Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, mun hitta Donald Trump í Flórída í dag, en Bandaríkjaforseti þrýstir á um að komast á næsta stig í viðkvæmri vopnahlésáætlun sinni fyrir Gaza.
Einnig er búist við að Netanyahu reyni að beina athyglinni að Íran, í ljósi frétta um að hann muni kalla eftir frekari árásum Bandaríkjanna á íslamska lýðveldið.
Fundurinn í glæsihýsi Trumps, Mar-a-Lago er fimmti fundur leiðtoganna tveggja sem haldinn er í Bandaríkjunum á þessu ári. Hann er haldinn í skugga þess að sumir embættismenn í Hvíta húsinu óttast að bæði Ísrael og Hamas séu að tefja annan áfanga vopnahlésins, samkvæmt fréttastofu AFP.
Trump, sem sagði Netanyahu hafa beðið um viðræðurnar, er sagður vilja tilkynna – strax í janúar – um tækniræðisstjórn Palestínumanna fyrir Gaza og uppsetningu alþjóðlegs stöðugleikasveitar.
Leiðtogarnir tveir munu funda klukkan 18 að íslenskum tíma.
Shosh Bedrosian, talskona ísraelsku ríkisstjórnarinnar, sagði að Netanyahu myndi ræða annan áfanga samkomulagsins, sem felur í sér að tryggja að „Hamas verði afvopnað og Gaza verði gert herlaust“.
Hann mun einnig taka upp „hættuna sem stafar af Íran, ekki aðeins fyrir Mið-Austurlönd, heldur einnig Bandaríkin,“ sagði Bedrosian áður en hún flaug með ísraelska forsætisráðherranum.
Síðustu mánuði hafa ísraelskir embættismenn og fjölmiðlar lýst yfir áhyggjum af því að Íran sé að endurbyggja vopnabúr sitt af langdrægum flugskeytum eftir að það varð fyrir árás í 12 daga stríðinu við Ísrael í júní.
Sina Toossi, rannsakandi við Center for International Policy (CIP) í Washington, sagði að fullyrðing Trumps um að árásir Bandaríkjanna í júní hefðu eyðilagt kjarnorkuáætlun Teheran hefði „fjarlægt öflugustu sögulegu réttlætingu Ísraels fyrir stuðningi Bandaríkjanna við stríð við Íran“.
Ný áhersla Netanyahu á flugskeyti Írans er „tilraun til að framleiða nýja stríðsástæðu (Casus Belli),“ sagði Toossi við AFP.
Íran fordæmdi fréttirnar á mánudag sem „sálfræðilega aðgerð“ gegn stjórnvöldum í Teheran, lagði áherslu á að landið væri fullkomlega reiðubúið til að verja sig og varaði við því að árásargirni á ný myndi „hafa harkalegri afleiðingar“ fyrir Ísrael.
„Annar áfangi verður að hefjast“
Heimsókn Netanyahu er hápunkturinn á nokkurra daga erindrekstri vegna alþjóðamála í Palm Beach, þar sem Trump tók á móti úkraínskum starfsbróður sínum, Volodymyr Zelensky, í gær til viðræðna um að binda enda á innrás Rússlands.
Vopnahléið á Gaza í október er eitt af stóru afrekum Trumps á fyrsta ári hans aftur við völd, en stjórn hans og svæðisbundnir sáttasemjarar vilja halda skriðþunganum.
Alþjóðlegur sendifulltrúi Trumps, Steve Witkoff, og tengdasonur Trumps, Jared Kushner, tóku fyrr í mánuðinum á móti háttsettum embættismönnum frá ríkjum sem hafa tekið að sér sáttamiðlun: Katar, Egyptalandi og Tyrklandi.
Tímasetning fundarins með Netanyahu er „mjög mikilvæg,“ sagði Gershon Baskin, annar forstöðumaður friðarnefndarinnar Alliance for Two States, sem hefur tekið þátt í óformlegum samningaviðræðum við Hamas.
„Annar áfangi verður að hefjast,“ sagði hann við AFP og bætti við að hann telji „að Bandaríkjamenn geri sér grein fyrir því að það sé of seint því Hamas hefur haft of mikinn tíma til að endurreisa viðveru sína.“
Fyrsti áfangi vopnahléssamkomulagsins kvað á um að Hamas myndi sleppa þeim gíslum sem eftir voru, bæði látnum og lifandi, sem teknir voru í árás þeirra á Ísrael 7. október 2023. Hópurinn hefur hingað til skilað öllum lifandi föngum og líkamsleifum allra nema eins.
Samkvæmt öðrum áfanga á Ísrael að draga sig til baka frá stöðum sínum á Gaza, á meðan Hamas á að leggja niður vopn – sem er stórt deilumál fyrir íslamistahreyfinguna.
Á meðan á bráðabirgðastjórn að stjórna palestínska svæðinu og alþjóðleg stöðugleikasveit (ISF) á að vera send á vettvang.
Báðir aðilar hafa þó haldið fram tíðum brotum á vopnahléinu.
„Svekktur út í Netanyahu“
Fréttaveitan Axios greindi frá því á föstudag að Trump vildi boða til fyrsta fundar nýs „friðarráðs“ fyrir Gaza sem hann mun stýra á Davos-ráðstefnunni í Sviss í janúar.
En þar kom fram að háttsettir embættismenn í Hvíta húsinu væru að verða pirraðir á því sem þeir litu á sem tilraunir Netanyahu til að tefja friðarferlið.
„Það eru fleiri og fleiri merki um að bandaríska stjórnin sé að verða svekkt út í Netanyahu,“ sagði Yossi Mekelberg, sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda hjá hugveitunni Chatham House í London.
„Spurningin er hvað hún ætlar að gera í því,“ bætti hann við, „því annar áfangi er eins og staðan er núna á leiðinni út í buskann.“
Ísrael heldur áfram að gera árásir á skotmörk Hamas á Gaza, sem og Hezbollah í Líbanon þrátt fyrir annað vopnahlé þar. Sýrland verður einnig á dagskrá.
Mekelberg sagði að Netanyahu gæti verið að reyna að beina athyglinni frá Gaza yfir á Íran þegar Ísrael gengur inn í kosningaár.
„Allt er tengt því að halda völdum,“ sagði hann um hinn þaulsetna forsætisráðherra Ísraels.
















































Athugasemdir