Brúðkaup aldarinnar fór fram í Feneyjum í sumar. Ríka og fræga fólkið flykktist til Feneyja til þess að fagna brúðkaupi Lauren Sánchez og Jeff Bezos – sem er nú á þriðja sæti á lista yfir ríkustu menn heims.
Veisluhöldin stóðu yfir í nokkra daga og fóru fram á sögulegum slóðum víðs vegar um borgina. Þar var veisla með Great Gatsby-þema, náttfatapartí og froðudiskó. Ein veislan fór fram í klaustri.
Í heimi hinna ríku eru brúðkaup stöðutákn. Alls komu um 250 gestir fljúgandi til veisluhaldanna á 96 einkaþotum. Mótmælendur bentu á kaldhæðnina sem fólst í því að eyjar borgarinnar í Adríahafi eru sérstaklega viðkvæmar fyrir hækkandi sjávarstöðu af völdum loftslagsbreytinga. Ekki síst í ljósi þess að Bezos hefur lýst loftslagsbreytingum sem stærstu ógn jarðar.
Til stóð að leggja borgina undir sig en vegna mótmæla voru veisluhöldin færð út á jaðarinn. Íbúar sögðu borgina ekki beygja sig fyrir auðkýfingum og mótmælendur hengdu upp borða með orðunum: „Ef þú getur leigt Feneyjar fyrir brúðkaupið þitt þá getur þú greitt hærri skatta.“
Í úttekt ProPublica frá árinu 2021 kom í ljós að á sama tímabili og auður Bezos jókst um 120 milljarða dollara gaf hann aðeins upp 6,5 milljarða tekjur. Upphæðin sem hann greiddi í skatta jafngildir aðeins 1,1% skatthlutfalli miðað við aukningu auðæfa. Í umfjölluninni kom einnig fram að 25 ríkustu menn Bandaríkjanna áttu jafnmikið og 14,3 milljónir almennra launþega. En á meðan launþegar greiddu 143 milljarða dollara í skatt greiddu hinir ríkustu aðeins 1,9 milljarða dollara í skatta, segir í umfjölluninni. Stefna stjórnvalda hefur þannig stuðlað að því að auður hinna ríkustu vex stöðugt á kostnað annarra.
Aðallega þótti brúðkaupið bera vott um nýja tíma, þar sem það þykir aftur orðið fínt að berast á. Hófsemi víkur fyrir óhófi. Því meira, því betra.
„Ég er mjög ríkur“
Það er ekkert nýtt að auðmenn berist á. En talað er um að ofgnóttin í brúðkaupi Bezos sé í takt við straumhvörf sem hafi orðið í Hvíta húsinu, með endurkjöri Donalds Trump.
Ein hugmyndin sem honum tókst að selja almenningi var að hann væri svo farsæll í viðskiptum að honum væri best treystandi fyrir ríkisrekstrinum. „Ég er mjög ríkur,“ endurtók hann í sífellu. „Ég er farsælasti frambjóðandi allra tíma.“
„Við erum í heimi milljarðamæringa í framboði til forseta,“ sagði álitsgjafi CNN.
Almennt vill fólk ekki trúa því að álit þeirra á öðrum mótist af því hversu mikla peninga þeir eiga, en rannsóknir hafa engu að síður sýnt fram á að fólk treystir þeim betur sem eiga peninga. „Útbreidd neikvæð staðalímynd af fátæku fólki getur haft áhrif á þetta mynstur,“ segja höfundar rannsóknar sem birt var í vetur. Ekki aðeins er borið meira traust til hinna efnameiri heldur skortir traust til fátækra.
Í því samhengi virðist litlu skipta hvar og hvernig auðæfin eru tilkomin. Í tilfelli Trumps er um að ræða mann sem fékk fyrirframgreiddan arð frá föður sínum til að fjárfesta. Margoft hefur verið sýnt fram á að ferill hans í viðskiptalífinu hefur alls ekki verið eins farsæll og hann fullyrðir sjálfur.
Til að styrkja þessa ímynd innréttaði hann Hvíta húsið í anda Trump Tower, þar sem hlýjum jarðlitum var skipt út fyrir gull og glamúr. Allt gengur út á að sýna auð sinn og vald.
