Launaskrið er lítið á Íslandi miðað við þá spennu sem ríkir á vinnumarkaði. Skýringin er líklega sú að atvinnurekendur flytja inn starfsfólk frekar en að keppa sín á milli um það vinnuafl sem fyrir er með yfirboðum í launum.
Þetta kemur fram í Peningamálum, ársfjórðungsriti Seðlabankans, sem birt var í dag. Launahækkanir sem kveðið er á um í kjarasamningum og tóku gildi í maí og júní hafa komið fram í launavísitölu Hagstofunnar í samræmi við það sem gert var ráð fyrir í maíspá bankans. Launavísitalan hækkaði um 3,1% milli fjórðunga og um 6,7% frá fyrra ári en kaupmáttur launa jókst um 4,8%. Auk þess eru verðbólguhorfur áþekkar því sem spáð var í maí og talið að verðbólga verði komin í 2% á seinni hluta ársins.
Fram kemur að fyrirhuguð lækkun virðisaukaskatts, sem áætlað er að taki gildi í byrjun ársins 2019, ætti að draga talsvert úr verðbólgu, en án áhrifa þeirrar lækkunar næði verðbólga hámarki í 3,4% um mitt ár 2019.
Bent er á að verðbólguhorfur eru háðar ótal óvissuþáttum. Þannig geti áframhaldandi lækkun krónunnar valdið meiri innfluttum verðbólguþrýstingi en gert er ráð fyrir í spám bankans, en janframt geti spenna á vinnumarkaði og aukning einkaneyslu heimila verið vanmetin.
„Hækkun húsnæðisliðar verðbólgunnar gæti einnig verið vanmetin ef núverandi ójafnvægi á húsnæðismarkaði ágerist enn frekar. Einnig gæti svigrúm fyrirtækja til að taka á sig frekari kostnaðarhækkanir verið komið að þolmörkum. Eftirspurnarþrýstingur gæti auk þess verið vanmetinn ef slökun á aðhaldsstigi opinberra fjármála reynist enn meiri en grunnspáin gerir ráð fyrir,“ segir í Peningamálum.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í dag að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 4,5%. „Útlit er fyrir að hagvöxtur í ár verði hraður eins og á síðasta ári en nokkru hægari en spáð var í maíhefti Peningamála. Hagvöxturinn er einkum drifinn af vexti ferðaþjónustu og einkaneyslu auk þess sem útlit er fyrir slökun í aðhaldi opinberra fjármála í ár,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar sem birt var í morgun. Bent er á að spenna í þjóðarbúskapnum kalli á peningalegt aðhald. Aðhaldsstigið ráðist af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn.
Athugasemdir