Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Fossarnir sem hverfa

Tóm­as Guð­bjarts­son gekk ný­ver­ið um svæð­ið sem mun rask­ast með Hvalár­virkj­un á Strönd­um og tók mynd­ir af þess­um nátt­úruperl­um, sem eru að hans mati á heims­mæli­kvarða. Eft­ir að hafa far­ið yf­ir helstu rök með og á móti virkj­un­inni kemst hann að þeirri nið­ur­stöðu að virkj­un­in muni ekki leysa vanda­mál Vest­fjarða. Það ætti að vera í hönd­um rík­is­ins.

Undanfarið hefur fyrirhuguð virkjun Hvalár í Ófeigsfirði á Ströndum verið mikið til umræðu og sýnist sitt hverjum. Umræðan hefur að mínu mati verið einhliða og upplýsingar til almennings og fjölmiðla oft verið misvísandi. Nýlega ákvað ég að ferðast um fyrirhugað virkjanasvæði, gangandi með allt á bakinu. Þetta reyndist með stórkostlegustu gönguferðum sem ég hef nokkru upplifað, enda eru á þessu svæði lítt þekktar náttúruperlur sem eru á heimsmælikvarða. 

Hér reifa ég þessa umdeildu virkjanaframkvæmd út frá staðreyndum, eins og þær blasa við mér, áhugamanni um útivist og náttúruvernd. Ég greini jafnframt frá gönguferð minni með ljósmyndum sem ég tók og sýna hversu stórfenglegt þetta svæði er. Það skal tekið skýrt fram að ég hef engra annarra hagsmuna að gæta annarra en þeirra sem snúa að náttúruvernd.

Vestfirðir eru málið

Ásamt Kverkfjöllum og Torfajökulssvæðinu eru Vestfirðir og þá sérstaklega Hornstrandir og Strandir, það svæði á Íslandi sem er mér hvað kærast. Þangað hef ég komið óteljandi sinnum og þar hef ég gengið um flesta firði og helstu fjöll. Ég á ættir mínar að rekja í Arnarfjörð og á fjölda ættmenna á Vestfjörðum, enda þótt ég sé búsettur og starfi sem læknir í Reykjavík.

Sem ungur læknir átti ég þess kost að starfa á Ísafirði og Suðureyri. Sú reynsla var mér ómentanleg og um leið kynntist ég Vestfirðingum og þeim áskorunum sem byggðarlögin standa frammi fyrir, áskorunum sem meðal annars snúast um atvinnumál og fólksfækkun. Borið saman við aðra landshluta er ljóst að þróun innviða á Vestfjörðum hefur dregist aftur úr og á það sérstaklega við um samgöngur. Vestfjarðakjálkinn er tæplega 9% af flatarmáli Íslands og djúpir dalir og heiðar gera að verkum að samgöngur eru óvíða erfiðari hérlendis, sem snertir beint þá tæplega 8000 einstaklinga sem þar búa, eða 2,4 % þjóðarinnar.

Vestfirðir hafa þó skilað þjóðarbúinu miklum tekjum í gegnum öflugan sjávarútveg, en fengsæl fiskimið auk einstakrar náttúru er óneitanlega forgjöf sem þeir hafa miðað við aðra landshluta. Af þessum sökum hafa Vestfirðir skipað sér sérstakan sess hjá flestum Íslendingum en einnig hjá sívaxandi fjölda erlendra ferðamanna sem sækja Vestjarðakjálkann heim.

RjúkandiFossinn Rjúkandi í samnefndri á er ein helsta náttúruperlan á fyrirhuguðu virkjanasvæði. Rennsli í honum mun minnka um 40%, sem augljóslega hefur mikil áhrif á ásýnd þessa fallega sköpunarverks náttúrunnar.

Hvalárvirkjun er stórvirkjun

Íslendingar framleiða meiri orku á íbúa en nokkurt annað land í heiminum, og fara 80% þessarar orku til stóriðju, aðallega álvera (3/4) en einnig járnblendis og kísiliðju. Þrír fjórðu af þessari raforku er framleiddur með vatnsaflvirkjunum, en fjórðungur með gufuafli. Í samanburði við risavirkjanirnar við Kárahnjúka (670 MW) og Búrfelli (270 MW) gæti 55 MW virkjun í Hvalá við fyrstu sýn virst lítil. Það er hún hins vegar ekki, enda er ársframleiðsla Hvalárvirkjunar metin á 260 gígawattstundir sem er talsvert umfram orkuþörfina á Vestfjörðum sem er metin í kringum 230 gígawattstundir.

