Miklar breytingar hafa orðið á íslensku samfélagi síðustu ár. Þegar breytingar verða er eðlilegt að spyrja sig hvert markmiðið með þeim var og hvort þær hafi heppnast vel.
Met í mannfjölgun
Síðustu átta ár bættust rúmlega 40 þúsund aðfluttir við mannfjöldann á Íslandi. Margt fólkið kemur til að vinna störf í ferðaþjónustu. Alls starfa 35 þúsund manns við ferðaþjónustu á Íslandi, en fleiri til viðbótar við afleidd störf. Á sama tímabili voru stjórnvöld með ýmsar sértækar aðgerðir til þess að ívilna ferðaþjónustu. Bílaleigur fengu skattaafslátt af því að flytja inn tvinnbíla – og líka jarðefnaeldsneytisbíla, sem nam 875 milljóna krónum á árinu 2021 einu og sér. Skattþrep ferðaþjónustunnar er lægra, ekki 24 prósent heldur 11 prósent, og lægra en í flestum ríkjum.
Samtök ferðaþjónustunnar segja að lægri skattar séu „lykilatriði til að treysta og tryggja alþjóðlega samkeppnishæfni“ og „í takti við ferðamálastefnu og skilgreindar áherslur hins opinbera til 2030“.
Það hefur verið hluti af opinberri stefnumörkun að fjölga ferðamönnum og bæði verið ívilnað og lagt út í beinan kostnað til þess. Minna hefur verið talað um afleiddan kostnað, enda er hann stundum ekki útreiknanlegur. Og enn minna hefur verið talað um að ábatinn af þessu hefur í raun verið takmarkaður fyrir Íslendinga, að minnsta kosti minni en í veðri var látið vaka.
Lítill hagvöxtur – mikill tilkostnaður
Nýleg úttekt vegna atvinnustefnu stjórnvalda sýndi að á sama tíma og uppgangur ferðaþjónustunnar hefur skapað fjölda starfa og afleiddra umsvifa, hafa störfin skilað takmarkaðri virðisaukningu að teknu tilliti til alls.
Hagvöxtur á Íslandi síðustu fimm ár, á hvern mann, er aðeins tæplega einn þriðji af hagvexti í Evrópusambandinu, sem er altalað að glími við skertan vöxt.
Skýringin er mikil mannfjölgun, sem ekki var alltaf tekin með í reikninginn. Frá 2010 til 2024 fjölgaði íbúum á Íslandi um fjórðung, en hjá samanburðarþjóðum var fjölgunin 10 prósent. Ísland er töluvert langt undir öðrum þróuðum hagkerfum í meðalhagvexti á mann síðustu ár. Annars staðar er hann 1,3 prósent síðustu fimm ár og 1,5 prósent frá 2010, en hér er hann 0,3 prósent síðustu fimm ár og 1,1 prósent á ári aftur til 2010. Það nær því ekki að vera helmingur þess sem var tímabilið 1995 til 2009. Íslendingar eru að dragast aftur úr þegar tekið er tillit til alls.
Á sama tíma komu til beinar afleiðingar af vextinum sem snerta alla Íslendinga. Umferð um þjóðveg 1 jókst um 81 prósent frá 2010. Raunverð fasteigna tvöfaldaðist á 15 árum. Sjúkrarýmum, mældum út frá hverjum 100 þúsund íbúum, fækkaði um 30 prósent frá 2007.
Aðeins 1 prósent af störfum sem bæst hafa við almennan vinnumarkað síðustu 15 ár teljast vera með háa framleiðni, en störf í ferðaþjónustu eru með lága framleiðni. Á sama tíma eru Íslendingar aðeins með 17 prósent af öllum skráðum nemendum í tæknigreinum, sem er 7 prósentustigum lægra en samanburðarþjóðir.
Verðbólga á ábyrgð almennings
Ein af afleiðingum efnahagsástandsins á Íslandi er að stýrivextir og húsnæðisvextir eru mun hærri en hjá samanburðarþjóðum – vegna verðbólgu.
„Verðbólga á Íslandi hækkaði síðar en hefur verið miklu þrálátari því verðbólga á Íslandi stafar af launaþrýstingi meira og minna,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á peningamálafundi Viðskiptaráðs í febrúar.
Hann sagði hagkerfið hafa vaxið um 20 prósent á þremur árum, sem væri „einstakur vöxtur“. „Síðan fær maður alltaf þessa spurningu: Af hverju eru vextirnir alltaf miklu hærri á Íslandi en annars staðar? Án þess að tengja við neitt annað, hagvöxt eða neitt annað,“ undraðist hann.
