Fasteignafélag í eigu Kristjáns Vilhelmssonar, framkvæmdastjóra útgerðarsviðs og eins af stofnendum Samherja, hefur keypt höfuðstöðvar ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar við Háaleitisbraut 68 í Reykjavík, mánuði eftir að hafa keypt höfuðstöðvar Landsbankans við Austurstræti í miðbæ Reykjavíkur.
Landsvirkjun seldi húsið á 1,2 milljarða króna, en flatarmál þess er 4.555 fermetrar. Landsvirkjun hefur komið sér fyrir í tímabundnu húsnæði við Katrínartún, þar til áformaðar höfuðstöðvar rísa við Bústaðarveg á lóðum sem Landsvirkjun keypti í febrúar fyrir 1,3 milljarða króna.
Mygla fannst í húsnæði Landsvirkjunar við Háaleitisbraut fyrir tveimur árum og voru starfsmenn þá fluttir í annað húsnæði.

Félagið sem kaupir heitir Landsbyggð ehf. Það er að helmingi í eigu Kristjáns Vilhelmssonar og öðrum helmingi Leós Árnasonar. Þeir eiga sömuleiðis félagið Sigtún sem byggir upp nýjan miðbæ á Selfossi og keypti Landsbankahúsið á Selfossi árið 2020 á 350 milljónir króna. Kaupin voru nokkuð umdeild. Eins og fjallað var um í Heimildinni í september 2023 greindi bæjarfulltrúi í Árborg frá því að hann hefði fengið tilboð um fjárhagslegan stuðning í kosningabaráttu gegn því að koma í veg fyrir að sama hús yrði keypt af sveitarfélaginu.
Landsbyggð hagnaðist um 439 milljónir króna á síðasta birta uppgjörsári, 2023. Þá skuldaði félagið Kristjáni 2,5 milljarða króna. Var boðað að hlutafé yrði aukið um tvo milljarða króna. Félagið hét Austurbær - Fasteignafélag þar til í maí að nafni þess var breytt.
Húsið að Háaleitisbraut 68 var auglýst til sölu í apríl sl. og bárust sex tilboð. Fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka hafði umsjón með söluferlinu.
Í fréttatilkynningu er haft eftir Guðjóni Auðunssyni, stjórnarformanni Landsbyggðar ehf, að húsið geti áfram verið atvinnuhúsnæði. „Við sjáum fram á að nýta þetta hús á fjölbreyttan og metnaðarfullan hátt. Staðsetningin er frábær, miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu og nálægt helstu samgönguæðum. Við teljum að húsið geti orðið fyrsta flokks atvinnuhúsnæði þar sem fara saman skrifstofu-, þjónustu- og verslunarrými.“
Þá segir Rafnar Lárusson, framkvæmdastjóri fjármála og upplýsingatækni hjá Landsvirkjun, að unnið sé að þróun nýrra höfuðstöðva. „Við hjá Landsvirkjun fögnum því að gömlu höfuðstöðvarnar okkar séu komnar í hendur nýrra eigenda sem hafa mikla reynslu af uppbyggingar- og umbreytingaverkefnum. Það fór vel um okkur áratugum saman á þessum einstaka útsýnisstað í miðri borginni með góðum grönnum. Við einbeitum okkur núna að því að undirbúa byggingu nýrra höfuðstöðva. Það mál er komið á rekspöl þótt endanlegar ákvarðanir um uppbyggingu liggi ekki fyrir.“
Athugasemdir