Fór í göngutúr til mömmu minnar í kvöld (sem er á dásamlegu en útsýnissnauðu hjúkrunarheimili í borginni). Ákvað að færa henni sjeik svo ég kom við í Snælandsvideói (sem er núna orðið einhvers konar skyndibitastaður).
„Fallegt að halda orðinu vídeó í nafninu,“ hugsaði ég og pantaði tilboð sem innihélt sjeik og pulsu. Ég ætlaði að borða unnu kjötvöruna en mamma fengi sjeikinn (bestun). Svo ég keypti líka sódavatn með pulsunni (356 kr. fyrir dós af kolsýrðu vatni, ertu fáviti Kata?).
Eftir pöntun mína fer einhver baktjaldamanneskja að græja pulsuna (alltaf betra að sjá þegar fólk útbýr pulsur, en ok) og önnur að gera sjeikinn með hægum handtökum sem veita mér öryggiskennd í bland við eirðarleysi. Allavega ég sé skyndilega að þarna í horninu er einhvers konar spilakassaálma. Á þessari stundu eru ekki liðnar fleiri en 10 klukkustundir frá því ég sagði vinkonum mínum söguna af því að ég hefði verið nettur spilafíkill sem barn og hefði, fyrir 10 ára aldurinn, eytt formúgum fjár (bæði míns og foreldra minna) í Rauða kross kössunum í Ægisíðusjoppunni (þar sem nú er hinn frábæri veitingastaður Borðið).
Alla vega (ég sagði aldrei að þetta yrði stutt frásögn). Ég man skyndilega eftir því að ég á 500 kr. seðil (sjaldgæft á kortatímabili mannkynssögunnar) og vind mér auðvitað með sódavatnið í spilakassa sem er þá bara einhvers konar snertiskjár hannaður til þess að maður geti tapað hratt með engri reisn (they don't make them like they use to). Það kom ekki einu sinni neitt hljóð þegar þessi mannhæðarhái snjallsími át peninginn minn. „Ok, ég á hvort sem er ekki að vera að daðra við þessa dökku hlið barnæsku minnar,“ hugsaði ég þegar ég heyrði hana kalla upp pulsuna mína (og já orðið „pulsa“ er með u ekki y). Ég rölti örlítið lúpuleg með sódavatnið út úr álmunni og mæti þá augum einhverrar konu sem ég veit ekki hver er en ég þekki mögulega (er svo ómannglögg að ég hef íhugað að fá mér svona sjúkdómaarmband eins og flogaveikir eiga sem á stendur „sjúklega ómannglögg – ekkert persónulegt“). Konan starir á mig þar sem ég geng þungum sporum út úr ógæfuálmunni og mig langar mjög mikið að segja: „Nei, í alvöru, ég var sko að bíða eftir pulsu!!!“ en næ að hemja mig. Labba út með sjeik og sódavatn eins og valkvíðið barn eyðimerkurinnar.
Á þeim ömurlega stað sem er horn Suðurlandsbrautar og Nótatúns stekkur svo sjeikinn eins og áhættuleikari á sódavatnið. Þessir drykkir voru í sitt hvorri hönd minni og ég hrasaði ekki. Kann nákvæmlega enga skýringu á þessu. Nema skyndilega erum bæði ég og lime-kristals-dósin öll út í súkkulaðisjeik sem er klárlega drykkur 9. áratugs síðustu aldar og bæði mig og dósina setur niður við þetta atriði. Það er örlítið eftir af sjeiknum (ég hamdi mig að hella þeim hluta hans sem hékk enn á dósinni ofan í). Ég gekk áfram niður Nóatúnið. Álút.
Þegar ég kom með þessar sjeikleifar til mömmu var hún steinsofandi þótt klukkan væri bara um átta og ekki hægt að vekja hana með ljúfu móti, hvað þá til þess að bjóða henni 1/12 úr litlum sjeik. Ég hékk aðeins fyrir utan herbergið og beið til að vita hvort hún myndi skynja að sála litla örverpisins væri komin að hitta hennar, en það gerðist ekki. Einhver starfskona spurði hvort ég væri komin til að hitta einhvern, eins og líkurnar á því að ég hefði brotist inn á læst hjúkrunarheimili til að hanga í símanum mínum væru yfirgnæfandi. „Ég þarf að þvo þennan jakka við tækifæri,“ hugsaði ég og labbaði af stað heim.
Þegar ég er komin að horninu hjá Hlemmi Mathöll (hvenær ætlarðu að opna kæra höll?) er þar túristafjölskylda í vandræðum að biðja um aðstoð við að finna hraðbanka. Ég elska að aðstoða túrista í vandræðum og lifi mig talsvert inn í að reyna að lýsa hraðbankanum sem ég man eftir á Laugaveginum. Hinum megin við götuna (fyrir framan Gullnámuna á horninu) stendur gaur í hettupeysu og hann hleypur yfir götuna til okkar og spyr: „Eru þau týnd?“ Ég segi að þau vanti að vita hvar sé að finna næsta hraðbanka og hann ryður út úr sér gríðarlega nákvæmum upplýsingum um alla banka í nágrenninu sem nú heita víst Tómatar (hví?). Fólkið er ánægt og fer að ná sér í skotsilfur en þegar ég ætla að labba í burtu segir hann: „bíddu, talaðu aðeins við mig“.
„Ég afþakka en sé að hann er eitthvað hálfdapur og spyr hvað hann hafi verið að spá. Hann segir að honum leiðist og sé að bíða eftir vini.“
Ég bíð og hann spyr hvort ég vilji reykja með honum hass (óvænt!). Ég afþakka en sé að hann er eitthvað hálfdapur og spyr hvað hann hafi verið að spá. Hann segir að honum leiðist og sé að bíða eftir vini. Ég segi honum að ég geti setið með honum á meðan hann reyki ef hann vill sem hann verður ánægður með og segir: „Komum í strætóskýlið.“ Ok, ég konan sem ætlaði í kvöldgöngu til mömmu sinnar en endaði fordæmd í spilakössum með sjálfsmorðssjeik á erminni og er núna að fara að sitja í strætóskýliNU (þessi ákveðni greinir var afar óviðkunnanlegur) til að ókunnugur maður geti reykt hass með aðeins meiri gleði. Þá það kæru örlög, þá það. Skemmst er frá því að segja að þessi maður velur strætóskýlið hjá Hlemmi sem er BEINT fyrir framan lögreglustöðina á Hverfisgötu til að stunda þessa inntöku. Auk okkar tveggja er þar að finna ögn gerjaða ælulykt. Við sitjum þarna á bekknum og hann segir mér ýmislegt um líf sitt. Hann hafði setið inni árum saman fyrir vopnað rán (ekki einu sinni, ónei. Tvisvar). Ég spurði: „Af hverju gerðir þú þetta aftur ef þú fékkst 3,5 ár fyrir fyrra ránið?“ Það birti yfir ljósbrúnum augunum hans þegar hann svaraði: „Af því mér finnst þetta svo gaman!“ Hann sagði mér ýmislegt annað t.d. hvað það væri auðvelt að nálgast peninga í dag með því að ræna veskjum af túristum og hvernig ítrekuð einangrunarvist á Litla Hrauni hefði haft slæm áhrif á svefn hans. Hann veit hverjir frömdu óupplýsta ránið í Búnaðarbankanum á Vesturgötu (búmm!). Mamma hans hafði verið veik undanfarið og þegar hann skellti sér í sjósund í Keflavík með sundgleraugu og í speedó skýlu hélt einhver túristi að hann væri að fremja sjálfsmorð og hringdi í lögguna. „Glætan að ég væri að drepa mig með sundgleraugu og í skýlu!“
„Ég samdi einu sinni lag,“ sagði hann og söng svo umbeðinn fyrir mig rapplag um ósigrandi fótboltalið sem hann var fyrirliðinn í á sínum tíma. Mig grunar að það sé langt síðan. Hann varð fyrir örlitlum vonbrigðum að ég skyldi eiga konu og börn því hann upplifði að við værum að ná vel saman. „Týpískt fyrir mig maður. Hitti loksins píu og þá er hún bara lesbía,“ sagði hann og hló eins og við hefðum verið að bíða eftir strætó til að fara í rómantíska lautarferð en ekki tvær ókunnugar sálir í ælulykt að tala um lífið.
Hann átti ótal gullkorn meðan á þessum 20 mínútum stóð og ég fékk innsýn inn í heiminn hans í smá stund sem ég held að sé erfiður og einmanalegur staður til að vera á.
Ég var þakklát honum fyrir þetta samtal sem minnti mig á ótal svipuð sem ég átti við alls kyns fólk þegar ég bjó á Írlandi. Þar talaði fólk alltaf svo mikið saman hvort sem það þekktist eða ekki.
Í raun má segja að eftir raunir mínar þá hafi maðurinn sem kvaddi mig með þeim orðum að hann ætlaði að fara að hitta vin sinn í Gullnámunni bjargað kvöldinu. Sendi honum hér með þakkir og innilegar óskir um gott gengi.
Það er svo mörgum tilviljunum háð hvert leiðin okkar liggur. (ójá).
Athugasemdir