„Þróun innviða á Vestfjörðum hefur dregist aftur úr.“

Hvert fer rafmagnið?

Helstu rökin fyrir Hvalárvirkjun eru þau að hún styrki innviði á Vestfjörðum; aðallega með bættu rafmagnsöryggi en einnig aukinni atvinnuuppbyggingu og fjölgun starfa, betri samgöngum og lagningu ljósleiðara og þriggja fasa rafmagns til íbúa Árneshrepps. Við nánari skoðun virðast mörg þessara atriða varla standast skoðun.

Ljóst er að rafmagn frá Hválárvirkjun verður að stórum hluta nýtt til stóriðju fyrir sunnan, enda framleiðslan langt umfram þarfir Vestfjarða, sérstaklega þar sem Orkubú Vestfjarða framleiðir í dag í kringum 90 gígawattstundir árlega, aðallega í Mjólkurárvirkjun. Framkvæmdaaðilar við virkjunina eru aðallega tveir, HS Orka og Vesturverk. Tengsl HS Orku við stóriðju á Íslandi eru sterk en hún er í 68% eigu kanadísks fjárfestis. HS Orka er síðan eigandi að 70% Vesturverks. Ljóst er að orku vantar til stóriðju fyrir sunnan, til dæmis fyrir umdeild kísiliðjuver United Silicon í Helguvík. Áhugi HS Orku og Vesturverks á virkjun Hvalár er því mikill.

Mörgum hefur reynst erfitt að henda reiður á hvert leiða á rafmagnið frá Hvalárvirkjun, en bæði Nauteyri við Ísafjarðardjúp og Gilsfjörður hafa verið nefnd í því sambandi. Forsvarsmenn HS Orku segjast vilja grafa háspennulínur frá virkjuninni í jörð, aðallega til að takmarka sjónmengun. Landsnet, sem myndi sjá um línulögnina, hefur hins vegar ekki getað staðfest þetta, enda umtalsvert dýrari lausn en loftlínur. Það er því margt á huldu um hvort Hvalárvirkjun muni í raun bæta öryggi á afhendingu rafmagns á Vestfjörðum – enda orkunni fyrst og fremst ætlað annað.

Óveruleg fjölgun starfa og ófullnægjandi samgöngur

Á meðan byggingu virkjunarinnar stendur mun störfum fjölga tímabundið og heimamenn eflaust njóta góðs af. Í dag eru virkjanir að mestu sjálfvirkar og veita fáum atvinnu eftir að byggingu virkjunar er lokið. Fjölgun starfa til lengri tíma í Árneshresppi verður því óveruleg.

Verði af virkjun munu samgöngur í nágrenni Norðurfjarðar batna, sérstaklega frá höfninni til Ófeigsfjarðar. Vegurinn frá Hólmavík til Norðurfjarðar, sem er helsti flöskuhálsinn í samgöngumálum Árneshrepps, mun hins vegar taka litlum breytingum. Þennan veg þarf að uppfæra og það er á annarra höndum en HS Orku að gera það. Þessi vegur hefur verið á samgönguáætlun svo áratugum skiptir og alþingismönnum og ráðherrum ætti að vera löngu ljóst hversu brýnt er að hann sé lagfærður. Íbúar Árneshrepps eru hins vegar aðeins tæplega 50 atkvæði og eru því afskiptir þegar kemur að fjárveitingum til vegagerðar.

Þriggja fasa rafmagn er ekki forgangsatriði

Það eru helst ísvélar í frystihúsinu á Norðfirði sem gætu haft not af slíku rafmagni, en rekstur slíkra véla má leysa með öðrum hætti en virkjun Hvalár. Ljósleiðari yrði eflaust kærkominn fyrir íbúa Norðurfjarðar og nágrennis en loforð forsvarsmanna virkjunarinnar um lagningu ljósleiðara eru þó engan veginn föst í hendi, enda ekki ljóst með hvaða hætti slíkur leiðari yrði lagður frá virkjuninni. Eðlilegt verður að telja að opinberir aðilar sjái um að skaffa bæði ljósleiðara og þriggja fasa rafmagn, enda skilst mér að slíkar framkvæmdir séu ráðgerðar á næstu árum. Ég get þó sjálfur vottað að á Norðurfirði og í nágrenni hans er ágætt 3G símasamband og góð nettenging, – sem til dæmis er forsenda öflugrar ferðaþjónustu.

