Brottrekinn lögmaður úr dómsmálaráðuneyti Trump-stjórnarinnar í Bandaríkjunum segir að stjórnvöld hafi ákveðið að hunsa dómstóla og ljúga fyrir dómi til þess að flytja fólk úr landi.
Fyrrverandi lögmaðurinn, Erez Reuveni, sem nú stígur fram sem uppljóstrari, segir að hann hafi orðið vitni að „lítilsvirðingu gagnvart réttarfari og sjálfu réttarríkinu“ innan ráðuneytisins. Þetta kemur fram í viðtali við 60 Mínútur á CBS News.
Reuveni starfaði hjá ráðuneytinu í 15 ár og hlaut viðurkenningu fyrir störf sín. Hann var meðal annars lykillögmaður við varnir í innflytjendamálum á fyrsta kjörtímabili Donalds Trumps og var síðar fljótlega gerður að starfandi aðstoðarforstjóra innflytjendadeildarinnar. Nú hefur hann verið rekinn fyrir að neita að segja ósatt fyrir dómi í þágu stjórnarinnar.
Hunsuðu dómstól og fluttu fólk úr landi
Eitt tilfellið sem lögmaðurinn vísar til er þegar Trump-stjórnin ákvað að senda 100 handtekna innflytjendur til El Salvador í öryggisfangelsi, jafnvel þótt dómstólar hefðu fyrirskipað að það yrði ekki gert. Til þess notaði Trump-stjórnin löggjöf um erlenda óvini, Alien Enemies Act, sem ekki hafði verið notuð frá því í Seinni heimsstyrjöldinni og snýst um að senda ríkisborgara óvinalands úr landi í tilfelli stríðs. Þarna var um að ræða 100 manns frá Venesúela sem ríkisstjórnin sagði að væri hryðjuverkamenn vegna meintrar aðildar að glæpagengi. Dómsmálaráðuneytið ákvað að þeir skyldu ekki fá að fara fyrir dómara til að gæta réttar síns.
Reuveni lýsir því hvernig starfsmenn dómsmálaráðuneytisins áformuðu, undir forystu Emil Bove, sem áður var persónulegur lögmaður Donalds Trump, en þarna var orðinn þriðji hæst setti embættismanns ráðuneytisins, ákváðu að sniðganga dómstóla. „Bove lagði áherslu á að þessar flugvélar þyrftu að fara á loft, sama hvað. Síðan, eftir stutt hlé, sagði hann við alla viðstadda, að ef einhver dómstóll skyldi gefa út úrskurð um að stöðva það, þá gætum við þurft að íhuga að segja þeim dómstól að fokka sér,“ segir Reuveni við 60 mínútur.
Hann segist hafa verið „sjokkeraður“.
„Mér leið eins sprenging hefði orðið,“ útskýrir hann. „Hér er þriðji æðsti embættismaðurinn að nota blótsyrði til að segja lögmönnum með áralanga reynslu að við gætum þurft að íhuga að hunsa úrskurði dómstóla.“
Rekinn eftir að hafa neitað að ljúga
Hann segir að hann hafi verið settur í leyfi og síðar rekinn eftir að hafa neitað að skrifa undir skjal í máli Kilmar Abrego Garcia, þar sem ranglega hafði verið vísað manni úr landi. Í kjölfarið lagði hann fram uppljóstrunarkæru sem vakti áhyggjur margra dómstóla um að dómsmálaráðuneytið væri að fara út fyrir mörk laganna.
Daginn eftir höfðu lögmenn fanganna stefnt ríkinu. James Boasberg, dómari í Washington D.C., spurði ríkislögmanninn Drew Ensign hvort flugvélar væru á leið í loftið.
Ensign sagðist ekki vita það, þótt Reuveni segi að báðir hafi verið á fundi þar sem staðfest var að flug yrðu send um helgina, „sama hvað“.
„Það er mesta og alvarlegasta brot sem lögmaður getur framið að villa vísvitandi um fyrir dómstólum,“ sagði Reuveni.
