Öll viljum við sitja við stýrið og stjórna ferðinni sjálf í lífinu, og sú kynslóð sem er að skríða yfir 67 ára tímalínuna er sannarlega engin undantekning. Mörg þeirra hafa fengið tækifæri til að mennta sig, búa erlendis og ferðast um heiminn; þau eiga flest farsæla starfsævi að baki og hafa komið eigin fjölskyldu á legg.
Þetta er kynslóð sem gerir meiri kröfur en áður til þjónustu og umgjarðar, kröfuharðari neytendur. Það er mikilvægt verkefni jafnaðarfólks að tryggja enginn sé skilinn útundan þegar aldurinn færist yfir, lykill að góðu velferðarsamfélagi. Hvernig er hægt að endurhugsa þjónustu út frá ólíkri þörf fólks á breiðu aldursbili? Hvernig er hægt að einfalda líf eldra fólks og aðstandenda? Í hvernig borg viljum við eldast?
Heimsóknahringur
Það getur verið snúið fyrir maka þess sem missir heilsu og þrek að sinna eigin þörfum fyrir hreyfingu og tómstundir, eða vera með vinum sínum. Skyldur við makann taka yfir allt daglegt líf. Heimsóknahringur gæti væri stuðningsþjónusta sem brúar bilið milli þarfa hjónanna ‒ makans sem þarf á því að halda að komast frá, og þess sem heima situr og þarf tilbreytingu. Hringurinn væri samsettur af fólki sem hjónin þekkja til, hefur fylgt þeim um ævina ‒ fjölskylda, vinir, börn vina eða annað samferðafólk. Heimsóknum mætti skipta niður á vikurnar. Á meðan heimsókn stendur yfir gefst makanum tækifæri til að sinna sér og sínum áhugamálum. Hann fær andrými sem oft vantar inn í daglegt líf eldra fólks við þessar aðstæður. Stuðningur borgarinnar fælist í skipuleggja umgjörðina, veita hvatningu og fylgja málinu eftir.
Þjónustukort
Þjónustukort er áhugaverð leið til að velja þjónustu út frá vilja og vali hvers og eins. Kortið yrði skilgreint fyrir það eldra fólk sem þarf stuðning við persónulegar athafnir i daglegu lífi eða hafa veikt félagslegt bakland. Þjónustan næmi til dæmis hálfri klukkustund á viku með starfsfólki heimaþjónustu og sá sem óskar þjónustunnar ræður sjálfur í hvað tímanum er varið. Það þyrfti að vera hægt að safna tímum saman og nota í lengri stund eða í hóphitting með félögunum. Hægt væri að fara á kaffihús, í bíó eða á safn, fara í gönguferðir, þrífa eitthvað sérstaklega, heimsækja blómabúð, spila, hlusta á tónlist, skoða myndir, fara í klippingu, læra á tölvur, fá handsnyrtingu, heimsækja fjölskyldu og vini, eða bara skipta um ljósaperu. Óþrjótandi möguleikar geta verið í boði ‒ en umgjörðin er mannleg reisn með íbúann í öndvegi. Hann stjórnar ferðinni.
Forvarnaheimsóknir
Markmiðið með forvarnaheimsókn er að skapa persónuleg tengsl, byggja brú trausts milli þess sem fær heimsóknina og fagmannanna, leggja út net sem grípur þau sem þess þurfa ‒ jafnvel þau sem átta sig ekki á þörfinni, og um leið kortleggja þjónustuþörf til að nýta sem best gæði þjónustunnar. Heimsókn stæði til boða frá fagfólkinu í öldrunarþjónustu borgarinnar en sá sem um ræðir fær bréf þar sem boðið er upp á heimsókn frá fagteymi heimaþjónustu og þau mundu taka samtal um stöðu hans í lífinu. Samtalið getur snert daglegt líf, líðan, félagsleg tengsl, húsnæði, fjármál og heilsufar. Þjónusta og umfang væri kynnt til upplýsingar. Það væri auðvitað hægt líka að afþakka heimsóknina en hún gæti staðið öllum þeim til boða sem hafa náð 72 ára aldri, hafa misst maka sinn eða búa einir.
Málstjóri
Málstjóri virkar sem eins konar þjónustubrú yfir í það úrræði sem hentar viðkomandi. Hann tekur utan um viðkomandi og fjölskyldu hans þegar þjónustuþörfin vex. Hann samhæfir fagfólk, tryggir réttar greiningar, samfellu í þjónustu, sér til þess að stuðningsáætlanir séu gerðar og endurhæfing í boði, og tryggir ekki síst ráðgjöf til þeirra sem næst standa.
Ég vil beita mér fyrir að endurhugsa þjónustu við eldra fólk í Reykjavík með þessum hugmyndum og fleiri samskonar ‒ til að samræma þjónustu betur, bæta upplýsingagjöf og stuðning við aðstandendur ‒ og gera Reykjavík ennþá betri borg til að eldast í.
Höfundur er fyrsti varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður öldungaráðs Reykjavíkurborgar. Sara Björg sækist eftir 3. sæti í flokksvali jafnaðarmann 24. janúar.

















































Athugasemdir (2)