Ferðamenn fíla ósnortin víðerni

Því er haldið fram að vegir að virkjuninni, meðal annars frá Ísafjarðardjúpi, muni auka ferðamannastraum á Ströndum. Eflaust verður auðveldara að komast inn á svæðið, en ég efa þó stórlega að ferðamenn flykkist til Ófeigsfjarðar til að skoða þar manngerðar virkjanir og stíflur. Staðreyndin er sú að 80% ferðamanna sem sækja Ísland heim nefna sérstaka náttúru sem helstu ástæðu fyrir komu sinni – en hvorki virkjanir né álver.

Ferðamannaiðnaður er nú stærsta atvinnugreinin á Íslandi og skapar okkur meiri tekjur en bæði sjávarútvegur og álbræðsla. Í nýlegri skýrslu bendir OECD á að náttúran og þá sérstaklega ósnortin víðerni séu einhver mesta auðlind sem Íslendingar eigi og þau beri að fara varlega með. Í dag eru um 40% af yfirborði landsins skilgreind sem ósnortin víðerni, en þau hafa minnkað um 70% á síðustu 70 árum. Stærstu ósnortnu víðernin er að finna á miðhálendinu og á Vestfjörðum, aðallega á Hornströndum en líka á Ströndum upp af Hvalá. Hvalárvirkjun mun rýra víðerni Vestjarðakjálkans um 18–36%, allt eftir því hvernig reiknað er. Síðari talan er sennilega nærri lagi þegar tekin eru með sjónræn áhrif af háspennulínum og vegum tengdum þeim. Línurnar munu kljúfa víðernin í tvennt og umferð um vegina spilla þeirri einstöku kyrrð sem þarna ríkir.

„Stærstu ósnortnu víðernin er að finna á miðhálendinu og á Vestfjörðum.“

Sérlega óheppilegt er að virkjunin er í næsta nágrenni við friðlandið á Hornströndum, en það svæði var friðlýst árið 1975 og er ákvörðun sem ég held að svo til allir Íslendingar séu afar stoltir af. Það er skoðun mín að í stað Hvalárvirkjunar ætti frekar að stækka núverandi friðland á Hornströndum þannig að það næði suður fyrir Ingólfsfjörð. Um leið myndu Ófeigsfjörður en einnig Jökulfirðirnir og Snæfjallaströndin vera innann friðlandsins. Virkjanaframkvæmdum á þessu sérstaka og ósnortna svæði yrði þar með ýtt út af borðinu – komandi kynslóðum til hagsbóta.

Rafmagn sem vantar til Vestfjarða yrði þá að framleiða annars staðar á landinu og flytja vestur, án verulegs tengikostnaðar eins og í dag. En til þess að takist að stækka friðlandið þurfa ráðamenn að sýna sömu djörfung og kollegar þeirra á Alþingi sem samþykktu friðlýsingu Hornstranda á áttunda áratug síðustu aldar. 

Hvalárvirkjun er skammgóður vermir

Vandamál Vestfjarða verða ekki leyst með virkjun Hvalár og því miður er tilfinning mín að verið sé að plata Vestfirðinga. Nærtækara og skynsamlegra er að leggja frekar áherslur á bættar samgöngur og sanngjarnari byggðakvóta til fiskveiða en virkja ósnortna náttúruperlu.

Fækkun íbúa á Vestfjörðum hefur minnkað tekjur sveitarfélaga sem í óðagoti eiga til að grípa til vanhugsaðra ákvarðana eins og að virkja vatnsfljót, sem vissulega er það stærsta á Vestfjörðum, sem um leið skapar stórkostlega fossa og gljúfur á ósnortnum öræfum við þröskuldinn á friðlandinu á Hornströndum. Þetta svæði er miklu meira virði ósnortið en virkjað og mun nýtast komandi kynslóðum Vestfirðinga betur, líkt og landsmönnum öllum. Þegar fótkuldi sækir að er freistandi að pissa í skóinn. Sá varmi er þó tímabundinn og lyktin vond.

Náttúrufegurð er óvíða meiri en á Vestfjörðum og tækifæri tengd ferðamennsku óteljandi. Frekari áhersla á aukinn straum ferðamanna er því lykilatriði. Að virkja ósnortin víðerni – sem eru einstök á heimsvísu – er ekki góð byrjun.

Miðnætursól í IngólfsfirðiÞegar farið er út í Ófeigsfjörð er ekið eftir þessum firði endilöngum á jeppaslóða, en þarna eru spennandi rústir gamallar síldarverksmiðju.

Virkjun Hvalár:

Hvaða náttúruperlur verða undir?

Öræfin upp af Ófeigsfirði og Eyvindarfirði eru einstök. Þarna eru grasi grónar heiðar með smáum tjörnum sem eru bækistöð fugla. Óteljandi fossar og flúðir í ánum Rjúkanda, Hvalá og Eyvindarfjarðará eru þó helstu náttúruperlurnar. Þar má helst nefna Rjúkandifoss í ánni Rjúkanda, fossaröðina í Eyvindarfjarðará og Drynjandi í Hvalá áður en hún sameinast ánni Rjúkanda. Allir fossarnir eru vatnsmiklir með tæru og bláu vatni, en Hvalá er þar að auki mesta vatnsfall á Vestfjörðum. Við virkjun Hvalár mun fossinn Drynjandi þurrkast alveg upp og vatnsmagn í hinum fossunum tveimur minnka um 40–70%. Fossinn Rjúkandi dregur nafn sitt af miklum úða sem stígur upp af fossinum þegar hann fellur niður fossaraðir ofan af Ófeigsfjarðarheiði. Honum svipar óneitanlega til Gullfoss og eins og hann heldur áin Rjúkandi áfram í gljúfrum uns Hvalá, sem einnig er stór á, rennur í hann nokkrum km neðar, rétt neðan við fossinn Drynjandi. Eftir það kallast sameinað vatnsfall Rjúkandi og Hvalár, Hvalá, sem síðan rennur til sjávar í Ófeigsfirði. Ofanvið ósinn eru magnaðir risavaxnir fossar, Hvalárfossar, sem steypast í nokkrum þrepum niður að ósnum. Eyvindarárfossar renna í eins konar klettastokkum ofan af heiðunum sunnan Drangajökuls og liggur leiðin marga km leið niður í Eyvindarfjörð. Eyvindarárfossar eru einstök fossaröð sem er ekki hvað síst tilkomumikil séð af sjó. Þessi fossaröð er jafnfram sú sem heimamönnum þykir hvað vænst um enda ljóst að þeir munu að mestu leyti þorna.

Hvaða náttúruperlur eru í nágrenni Hvalárvirkjunar?

Þarna ber helst að nefna hin risavöxnu Drangaskörð, sem eru vafalaust ein fallegasta náttúrusmíð á Íslandi. Í næsta nágrenni við Rjúkanda er Húsárfoss, en sjómenn á Ströndum kalla hann mun fallegra nafni, Blæju, sem hann minnir óneitanlega á. Ekki stendur til að virkja Blæju né heldur fossinn rétt norðan við Hvalá sem heitir Dagverðardalsárfoss. Frá honum er ekki ýkja langt í firðina norðan Drangaskarða þar sem helst má nefna Drangavík, Meyjardal, Bjarnarfjörð og Skjaldbarnarvík, og Reykjarfjörð nyrðri. Suður af fyrirhugaðri Hvalárvirkjun er enn einn fallegur fjörður, Ingólfsfjörður, og aðeins austar Norðurfjörður. Upp af öræfum Ófeigfjarðarheiði er Drangajökull sem er fimmti stærsti jökull landsins, og suður af honum óteljandi vötn og ár. 

Hvernig er komist að þessum náttúruperlum?

