Forsætisráðherra Grænlands sagði í dagaað sjálfstjórnarsvæðið myndi frekar kjósa að vera áfram danskt en að verða hluti af Bandaríkjunum, í kjölfar hótana Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, um að yfirtaka heimskautaeyjuna.
„Við stöndum nú frammi fyrir heimspólitískri kreppu, og ef við þurfum að velja á milli Bandaríkjanna og Danmerkur hér og nú, þá veljum við Danmörku,“ sagði Jens-Frederik Nielsen, forsætisráðherra Grænlands, á blaðamannafundi í Kaupmannahöfn ásamt Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Hún viðurkenndi að málinu væri þar með ekki lokið. „Hins vegar bendir margt til þess að erfiðasti hlutinn sé fram undan,“ sagði Frederiksen.
Frederiksen sagði að það hefði ekki verið auðvelt að standa gegn því sem hún kallaði „algjörlega óásættanlegan þrýsting frá okkar nánasta bandamanni“.
Trump hefur haldið áfram og skerpt á hótunum sínum um að taka Grænland. „Ég myndi vilja gera samning, þú veist, á auðveldan hátt. En ef við gerum það ekki á auðveldan hátt, þá munum við gera það á erfiðan hátt,“ sagði Trump á fundi í Hvíta húsinu með stjórnendum olíufyrirtækja.
Hann sagði að hann ætlaði „að gera eitthvað varðandi Grænland, hvort sem þeim líkar betur eða verr.“
Frederiksen lagði áherslu á að „auðvitað viljum við efla samvinnu um öryggismál á norðurslóðum við Bandaríkin, NATO, Evrópu og norðurskautsríkin í NATO.“
Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, og Vivian Motzfeldt, utanríkisráðherra Grænlands, eiga að funda með JD Vance varaforseta Bandaríkjanna og Marco Rubio utanríkisráðherra í Hvíta húsinu á morgun.

















































Athugasemdir