Rússar hafa séð nýjustu útgáfuna af áætlun Bandaríkjanna um að binda enda á stríðið í Úkraínu og líta jákvæðum augum á suma þætti hennar, en önnur atriði krefjast umræðu, að sögn talsmanns Kremlar í dag.
Í samtali við fréttamann rússneska ríkissjónvarpsins sagði Yuri Ushakov, aðstoðarmaður stjórnvalda í Kreml, að nýju drögin krefðust „sannarlega alvarlegrar greiningar“ og að Rússar hefðu ekki enn rætt þau við neinn.
„Hægt er að líta á suma þætti með jákvæðum augum, en margir krefjast sérstakra umræðna meðal sérfræðinga,“ sagði Ushakov við fréttamann ríkissjónvarpsins.
Nýjasta áætlun stjórnvalda í Washington, að afloknu samráði við Úkraínumenn, hefur ekki enn verið birt.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í gær að um væri að ræða „fínstillta“ útgáfu af fyrri 28 punkta áætlun sem hefði falið í sér að Úkraína drægi sig til baka frá Donetsk-héraði og minnkaði her sinn, atriði sem úkraísnk stjórnvöld höfðu gagnrýnt.
Úkraína sagði síðar að „skilningur“ hefði náðst við Bandaríkin og að báðir aðilar hefðu bakkað með sum þeirra atriða sem þeir voru ósammála um eftir viðræður í Genf.
Bandarískir embættismenn munu nú funda með báðum aðilum í von um að ganga frá samkomulaginu, sagði Trump í gær.
Kreml staðfesti fyrr á miðvikudag að Steve Witkoff, sérstakur sendifulltrúi Bandaríkjanna, myndi heimsækja Moskvu í næstu viku til að funda með Vladimir Pútín, forseta Rússlands.
Ushakov gagnrýndi Evrópu sérstaklega fyrir að taka þátt í viðræðum um að binda enda á stríðið og sakaði þá um „afskiptasemi“ í friðarferlinu.

















































Athugasemdir