasemdir