Donald Trump bandaríkjaforseti hefur lagt til að sérstakar bætur sem ætlaðar eru til húshitunar fyrir lágtekjufólk verði með öllu aflagður. Segir forsetinn að stuðningurinn sé langt í frá nauðsynlegur auk þess sem spilling og bótasvik grasseri þar sem farið er með opinbert fé. Fólk þurfi engar áhyggjur að hafa af því að það verði skilið eftir úti í kuldanum þar sem það sé óhugsandi að veitukerfin skrúfi fyrir hita til viðskiptavina sinna yfir miðjan veturinn. Niðurskurðurinn yrði liður í áætlun forsetans um að skera niður hverskyns aðstoð til fátækari Bandaríkjamanna.
Greinarhöfundur Independent bendir á að forsetinn gæti ekki haft meira rangt fyrir sér. Húshitunarbæturnar séu algjörlega lífsnauðsynlegar fólki sem tilheyrir lágtekjuhópum, svo sem ellilífeyrisþegum. Hann bendir jafnframt á að embættismenn sjái engin merki þess að spilling grasseri í tengslum við útdeilingu bótanna. Þá fari það eftir viðmiðunrarreglum í hverju ríki fyrir sig hvort veitufyrirtækin geti skrúfað fyrir hita hjá þeim sem borga ekki, auk þess sem slíkar viðmiðunarreglur eigi ekki við í þeim tilvikum þar sem er hitað upp með olíu, sem er til dæmis algengur orkugjafi í ríkjum Nýja Englands á norðausturhorni Bandaríkjanna.
Athugasemdir