Þingmenn úr röðum Viðreisnar, Samfylkingar og Flokks fólksins vilja að starfshópur verði myndaður sem leggi fram tillögu um hjólaleið á milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja fyrir 1. janúar 2027.
Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar sem er nú stödd hjá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis að lokinni fyrstu umræðu.
„Tvö stærstu þéttbýlissvæði landsins, höfuðborgarsvæðið og Suðurnes, liggja í 50 kílómetra fjarlægð hvort frá öðru,“ segir í tillögunni. „Á milli þeirra eru engar náttúrulegar hindranir og leiðin liggur á láglendi. Því eru allar forsendur fyrir góðri hjólreiðatengingu milli svæðanna. Af henni hefur enn ekki orðið.“
Bent er á að hámarkshraði á Reykjanesbraut sé 90 km á klukkustund en ferðahraði þorra ökumanna sé á köflum hærri. „Samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum um hönnun hjólaleiða getur vegöxl Reykjanesbrautar vart talist ásættanleg hjólaleið þegar tekið er mið af umferðarþunga og umferðarhraða á Reykjanesbraut, hvað þá ef umferðarhraði eykst enn frekar,“ segir í tillögunni.















































Athugasemdir