Stuðningur við þýska hægri öfgaflokkinn Alternative für Deutschland, AfD, virðist fara dvínandi ef marka má niðurstöður úr nýlegum skoðanakönnunum í Þýskalandi. Einungis 8,5 prósent þýskra kjósenda segjast myndu kjósa flokkinn ef gengið yrði að kjörborðinu nú, samkvæmt nýlegri skoðanakönnun Allensbach-stofnunarinnar og þýska blaðsins Frankfurter Allgemeine Zeitung. AfD hefur ekki komið svona illa út úr skoðanakönnunum síðan í desember 2015. Þá er þetta í fyrsta skiptið síðan í júlí í fyrra sem flokkurinn mælist með minna en tíu prósent fylgi. AfD er mjög umdeildur stjórnmálaflokkur á ysta jaðri hægrisins. Meðlimir flokksins hafa meðal annars talað fyrir því að flóttamenn séu skotnir á landamærunum, gegn fóstureyðingum og kynfræðslu barna, og sagt að íslam samræmist ekki stjórnarskránni.
Þýskir álitsgjafar rekja fylgistapið meðal annars til innanflokksátaka síðustu misseri en ekki síður til kosningasigurs Donalds Trump í Bandaríkjunum og þess hvernig hann hefur hegðað sér í embætti. Einhverjir þeirra sem hafi áður hallast að því að kjósa AfD, flokk sem er hugmyndafræðilega nálægur þeirri hreyfingu sem skóp Trump, geti hreinlega ekki hugsað sér það lengur. Sósíaldemókratar, SPD, hafa sótt verulega í sig veðrið eftir að Martin Schulz, fyrrverandi forseti Evrópuþingsins, varð kanslaraefni þeirra, en þeir mælast með 30,5 prósent fylgi, eða 7,5 prósentum meira en í síðasta mánuði. Flokkur Angelu Merkel þýskalandskanslara, Kristilegir demókratar, mælist þó enn stærstur með 33 prósent fylgi.
Athugasemdir