Gengið verður til þingkosninga í Þýskalandi þann 24. september næstkomandi. Kristilegir demókratar, CDU, flokkur Angelu Merkel þýskalandskanslara, er með yfirburðarfylgi í skoðanakönnunum, á meðan samstarfsflokkur Jafnaðarmanna í ríkisstjórn, SPD, hefur verið að missa flugið. Þessir tveir flokkar, sem staðsettir eru sitt hvorum megin í og við miðjuna í þýskum stjórnmálum, bera þó enn höfuð og herðar yfir aðra flokka ef marka má niðursöðu nýlegrar skoðanakönnunar Emnid stofnunarinnar.
Samkvæmt henni myndu 38 prósent þýskra kjósenda kjósa flokk Kristilegra demókrata ef gengið yrði að kjörborðinu nú á meðan fylgi við Jafnaðarmenn er einungis 23 prósent. Munurinn á milli flokkanna tveggja er því heil fimmtán prósentustig samkvæmt könnuninni sem er í takt við aðrar nýlegar niðurstöður. Vinstri flokkurinn Die Linke er með 10,5 prósent fylgi, Græningjar 6,5 prósent, frjálsir demókratar 8 prósent á meðan hægri öfgaflokkurinn Alternative für Deutschland, AFD, er með 9 prósent fylgi samkvæmt könnun Emnid.
Sú staðreynd að rótgrónir flokkar í og við miðjuna beri höfuð og herðar yfir aðra flokka í kosningabaráttunni vekur athygli. Á tímum furðulegra kosningaúrslita þar sem Bretar velja að ganga út úr Evrópusambandinu, Bandaríkjamenn velja sér Donald Trump sem forseta, og rótgrónir og gamlir valdaflokkar þurrkast út í Frakklandi, virðist engin slík umpólun í kortunum í þýskum stjórnmálum. Hvað skýrir þetta? Niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar benda til þess að minni reiði sé að finna á meðal þýskra kjósenda en þeim bresku og/eða Bandarísku. Þá hafa þeir meiri áhyggjur af loftslagsbreytingum af mannavöldum heldur en hryðjuverkum.
Athugasemdir