Snorri Másson, varaformaður Miðflokksins, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann lýsir óánægju með að Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, hafi gagnrýnt sendiherraefni Bandaríkjanna á Íslandi fyrir að grínast með að innlima Ísland í Bandaríkin og gerast ríkisstjóri.
Sendiherraefnið, Billy Long, hefur staðfest að hafa gantast með að verða ríkisstjóri Íslands í kjölfar innlimunar, í samhengi við einkasamtal um að gera Jeff Landry, erindreka Bandaríkjanna gagnvart Grænlandi, ríkisstjóra þess eftir fyrirhugaða innlimun landsins í Bandaríkin, sem er opinber stefna bandarískra stjórnvalda þrátt fyrir andstöðu landsmanna.
„Aumkunarverð viðbrögð við gríni,“ segir Snorri í yfirlýsingu sinni.
Sigmar sagði á Alþingi í morgun að grínið væri ekki fyndið, heldur alvarlegt. „Þetta er að sjálfsögðu ekkert sérstaklega fyndið grín í ljósi þeirrar umræðu sem núna er í gangi vestanhafs um Grænland. Og reyndar eru þetta eiginlega ummæli sem eru frekar alvarleg. En þetta segir okkur kannski ansi mikið, því miður, um það virðingarleysi sem er að grafa um sig í Bandaríkjunum gagnvart fullveldi smárra ríkja. Það þarf ekkert að hafa mörg orð um það að þetta er gríðarlega alvarlegt fyrir lítið land eins og Ísland.“
Utanríkisráðuneytið fór í framhaldinu fram á skýringar frá sendiráði Bandaríkjanna, sem leiddi til þess að Long baðst afsökunar á orðum sínum og sagði þau ekki meint í alvöru.
Snorra misbjóða athugasemdir Sigmars. „Við Íslendingar erum sjálfstæð og fullvalda þjóð en höfum á síðari tímum vitaskuld ekki farið varhluta af pólitískri og menningarlegri nýlendustefnu heimsveldis Bandaríkjanna,“ skrifar hann í yfirlýsingu. Hann segir Íslandi líkt við Wyoming, sem er eitt af fámennustu ríkjum Bandaríkjanna.
„Slík eru áhrifin á flestum sviðum okkar samfélags að sumir hafa leyft sér að líkja Íslandi við Wyoming, fámennasta fylki Bandaríkjanna. Þar er auðvitað ekki síður vísað til hins djúpa og langvarandi samstarfs Íslendinga og Bandaríkjanna á sviði utanríkis- og varnarmála.“
Hann virðist gefa til kynna að Ísland sé nú þegar á mörkum sjálfstæðis.
„Í þessu nána sambandi er stundum spurt hvort ekki sé á því bitamunur fremur en fjár, að við höldum velli sem sjálfstæð þjóð í stað þess að gerast bara formlegur hluti heimsveldisins. Sem betur fer hefur þessi spurning á okkar tímum aldrei verið annað en grín, enda kemur ekkert annað til greina af okkar hálfu en fullt sjálfstæði okkar fullvalda þjóðar um aldur og ævi.“
Snorri ávítur síðan Sigmar fyrir athugasemdir hans og gefur til kynna að flokkur hans, Viðreisn, geti lítið sagt um fullveldi vegna stuðnings við aðild að Evrópusambandinu. „Út af fyrir sig er það náttúrulega grín að talsmaður Viðreisnar fari mikinn um fullveldi smárra ríkja í ljósi áforma flokks hans um stöðu Íslands. Hitt er þó ekkert grín, að það sem er að öllum líkindum pólitísk oftúlkun Sigmars á ummælum sendiherrans felur í sér kolröng og raunar eilítið aumkunarverð viðbrögð við gríni.“

Segir Snorri að til þess að gagnrýna beri slík orð sendiherraefnisins þurfi að vera alvara að baki því að innlima Ísland og gerast ríkisstjóri. „Ef eitthvað væri sem benti til alvöru í ummælum sendiherrans, væri það sannarlega grafalvarlegt mál. Því þyrftu íslensk stjórnvöld að mæta af fullum þunga. En að gefa sér án betri upplýsinga að gríninu fylgi alvara hefur ekki önnur áhrif en þau að ljá fjarstæðukenndum hugmyndum um yfirráð Bandaríkjanna yfir Íslandi lögmæti. Slík umræða er ekki annað en grín og við skulum ekki tala öðruvísi.“
Þá sakar hann Sigmar um ofsa. „Öllu heldur væri óskandi á þessum síðustu og verstu tímum að hagsmunagæsla okkar Íslendinga á sviði þjóðanna gæti einkennst af stillingu, yfirvegun og einarðri varðstöðu um fullveldið, en ekki af uppgerðarviðkvæmni og hugmyndafræðilegum ofsa.“
















































Athugasemdir (3)