Á öðrum fundi hafði honum orðið orðavant þegar hann heyrði af gríðarlegri mannfjölgun.
„Erum við í alvöru orðin 390 þúsund?“ spurði hann. „Mér er bara hálf brugðið.“ Seinna voru tölurnar leiðréttar að hluta með breyttri aðferð Hagstofunnar, en eftir stóð mannfjölgun hér langt umfram önnur lönd.
Kostnaðarhækkanir á húsnæði hafa verið stærsti áhrifaþátturinn í verðbólgu á Íslandi, á meðan erlendis hafa áhrif af orkuverði verið meiri en hér.
Til þess að kæla hagkerfið af þrýstingnum sem skapaðist meðal annars við mannfjölgun og tengdan hagvöxt voru lagðir á vextir sem eru mun hærri en í samanburðarlöndunum.
Svo er það hitt, sem verður ekki mælt og fólk getur verið ósammála um.
Samfélagslegt rof
Allir Íslendingar hafa fundið fyrir breytingunum, til góðs og ills, og fólk hefur mismunandi skoðanir.
Við höfum fengið nýja veitingastaði og afþreyingu, en stundum hærra verð vegna eftirspurnar. Meiri innviði fyrir ferðamenn, en meira álag á móti og vaxandi gjaldtöku sem beinist að Íslendingum. Það mikilvægasta er líklega fleiri atvinnumöguleikar og nýir möguleikar á tekjum og rekstri í dreifbýli.
Breytingarnar eru líka óáþreifanlegar. Gömul hjón sem gengu út af veitingastað á landsbyggðinni fyrir nokkrum árum með orðunum „þau tala enga íslensku“, voru hugsanlega skopleg á þeim tíma, en á fáum árum er það hluti af hversdagsleika Íslendinga að enska sé reglulega samskiptatungumál í daglegum erindagjörðum og á ferð um landið.
Sumum finnst það óþægilegt, en á móti kemur að margir sem flytja til landsins sjá ekki hag í að læra erfitt tungumál sem fáir tala. Sömuleiðis finnur fólk fyrir því að almannarýmið sé nú mikið til ekki lengur hannað fyrir Íslendinga, heldur fyrir ferðamenn, þannig að merkingar og skilaboð eru á ensku. Á svæðum eins og Vík í Mýrdal eru tveir þriðju hluti íbúanna erlendir ríkisborgarar. Þó svo að nánast allir Íslendingar kunni ensku, eru áhrifin raunveruleg. Fólk getur upplifað ákveðið rof frá samfélaginu sínu, eða missi. Sjálfsmyndin skerðist og upplifuð aðild að samfélaginu getur minnkað. En eftir því sem árin líða og nýjar kynslóðir taka við skiptir það líklega ekki máli. Írar lögðu niður sitt tungumál að mestu og nú er fjöldi alþjóðlegra fyrirtækja með höfuðstöðvar þar.
Sparnaður við að leggja niður íslensku
Í frjálshyggjubylgjunni kringum síðustu aldamót var fjallað um hvað íslenskt samfélag gæti sparað mikla fjármuni á því að leggja niður íslensku og taka upp ensku. Niðurstaða eins tölfræðingsins var að sparnaðurinn yrði 62 milljarðar á ári að núvirði, út frá aðstæðum þess tíma.
Heildarútgjöld ríkissjóðs voru um 1.600 milljarðar í fyrra.
Vaxtakostnaður ríkisins er um 125 milljarðar króna í núverandi vaxtaumhverfi og þótt ríkið hafi vaxtatekjur að megninu á móti, er ljóst að það væri gott að vera laus við þennan kostnað. Varlega áætlað gætum við gengið skrefið til fulls, lagt niður íslensku og sparað helminginn af núverandi vaxtakostnaði ríkisins á ári.
Þegar allt kemur til alls tökum við hins vegar stundum ákvarðanir út frá öðru en peningum eða beinum hagsmunum. Og stundum er það þannig að dulinn kostnaðurinn af tekjum breytir reikningsdæminu.
Það er sérstök ákvörðun að vera þjóð, sem varðar sjálfsmynd okkar, rætur og tengsl.
Hver stjórnar?
„Það skiptir máli hver stjórnar,“ var kosningaslagorð forsætisráðherrans sem leiddi síðustu ríkisstjórn, þar til viðkomandi fór í forsetaframboð og vék fyrir öðrum sem þjóðin vildi mælanlega ekki að stjórnaði, en það má ráða af því að 64 prósent báru lítið traust til hans þegar hann hafði verið forsætisráðherra áður.
Algeng hugsanavilla er geislabaugsáhrifin (halo effect), sem á við um að fólk yfirfærir hæfni manneskju á einu sviði yfir á allt annað. Þannig gæti fólk trúað því að knattspyrnumaðurinn Ronaldo væri nauðsynlega með snarpa dómgreind og sterkt siðferði, vegna þess að hann skaraði fram úr í fótbolta.
Það er sömuleiðis arfleifð ættbálkahugsunar að setja sig í lið og fylgja því í blindni. En á sama tíma erum við þjóð, en hagsmunir allra innan þjóðar eru ekki þeir sömu.
Á endanum skiptir í sjálfu sér ekki máli hver stjórnar eða hver segir hvað, heldur hvað er sagt, hvað gert, í hvaða tilgangi og með hvaða árangri.
Þegar við tökum ákvarðanir á samfélagslegum skala viljum við væntanlega styðjast við lágmarksaðferðir verkefnastjórnunar, að setja okkur markmið, fylgja þeim eftir og meta. Þá þarf að eiga sér stað markmiðasetning og raunveruleg mæling á árangri.
Markmiðin okkar
Ef markmiðið var stöðugleiki, hlýtur að vera ljóst að ef húsnæðiskostnaður sveiflast um hundruð þúsunda á mánuði hjá venjulegri fjölskyldu á fáum árum, getur markmiðið ekki hafa náðst.
Markmið sem varðar velsæld og hagvöxt hlýtur að miðast við að auka hana að meðaltali eða miðgildi, en ekki framkalla heildarhækkun með mannfjölgun. Fjölgun starfa hefur gjarnan verið markmið, en hvers vegna að fjárfesta og stefnumarka til að fjölga sérstaklega láglaunastörfum og framkalla hækkun vaxta og fasteignaverðs?
Það er ekki sama niðurstaðan af því fyrir þjóðina að erlendir aðilar reisi virkjanir, til dæmis vindmyllur, með tilheyrandi óreiknuðum kostnaði en ábata á móti, og að ríkisfyrirtæki reisi þær og skili arðinum til almennings. Landsvirkjun skilaði 25 milljarða króna arði til ríkissjóðs í ár, en erlent orkufyrirtæki hefði sent mest allt úr landi. Ekki heldur er sama niðurstaðan af því að arður af fiskveiðiauðlindinni þjappist saman á hendur fárra fjölskyldna, eða dreifist meira eftir línum meintrar þjóðareignar á auðlindum.
Breytingar fram undan
Sumar framtíðarbreytingar eru þegar sýnilegar í sjóndeildarhringnum. Hagstofan spáir því að rúmlega fimm þúsund manns flytji til Íslands á hverju ári, með sömu áskorunum og áður, en spáin er framreiknuð út frá síðustu árum og erfitt að gera ráð fyrir henni.
Fram undan er vaxandi lúxusvæðing náttúrunnar. Ósnortin náttúra víkur sums staðar fyrir glæsihótelum, baðstöðum og svo fleiri virkjunum sem stjórnvöld eru að setja á oddinn.
Vel getur verið að þetta sé í okkar þágu sem þjóðar og að við eigum nóg af náttúru til að spila úr. En þá þarf að reikna kostnaðinn á móti. Hvers virði er það fyrir þjóð að eiga aðgang að óspilltri náttúru, eða selja hann? Hvers virði eru tengslin við umhverfið og hverju nákvæmlega, í mælanlegu gildi og ómælanlegum gildum, á rofið að áorka?
Hagsmunirnir geta líka stangast á innra með okkur. Seðlabankinn varaði við því í sérstakri umræðu í Peningamálum sínum í síðustu viku að verðhækkanir á matvöru gætu komið í veg fyrir lækkun verðbólgunnar. Matarverð hefur hækkað um 6 prósent á einu ári. Á sama tíma skila matvörurisarnir – sem eru að miklu leyti í sama eignarhaldi – methagnaði.
Það er ekki tilviljun eða án afleiðinga að matvörurisarnir á Íslandi hafa skilað methagnaði ársfjórðung eftir ársfjórðung. Hlutabréfaverð í Festi, sem rekur Krónuna og fleiri verslanir, hefur tæplega tvöfaldast á tveimur árum og hlutabréf Haga, sem reka Bónus, hækkað um 77 prósent, á sama tíma og verðbólgan hefur riðið húsum.
Þarna, eins og áður, segja tölurnar söguna og vekja um leið spurningar um hvers vegna við leitum ekki í átt að augljósum markmiðum.











































Athugasemdir (1)