Einkenni á hugarfarsbreytingu
Ríkisstjórn hans hefur verið kölluð ríkisstjórn milljarðamæringanna. Leiðin af lista Forbes yfir í alríkisstjórnina hefur verið óvenjulega greið. „Í dag er auðræði að myndast í Bandaríkjunum, byggt á gríðarlegum auði, valdi og áhrifum sem bókstaflega ógnar öllu lýðræði okkar, grundvallarréttindum, frelsi og jöfnum tækifærum.“ Með þessum orðum kvaddi Joe Biden Hvíta húsið.
Þegar Charles Kushner, sem tengist Trump fjölskylduböndum, var skipaður sendiherra Frakklands rökstuddi forsetinn þá ákvörðun með því að nýi sendiherrann væri svo öflugur viðskiptamaður. Áður hafði hann játað á sig glæpi, þar á meðal skattaundanskot.
Í kveðjuorðum sínum varaði Biden sérstaklega við uppgangi tæknirisa, sem hafa stutt Trump í orðum og gjörðum. „Bandaríkjamenn grafast undir flóði rangfærslna og villandi upplýsinga sem auðvelda misnotkun valds. Frjáls fjölmiðlun er að hrynja. Ritstjórar hverfa. Samfélagsmiðlar gefast upp á staðreyndaskoðun. Sannleikurinn er kæfður af lygum sem eru sagðar í þágu valds og gróða.“
„Tengingin á milli auðsins og valdsins er að verða skýrari
Í kosningabaráttunni lagði ríkasti maður heims, Elon Musk, fram 30 til 40 milljarða íslenskra króna til stuðnings Donalds Trump. Eftir kaup hans á Twitter náði áróður hægri manna mun meira flugi á X heldur en Demókrata. Mark Zuckerberg lýsti því yfir að staðreyndavakt yrði hætt á Meta. Bezos kom í veg fyrir að Washington Post lýsti stuðningi við keppinaut Trumps í kosningabaráttunni og setti reglur um að skoðanagreinar ættu að styðja við „frjáls viðskipti“. Miðillinn er í hans eigu og hafði verið rekið undir slagorðinu Democracy Dies in Darkness – eða lýðræði deyr í myrkrinu. Fyrrverandi ritstjóri Washington Post, Marty Baron, sagði lýðræðið að veði í kosningunum vegna yfirlýstra áforma Trumps um að auka völd forseta, beita hernum og ráðast í hefndaraðgerðir gegn andstæðingum sínum. Áður hafði Trump hótað Bezos vegna umfjallana Washington Post og Amazon orðið af verðmætum gagnahýsingasamningi við bandaríska ríkið.
Allir sátu þessir menn á fremsta bekk við innsetningarathöfn Trumps. Undirliggjandi skilaboð voru þau að peningar veiti aðgang að völdum. Auðmenn réðu ekki lengur ráðum sínum í reykfylltum bakherbergjum heldur höfðu þeir fengið sæti við borðið.
„Þetta er einkenni á einhverri hugarfarsbreytingu eða breyttri afstöðu, tengingin á milli auðsins og valdsins er að verða skýrari,“ sagði Silja Bára Ómarsdóttir, núverandi rektor og þáverandi alþjóðastjórnmálafræðingur í viðtali við Heimildina síðasta vetur.
Fjármagnstekjur forsetans
Ríkjandi gildismat og menning í Bandaríkjunum ratar gjarnan til Íslands. Sporin hræða.
Því lengra sem líður frá hruninu því nær færist samfélagið sama gildismati og var ríkjandi á árunum fyrir hrun, þar sem hinir ríkustu flugu hátt og aðrir reyndu að feta í fótspor þeirra.
Hér á landi fór einnig fram forsetakjör í fyrra. Nýkjörinn forseti hefur annan bakgrunn en aðrir sem áður höfðu gegnt þessu embætti. Hún lauk námi í viðskiptafræði, MBA-gráðu og doktorsnámi í leiðtogafræðum. Hún var framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs árið 2006, þegar útrás Íslendinga stóð sem hæst. Þar beitti hún sér fyrir því að viðhalda jákvæðari ímynd íslensks viðskiptalífs þegar halla fór undan fæti í aðdraganda hrunsins.
