Icelandic Queer Film Festival verður haldin í fyrsta sinn dagana 4. til 7. september í Bíó Paradís.
Þrjátíu ár eru síðan fyrsta hinsegin kvikmyndahátíðin var haldin á Íslandi, Hinsegin bíódagar, hugarfóstur Kristínar Ómarsdóttur og Hrafnhildar Gunnarsdóttur. „Við vitum að við erum ekki að finna upp hjólið því hún braut blað í íslenskri menningarsögu. Heimili hátíðarinnar var þá í gamla Regnboganum og talar hún því við nýju hátíðina bæði varðandi staðsetningu og hugsjón,“ segir Óli Hjörtur Ólafsson, rekstarstjóri Bíó Paradís.
„Þetta var eiginlega smá heppni eða kannski meira að vera á réttum stað og á réttu stund,“ bætir hann við um tilurð hátíðarinnar. „Ég er búinn að vera með þann draum í mörg ár að Ísland fái almennilega kvikmyndahátíð sem að einblínir einungis á hinsegin sögur og hinsegin kvikmyndagerð. Það eru þannig hátíðir alls staðar í Bandaríkjunum, Suður-Ameríku, Asíu og líka á Norðurlöndunum. Af hverju ekki á Íslandi?“
Óli Hjörtur segir að vegna starfs síns sem rekstrarstjóri Bíó Paradís hafi hann fengið tækifærið til að láta þennan langþráða draum rætast. „Ég sem samkynhneigður maður og algjör „cinephile“ hefði elskað að getað fengið að upplifa þannig hátíð þegar ég var að koma út sem 18 ára,“ segir hann. „Eftir nokkra mánaða vinnu þar hafði Sigga Ásgeirsdóttir vinkona mín samband við mig varðandi mynd sem að hana langaði að sýna í bíóinu og ég minntist á þennan draum við hana. Við byrjuðum að pæla í þessu og sækja um styrki. Það leið ekki langt þangað til að önnur vinkona mín Charlotta Rós heyrði af þessu og við buðum henni með í að taka þátt í þessu ævintýri með okkur.“
„Það er mikill kraftur fólginn í því að upplifa saman í bíósal“
Aðspurður um hvaða áherslur hafi verið við val á kvikmyndum á hátíðina segir Óli Hjörtur að þau hafi langað að sýna eitthvað nýtt. „Eitthvað ferskt og skemmtilegt sem að endurspeglar hinseginleikann á nútímalegan hátt. Framleiðsla á hinsegin kvikmyndaefni hefur aldrei verið meiri og fjölbreyttari, en því miður er fátt af því efni sem nær í almennar sýningar og algengast er að fólk nálgist efni á netinu og horfi eitt heima hjá sér eða í litlum hópi. Það er mikill kraftur fólginn í því að upplifa saman í bíósal og við viljum að bíóhúsið sé samkomustaður hugmynda og pælinga. Það er svo gaman að ræða það sem man var að sjá. Hvað var gott og hvað ekki. Oft mest gaman að ræða það sem man fílaði ekki.“
Gróska í hinsegin íslenskri kvikmyndagerð
Óli Hjörtur segist óttast bakslag í hinsegin kvikmyndagerð í Bandaríkjunum vegna stjórnmálaástandsins þar. „En ég vona innilega að fólk sjái skrípaleikinn í því og geri áfram sitt og haldi ótrautt áfram. Norðurlöndin eru að koma sterk inn, sérstaklega Noregur að mínu mati, og ekki má gleyma Svíþjóð sem að ruddi brautina með myndina Fucking Åmål sem verður einmitt sýnd á hátíðinni.
Á Íslandi finn fyrir grósku í hinsegin kvikmyndagerð og þá sérstaklega með myndina Geltu sem að vann Edduverðlaunin sem besta stuttmyndin í ár. Einnig má ekki gleyma Örnu Magneu Danks sem í ár varð fyrsta íslenska transkona til að vera tilnefnd sem besta leikkonan á Eddinu. Satt best að segja hefði ég elskað það ef að hún hefði farið heim með Eddunna. Þannig að þetta fer batnandi klárlega.“

Myndirnar á hátíðinni eru meðal annars frá Kína, Frakklandi, Brasílíu, Filipseyjum, Írlandi, Bandaríkjunum, Íslandi, Ástralíu, Danmörku og Svíþjóð og ættu öll að finna eitthvað við sitt hæfi, að mati Óla Hjartar.
Sjálfur segist hann sérstaklega mæla með myndinni Asog frá Filippseyjum. „Hún er eitthvað svo fyndin og skemmtileg og svo falleg,“ segir hann. „Er búin að sjá hana nokkrum sinnum og ég er gjörsamlega hrifinn yfir þessari mynd. Teiknimyndin Lesbian Space Princess er einnig ótrúlega skemmtileg og síðan verður uppáhalds heimildamyndin mín Paris Is Burning sýnd og það verður sérstök partýsýning í kringum hana þar sem hún var frumsýnd á Íslandi á Hinsegin bíódögum fyrir 30 árum.“
Reykjavíkurborg og Kvikmyndamiðstöð styðja hátíðina en Óli Hjörtur segir skipuleggjendur sérstaklega vera þakkláta Barnamenningarsjóði sem með styrk sínum gerði það að verkum að sérstök ungmennadagskrá verður í boði þar sem hinsegin unglingamyndir verða sýndar án endurgjalds.
Miðasala á hátíðina er hafin á Tix.is.
Athugasemdir