Kærunefnd útboðsmála ákvað í gær að aflétta stöðvun samningsgerðar milli Kópavogsbæjar og ISS Ísland. Bæjarráð Kópavogs ákvað þann 15. júní síðastliðinn að semja við ISS um matseld fyrir tvo grunnskóla, Kópavogsskóla og Smáraskóla, til næstu þriggja ára. Sölufélag garðyrkjumanna kærði útboðið, en félagið átti lægsta tilboðið. Tilboð þeirra var hins vegar metið ógilt vegna skorts á gögnum. Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdstjóri SFG, segir niðurstöðuna vera vonbrigði.
Tilboð SFG í útboðinu nam um 54,7 milljónum króna og var örlítið lægra en tilboð ISS sem nam um 55,1 milljónum króna. Þar sem afrit af rekstrarleyfum, skrá yfir sambærileg verk og yfirlýsing frá viðskiptabanka fylgdu ekki lægra tilboðinu var það metið ógilt af Kópavogsbæ. SFG kærði útboðið til kærunefndar útboðsmála og krafðist þess að það yrði ógilt í heild sinni. Auk þess sem óskað var álits á skaðabótaskyldu Kópavogsbæjar. Kærunefnd féllst ekki á kröfur SFG.
Ekki tekið mark á skýringum FSG
Í niðurstöðu kærunefndarinnar segir að Kópavogsbær hefði átt að gefa SFG kost á að skýra tilboð sitt og leggja fram frekari gögn áður en ákvörðun var tekin um að meta tilboðið ógilt. „Það var ekki gert og okkur reyndist mjög erfitt að ná í fulltrúa Kópavogsbæjar. Um leið og við fengum upplýsingar um að við hefðum átt lægsta tilboðið reyndum við ítrekað að ná sambandi við þá, en það tók okkur rúman mánuð að fá svör,“ segir Gunnlaugur.
Gunnlaugur telur nokkuð ljóst að Kópavogsbær hafi ekki haft áhuga á að vinna með SFG. „Þegar við fréttum að Kópavogsbær hygðist hafna tilboði okkar höfðum við strax samband við bæjarstjórann og forseta bæjarstjórnar til að koma okkar sjónarmiðum á framfæri. Á það var hins vegar ekki hlustað og það kom okkur virkilega á óvart.“
Þrátt fyrir að Kópavogsbær hafi ekki gefið SFG færi á að skýra tilboð sitt frekar og leggja fram þau gögn sem á vantaði var niðurstaða kærunefndarinnar sú að hafna kröfum SFG. Byggði úrskurðurinn á því að í útboðsgögnunum var gerð krafa um að með tilboði skyldi leggja fram skrá yfir helstu sambærileg verk sem bjóðandi hefði unnið að. Af þeirri skyldu dró kærunefndin þá ályktun að krafist væri einhverrar reynslu af sambærilegu verki.
„Ég á erfitt með að skilja þessa kröfu Kópavogsbæjar. Við réðum til verksins fólk með tíu ára reynslu í þessum geira. Mér þykir merkilegt að ekki hafi verið litið til þess. Að einungis hafi verið litið til starfsreynslu kennitölu fyrirtækisins en ekki til starfsreynslu og menntunar fólksins sem starfar hjá fyrirtækinu,“ segir Gunnlaugur. Hann telur að sjónarmiðin sem Kópavogsbær líti til séu samkeppnishamlandi.
„Við ætluðum aðeins að bjóða upp á besta fáanlega hráefnið, íslenskt grænmeti og íslensk matvæli.“
Þá gagnrýnir Gunnlaugur sjónarmið bæjarins um að meta tilboðin aðeins eftir verði. „Þetta kom okkur mjög á óvart og voru mikil vonbrigði. Við lögðum gríðarlegan metnað í undirbúning verkefnisins og við ætluðum aðeins að bjóða upp á besta fáanlega hráefnið, íslenskt grænmeti og íslensk matvæli. Höfuðáherslan hjá okkur var að vinna allt úr upprunahráefnum, ekki að bjóða til dæmis upp á kartöflumús úr dufti. En það virðist eins og útboðið hafi aðeins miðast við verð. Það var ekki litið til þjónustu- og hráefnisgæða og val á matvöru úr nærumhverfi til að takamarka kolefnisfótspor.“
Gunnlaugur segist ætla að læra af reynslunni og væntir þess að SFG komist í gott samstarf við skóla og leikskóla á landinu. Hann segir íslenska garðyrkjubændur hafa gríðarlega mikinn áhuga á verkefninu og mikið hafi verið fjárfest í verkefninu.
Heilbrigðiseftirlitið gert margvíslegar athugasemdir vegna matreiðslu ISS fyrir skólabörn
Stundin greindi frá því í síðasta tölublaði að heilbrigðiseftirlitið hefði gert margvíslegar athugasemdir vegna hreinlætis, rekjanleika og innra eftirlits, meðal annars vegna myglu, í eldhúsi ræstinga- og veitingafyrirtæksins ISS Íslands. Tugir frávika greindust í eftirliti heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í janúar síðastliðnum og höfðu mörg þeirra verið greind strax í apríl 2016. Daginn eftir að ákvörðun bæjarráðs Kópavogs var tekin, þann 16. júní síðastliðinn, fór heilbrigðiseftirlit aftur í vettvangsrannsókn hjá ISS og komst að því að lítið hafði verið um úrbætur. Hálfu ári eftir að heilbrigðiseftirlitið gerði margvíslegar athugasemdir hafði engin úrbótaáætlun verið færð fram af fyrirtækinu og auk þess greindist „alvarlegt frávik“ frá starfsleyfi vegna slæms ástands, hita, rakaskemmda, „skordýraálags“ og fleira í uppþvottarými.
Þess ber að geta að algengt er að gerðar séu athugasemdir eftir eftirlitsferðir hjá matvælafyrirtækjum. Ekkert matvælafyrirtæki kemst fullkomlega athugasemdalaust í gegnum skoðun eftirlitsins, en þar sem ISS eldar fyrir viðkvæma hópa og í miklu magni eru gerðar sérstakar kröfur um verklag, sem ISS hefur ekki náð að uppfylla þrátt fyrir áskoranir heilbrigðiseftirlitsins.
Þá var félagið ISS Ísland selt til hóps fjárfesta í maí síðastliðnum, meðal annars Patrick De Muynck, Peter Nilsson og svo Einars og Benedikts Sveinssonar. ISS Ísland er því komið í hóp fyrirtækja sem tengjast viðskiptaveldi ættingja Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, sem skiptir við ríki og sveitarfélög. Kaupandi að ISS Íslandi er ISS World Services A/S. „Fjárfestahópurinn samanstendur af erlendum aðilum með mikla reynslu af rekstri og stjórnun þjónustufyrirtækja á heimsvísu, innlendum fjárfestum og núverandi stjórnendum ISS Ísland,“ sagði í tilkynningu frá ISS í desember síðastliðnum.
Athugasemdir