Á meðan réttarhöldin stóðu yfir fóru vélarnar á loft. Boasberg gaf út úrskurð og Reuveni sendi strax tölvupóst til viðeigandi stofnana þar sem hann skrifaði: „Dómarinn skipaði okkur sérstaklega að fjarlægja engan og skila öllum sem eru núna í flugi.“
En það var ekki gert. Fimm klukkustundum síðar lentu fangarnir í háöryggisfangelsi í El Salvador.
„Þá skall þetta á mér af fullum þunga: Við sögðum bókstaflega við dómstólinn: „skítt með ykkur“. Við sögðum: Okkur er sama um ykkar úrskurð. Þið getið ekki skipað okkur fyrir,“ sagði Reuveni.
„Það var eins og högg í magann.“
Dómstólar eigi að framfylgja lögum
Fyrrverandi starfandi dómsmálaráðherra Peter Keisler sagði við 60 Minutes að ráðuneytið verði að fara eftir öllum úrskurðum þegar þeir eru í gildi, jafnvel þótt það hyggist áfrýja.
„Allir eiga rétt á sínum degi fyrir dómi,“ sagði Keisler.
„Við viljum vita að ef stjórnvöld grípa til aðgerða gegn okkur, þá fáum við tækifæri til að leggja fram sönnunargögn og tryggja að ríkið fari ekki út fyrir lagaleg mörk.“
Abrego Garcia var síðar fluttur aftur til Bandaríkjanna. Hann hefur nú verið ákærður fyrir að flytja óskráða innflytjendur en neitar sök. Dómari gagnrýndi „slæma tilraun“ ráðuneytisins til að tengja hann við glæpasamtökin MS-13, og hann hefur ekki verið ákærður fyrir hryðjuverk.
Venesúelabúarnir sem fluttir voru til El Salvador voru síðar sendir heim til síns heima. Í vor komst Hæstiréttur Bandaríkjanna að einhuga niðurstöðu, að allir sem vísað er úr landi samkvæmt Lögum um erlenda óvini (Alien Enemies Act) eiga rétt á réttlátri málsmeðferð.
Trump-stjórnin segir ósatt fyrir dómi
Prófessor Ryan Goodman við New York University, sem stýrir óháðu lagatímariti, Just Security, sagði að rannsókn hans á hundruðum dómsmála gegn Trump-stjórninni sýndi alvarlegar vísbendingar um ósannindi af hálfu ráðuneytisins.
„Við fundum yfir 35 mál þar sem dómarar sögðu sérstaklega að ríkið hefði lagt fram rangar upplýsingar — jafnvel undir eið,“ sagði Goodman.
Sumir dómarar, bæði skipaðir af demókrötum og repúblikönum, lýstu störfum ráðuneytisins sem „mjög villandi“ og „eyðileggjandi fyrir traust sem byggst hefur upp í áratugi“.
Dómsmálaráðherrann Pam Bondi, fyrrverandi aðstoðarmaður hennar Emil Bove, og lögmaðurinn Drew Ensign, höfnuðu öll beiðni 60 mínútna um viðtal, en Emil Bove hefur nú verið skipaður dómari.
Aftökur án dóms og laga
Bandarísk stjórnvöld í seinni forsetatíð Donalds Trump hafa legið undir ámæli fyrir að fyrirskipa loftárásir á meinta fíkniefnasmyglara á Karíbahafinu, en aðmírállinn sem er yfir Suður-Ameríku fyrir Bandaríkjaher hætti nýverið störfum af óljósum ástæðum, en samkvæmt fréttum tengdist það áhyggjum hans af ólögmæti aftakanna.
Nú hafa stjórnvöld og framámenn í Repúblikanaflokki forsetans lýst því yfir að þeir sem mótmæla Trump-stjórninni séu tengdir samtökunum Antifa, sem þau segja að séu hryðjuverkasamtök.
Athugasemdir