Ótrúlega fáir Íslendingar hafa séð fossana og gljúfrin sem verða undir verði Hvalárvirkjun að veruleika, einfaldlega vegna þess hversu erfitt er að komast að þeim akandi. Fyrst er ekið í Norðurfjörð en þangað er tæplega 5 klst. akstur frá Reykjavík. Frá Norðurfirði tekur tæpa klst. að aka inn í botn Ófeigsfjarðar, en þar er lítið tjaldstæði. Á vel búnum jeppa er hægt að keyra yfir vað á Húsá (mæli með efra vaðinu) að Hvalárfossum. Þaðan er upplagt að ganga nokkra kílómetra meðfram stórfenglegum gljúfrum sameinaðrar Hvalár og síðan áfram eftir ánni Rjúkandi. Fyrst er komið að fossinum Drynjandi, en verður að virða fyrir sér úr fjarlægð þar sem hann er hinum megin við bakka Hvalár. Fossinn Rjúkanda sem steypist ofan í gljúfrin nokkrum km ofar, er auðvelt að skoða í návígi. Frá Rjúkanda er upplagt að ganga að fossinum stórkostlega Blæju í Húsá. Frá Blæju er síðan hægt að ganga eftir akveginum aftur að Hvalárfossum, en þessi ganga, sem er eins konar hringur, tekur í heild í kringum 4–5 klst. Hægt er að komast nær Drynjanda með því að halda yfir göngubrúna á Hvalá við Hvalárfossa. Síðan er gengið í rúma klst. að fossinum meðfram nyrðri barmi Hvalárgljúfra. Til að komast að Dagverðardalsárfossi og Eyvindarfjarðarárfossum er haldið í norður frá göngubrúnni við Hvalárfossa og tekur gangan að síðarnefndu fossunum tæpar 3 klst. Eyvindarárfossar eru sérlega tilkomumiklir og hægt að komast yfir þá á göngubrúm. Hægt er að ganga upp með Eyvindarfjarðará og virða fyrir sér enn fleiri tilkomumikla fossa í þessari kröftugu og vatnsmiklu á. Síðan er gengin sama leið aftur til baka í Ófeigsfjörð, nema ef ákveðið er að halda áfram með allt á bakinu að Drangárskörðum, og tekur það nokkrar klst. Þaðan er upplagt að ganga áfram yfir Drangavík að Dröngum norðan við Skörðin, þaðan yfir Meyjardal í Bjarnarfjörð, Skjaldbjarnarvík og Reykjafjörð nyrðri. Úr Reykjarfirði er síðan hægt að taka bát aftur til Norðurfjarðar. Þetta er stórkostleg ganga og tekur nokkra daga með allt á bakinu.

HvalárfossarHvalárfossar rétt áður en Hvalá steypist út í ós Ófeigsfjarðar. Þessir fossar eru þeir vatnsmestu á Vestfjörðum og ekki hægt annað en að hrífast af kraftinum og blátæru vatninu. Til stendur að koma stöðvarhúsi virkjunarinnar ofan við Hvalárfossa en spurningin er hvaða áhrif það mun hafa á rennsli í þessum mögnuðu fossum.
HvalárfossarHægt er að komast að Hvalárfossum Í Ófeigsfirði á vel útbúnum jeppa en þá þarf að aka yfir vaðið á Húsá.
HvalárfossarEfri hluti Hvalárfossa í miðnætursól.
DagverðardalsárfossNorður af Hvalárfossum er þessi lítt þekkt en snotri foss, Dagverðardalsárfoss, sem einnig rennur út í Ófeigsfjörð. Rennsli í þessum fossi mun ekki skerðast verði af virkjun.
Fossaröðin í EvindarfjarðaráSyðri hluti fossaraðarinnar í Eyvindarfjarðará, rétt áður en hún steypist út í samnefndan fjörð. Krafturinn er með ólíkindum og flúðirnar mikilfenglegar í umhverfi sem er algjörlega ósnortið, enda aldrei verið búið í Eyvindarfirði.
EyvindarárfossKrafturinn í Eyvindarárfossi er með ólíkindum og auðvelt að komast gangandi mjög nærri flúðunum.
BlæjaFossinn Blæja (einnig kallaður Húsárfoss) í ánni Húsa, rétt áður en hún rennur út í botn Ófeigsfjarðar. Þessum fossi stendur til að hlífa verði af virkjun, en hann á a.mk. fjögur “fossa-systkyni” sem eru í næsta nágrenni.
DrangaskörðEkki ýkja langt frá fyrirhuguðu virkjanasvæði upp af Ófeigsfirði er ein stórkostlegasta náttúrúsmíð á Íslandi, Drangaskörð.
Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Hvalárvirkjun

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár