Vísitala neysluverðs, sem sýnir verðbólgu, lækkaði um 0,48% í nóvember, sem telst jákvætt fyrir fasteignaeigendur með húsnæðislán. Þetta er mun jákvæðari verðlagsþróun en mældist í nóvember í fyrra, þegar vísitalan hækkaði um 0,09%, og langtum betri þróun en spáð var.
Lækkun vísitölunnar hefur bein áhrif á höfuðstól verðtryggðra lána í janúar og vegur upp að fullu hækkun höfuðstóls þeirra sem á sér stað í desember vegna 0,47% hækkunar vísitölunnar í síðasta mánuði. Óljóst er hversu mikið gengur til baka af lækkuninni þegar útsöluáhrif hverfa í desember.
Greining Íslandsbanka hafði spáð hækkun vísitölunnar um 0,1% og að verðbólga yrði áfam „pikkföst“ næstu mánuði. Landsbankinn hafði spáð því að verðbólga hækkaði um 0,13%.
Helsta ástæða lækkunarinnar nú er minni hækkun húsnæðis en áður og lækkun sumra liða. Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 14,3% (áhrif á vísitöluna -0,31%), húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. lækkaði um 2,2% (-0,11%) og föt og skór lækkuðu um 2,7% (-0,10%). Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 0,5% (0,10%).
Hagstofan vekur athygli á því að áhrifa afsláttardaga í nóvember gætir meira að þessu sinni þar sem ekki er einungis um að ræða 2-3 daga eins og áður heldur tilboð sem teygja sig yfir marga daga og jafnvel vikur í mánuðinum.
Með lækkun vísitölunnar í nóvember er verðbólgan fallin niður í 3,7% úr 4,3% í síðasta mánuði. Hún hefur ekki verið lægri síðan í desember 2021, en engu að síður er hún 1,2% yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands, sem lækkaði þó stýrivexti um 0,25% fyrr í mánuðinum, sem leiddi til sömu lækkunar á vöxtum sumra óverðtryggðra fasteignalána.
Gera má ráð fyrir hækkun vísitölu neysluverðs í desember, lækkun í janúar og ríflegri hækkun í febrúar þegar útsöluáhrif hverfa.












































Athugasemdir