Halla Tómasdóttir er fyrsti íslenski forsetinn sem kemur úr viðskiptalífinu, sem varð til þess að erlendis var víða talað um hana sem: Businesswoman Halla.
„Ég er búin að vera í öðru – að reyna að breyta heiminum
Hún er hins vegar ekki fyrsti forseti Íslands sem hefur lagt áherslu á að halda uppi jákvæðni íslenskra viðskiptamanna. Það gerði Ólafur Ragnar Grímsson grimmt á árunum fyrir hrun, þá sitjandi forseti með þetta gildismat. Áður en Halla tók við stjórnartaumunum á Bessastöðum hafði hún gert þetta tímabil upp. „Hér verður ekki bara efnahagshrun heldur brotnar samfélagssáttmálinn,“ sagði hún meðal annars í viðtali við Heimildina í aðdraganda kosninga. Þar talaði hún um sár sem hafi ekki tekist að græða eftir hrunið. Í viðtali við RÚV sagði hún síðan: „Forseti getur með öðrum búið til farveg þar sem þjóðin sjálf fær svolítið að ákvarða sína framtíðarsýn, ekki síst næsta kynslóð.“
Rétt fyrir kosningar birtist umdeilt myndband á síðu hennar, þar sem jakkafataklæddir ungir menn stíga út úr Land Rover, ganga ákveðnir í átt að myndavélinni, hrinda frá sér konu og kasta lyklum í átt til annarrar, með hvatningu um að mæta á kjörstað. „Framtíðin er okkar.“
„Allt í einu er ég kominn með Silvíu Nótt á heilann, hvernig sem á því stendur,“ sagði rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl þegar niðurstöður kosninganna lágu fyrir. „Sigur Höllu Tómasdóttur verður um leið sigur MBA-gráðunnar, leiðtogafræða, viðskiptafræði og mannauðsstjórnunar. Þetta tekur við af sagnfræðinni, stjórnmálafræðinni, íslenskunni og bókmenntafræðunum í æðsta virðingarembætti landsins,“ skrifaði framkvæmdastjóri Sameinaða útgáfufélagsins, sem gefur út Heimildina, Jón Trausti Reynisson, sem sagði breytinguna táknræna fyrir nýja tíma.
Forseti Íslands er á lista yfir tekjuhæsta eina prósent Íslendinga, með heildarárstekjur upp á 64 milljónir. Þar skipta fjármagnstekjurnar mestu máli, en þær voru 45,5 milljónir á árinu sem var að líða. Í ár átti hún síðan von á 100 milljón króna arðgreiðslu eftir að eignarhaldsfélag sem hún á hlut í ákvað að greiða 800 milljónir út í arð til eigenda. Eigið fé félagsins nam 600 milljónum eftir arðgreiðslur. Af arðgreiðslum er greiddur 22 prósenta skattur. Sem þýðir að af 100 milljóna arðgreiðslu fara um 78 milljónir í vasann.
Sjálf sagði hún sig frá prókúru í félaginu eftir að hún náði kjöri sem forseti. „Ég er búin að vera í öðru – að reyna að breyta heiminum,“ útskýrði hún fyrir Viðskiptablaðinu.
Ímyndarsköpun auðmannsins
Af hverju eru allir og amma þeirra að kaupa hlutabréf? var fyrirsögn á frétt RÚV fyrir þremur árum síðan.
Sama ár birti íslenskur auðmaður myndband frá brúðkaupi sínu sem fór fram í sveitasetri í Frakklandi og minnti helst á atriði úr rómantískri Hollywood-mynd. Í myndbandinu mátti sjá að hvergi hafði verið sparað til að gera veisluhöldin sem allra glæsilegust. Hjónin voru gefin saman undir blómaboga og gengu síðan eftir spegladregli við undirtektir gesta sem flogið hafði verið út með einkaþotum fyrir nokkurra daga veisluhöld. Dansað var á gylltu dansgólfi í glerkastala með kristalsljósakrónum og blómaskreytingum. Syndandi svanir voru á blómum skreyttri tjörn og blómaveggir. Á meðal þeirra sem skemmtu gestum voru Enrique Iglesias.
Í fréttum af brúðkaupinu kom fram að brúðguminn, Róbert Wessman, hefði klæðst fötum frá Dolce & Gabbana. Brúðurin, Ksenia Shakhmanova, var í kjól frá Zuhair Murad.
Mikið hefur verið lagt í ímyndarsköpun á vörumerkinu Róbert Wessman á tíma tapreksturs, illdeilna og ásakana á hendur honum, líkt og fram kom í umfjöllun Heimildarinnar í vor. Þá hefur hann staðið í áralöngum deilum við annan íslenskan auðmann, Björgólf Thor, sem hafa teygt anga sína inn í fjölmiðlarekstur hér á landi.
Áður hafði Róbert greitt 10 milljónir króna fyrir 10 síðna forsíðuumfjöllun í breska tímaritinu World Finance. Ári síðar fékk hann viðskiptaverðlaun frá vefmiðli í eigu sama útgáfufélags. Í gegnum tíðina hafa hann og fyrirtæki á hans vegum stundað það að greiða fyrir jákvæða umfjöllun um sig. Keyptar umfjallanir eru síðan notaðar til þess að kynna fyrirtækin á erlendum markaði, þar sem tiltrú fjárfesta skiptir sköpum.
Alvotech hefur þurft að sækja hlutafé til að standa undir rekstrinum. Í fyrra skilaði reksturinn hagnaði eftir margra ára tap. Á sama tíma og fyrirtækið tapaði hærri upphæðum en námu halla ríkissjóðs var Róbert engu að síður með hundruð milljóna í árslaun, auk þess sem Alvotech hefur leigt fasteignir af félögum í eigu hans fyrir svimandi háar upphæðir, eða 1.700 milljónir árið 2022. Þrátt fyrir tapið greiddi Róbert sér arð út úr fjárfestingarfélagi sem heldur utan um eignarhluti hans í Alvotech og Alvogen. Árið 2021 nam arðgreiðslan 11,3 milljörðum króna og rann til félags í Lúxemborg sem er í eigu sjóðs í skattaskjólinu Jersey.
Stjórnmálamenn varaðir við
Sókn auðugra Íslendinga í skattaskjól var afhjúpuð með Panama-skjölunum. Þar kom í ljós að menn sem höfðu verið umsvifamiklir í íslensku viðskiptalífi fyrir hrun höfðu fjármagnað endurkomuna eftir hrun í gegnum skattaskjól. Í skjölunum voru til dæmis Bakkavarar-bræður en félag í þeirra eigu var á meðal þeirra sem þáðu hæstu arðgreiðslur á uppgangsárunum fyrir hrun. Alls fékk það tæpa níu milljarða króna í arðgreiðslur á árunum 2005 til 2007.
Stjórnmálamenn voru einnig afhjúpaðir í Panama-skjölunum, þáverandi fjármálaráðherra og forsætisráðherrann áttu báðir félög í skattaskjóli. Síðar átti eftir að koma í ljós að annar þeirra, Bjarni Benediktsson, hafði setið beggja vegna borðsins í aðdraganda hrunsins, losað sig undan 50 milljóna kúlulánaskuld í aðdraganda hrunsins og selt hlutabréf daginn sem neyðarlögin voru sett.
„Hvað sem þið gerið, ekki leyfa aðskildum fjárfestingarhópum að ná stjórn á bönkunum
Í gegnum tíðina hafa íslenskir stjórnmálamenn gefið almenningi ríka ástæðu til að vantreysta tengslum stjórnmála og viðskipta. Tvö ár eru liðin frá því að hlutabréf ríkisins í Íslandsbanka voru seld með ólögmætum hætti. Vegna umfangs málsins, fjölda og alvarleika brotanna var bankanum gert að greiða 1,16 milljarða króna sekt. Í kjölfarið létu helstu stjórnendur bankans af störfum.
Þegar Fjárfestingarbanki atvinnulífsins var seldur fyrir aldamót var dreift eignarhald yfirlýst markmið stjórnvalda. Engu að síður komst stór hluti bréfanna í hendur fárra. Þegar Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru seinna einkavæddir var áhersla lögð á að laða erlenda fjárfesta að. Viðræðum við sænskan banka var hins vegar slitið fyrirvaralaust og án viðhlítandi skýringa. Fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var vísað til ákvörðunar stjórnmálamanna um að skipta bönkunum á milli „blárra“ og „grænna“ karla. Ráðherrar hafi verið farnir að taka ákvarðanir um sölu ríkisbanka, horfið var frá nánast öllum verklagsreglum og upplýsingum lekið til hagsmunaaðila.
„Is this man fit to own a bank?“ var fyrirsögn forsíðugreinar í Euromoney eftir að annar bankinn var seldur til hóps fjárfesta, þrátt fyrir sterk tengsl við Rússland, skort á reynslu af rekstri banka og fyrri dóm eins eigandans, meðal annars fyrir bókhaldssvik.
Seinna lýsti bankastjóri í London því fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að hann hefði reynt að vara stjórnvöld við því að selja stóran hlut til tengdra aðila, líkt og hér var gert: „Hvað sem þið gerið, ekki leyfa aðskildum fjárfestingarhópum að ná stjórn á bönkunum.“
Átu gull í Mílanó
Eigendur bankanna voru allt í öllu í íslensku viðskiptalífi og tóku hvert fyrirtækið af öðru traustataki. Ný viðmið voru sett um launakjör og kaupréttarsamninga, íslensk nöfn fóru að birtast á listum yfir ríkasta fólk í heimi og ójöfnuður óx hratt.
Í rannsóknarskýrslu Alþingis segir að það sé verðugt rannsóknarefni að skoða hvernig það gerðist í lýðræðisríki að efnahagslegt vald safnaðist á fárra hendur, þannig að á örfáum árum upp úr aldamótunum 2000 varð til ný forréttindastétt sem lifði við mun meiri munað en þekkst hefur hér á landi.
Verð á einbýlishúsum rauk upp. Dæmi var um að hús væru keypt dýru verði til þess að jafna þau við jörðu. Einn keypti tvö hús, hlið við hlið, til að geta breytt þeim að vild. Nýlega birtist grein í The New Yorker um hvað gerðist í friðsælu íbúðarhverfi þegar Mark Zuckerberg fór að kaupa upp eignir þar, 11 íbúðarhús sem eru nú hulin með háu limgerði. Öryggismyndavélar ná inn á lóðir nágranna og lífverðir fylgjast með vegfarendum.
„Þú verður að breyta leiknum“
Á árunum fyrir hrun keyptu íslensku auðmennirnir fasteignir erlendis og jarðir víða um land, einkaþotur, þyrlur, snekkjur og kappakstursbíla. Allt sem hugurinn girnist. „Munaðarlíf íslensku „auðmannanna“ sem þeir reyndust í mörgum tilvikum alls ekki borgunarmenn fyrir þegar á reyndi lýsir siðferði óhófs, flottræfilsháttar og drambs sem gengur þvert á þau gildi sem lengstum einkenndu íslenskt samfélag á 20. öld,“ sagði í rannsóknarskýrslu Alþingis.
Veisluhöld fóru fram um allan heim, þar sem eðalvínið flæddi, matur var ekki af skornum skammti og erlendum skemmtikröftum var flogið til landsins fyrir kvöldmat og aftur heim um miðnætti. Í Mílanó var gullslegið risotto á boðstólum.
„Þegar ég sé eitthvað sem er of gott til að vera satt spyr ég hvers vegna,“ var haft eftir háttsettum stjórnanda í stórum erlendum banka. „En staðreyndin er sú að í velgengni spyrja menn oft ekki erfiðra spurninga.“
Spyrja ekki erfiðra spurninga
Áhrifin náðu langt út fyrir raðir hinna ríkustu. Fjöldi fólks eltist við lífshætti auðmanna, enda virtust allir hafa þá trú að þeir gætu orðið ríkir.
„Ég held að fólk eins og Elon Musk vilji að allir lifi í Squid Game, þar sem allir hugsa að þeim sé sama þótt aðeins einn þeirra muni vinna og 99 prósent muni tapa. Þeir séu tilbúnir til að berjast við fólkið í kringum sig til að ná eina prósentinu,“ sagði breski hagfræðingurinn Gary Stevenson, sem hefur helgað sig baráttunni fyrir auknum jöfnuði. „Þú verður að breyta leiknum.“
Með endurkomu efnishyggjunnar er mikilvægt að muna þennan tíma – og varast tilhneiginguna til að treysta þeim betur sem hafa aðgengi að fjármagni en vanmeta þá sem hafa það ekki.
Athugasemdir