Um síðustu helgi birtist leslisti með bókameðmælum fyrir sumarið í bandarískum dagblöðum svo sem Chicago Sun-Times og Philadelphia Inquirer. Af fimmtán bókameðmælum á listanum voru aðeins fimm þeirra raunverulegar bækur.
Lausapenninn sem hafði skrifað greinina og selt dagblöðunum hafði nefnilega notað spunagreind til að skrifa greinina fyrir sig, en sú hafði logið upp ýmsar bækur sem þekktir höfundar áttu að hafa skrifað – auk lýsinga á þeim. Meðal þeirra var ný loftslagsskáldsaga eftir síleska höfundinn Isabel Allende og bók eftir Percival Everett, sem vann Pulizer-verðlaunin nýlega. Hvorug þessara bóka er til.
Chicago Sun-Times staðfesti í gær að gervigreind hefði verið notuð við gerð listans, þar sem frægum höfundum voru gerðar upp bækur sem þeir höfðu ekki skrifað. Guardian greinir frá.
Meðal þeirra upplognu bóka sem nefndar voru á listanum eru:
- Hurricane Season eftir Brit Bennett
- Nightshade Market eftir Min Jin Lee
- The Longest Day eftir Rumaan Alam
- Boiling Point eftir Rebecca Makkai
- Migrations eftir Maggie O’Farrell
- The Rainmakers eftir Percival Everett
- The Last Algorithm eftir Andy Weir
Það er ekki óþekkt að gervigreindir fari með fleipur – búi til upplýsingar og matreiði sem staðreyndir. Fyrirbærinu hefur verið líkt við ofskynjanir og verið kallað „AI hallucination“ upp á ensku.
Rithöfundasambandið vakti nýlega máls á þeim vandamálum sem blasa við höfundum með tilkomu gervigreindar. Á aðalfundi félagsins í lok apríl var samþykkt ályktun um gervigreind þar sem meðal annars var skorað á opinberar stofnanir og einkafyrirtæki að nýta sér ekki gervigreind við lausn verkefna sem áður höfðu verið á verksviði listamanna og höfunda. En slíkt kallar RSÍ atlögu gegn mannlegri sköpun og möguleikum listamanna til að afla sér lífsviðurværis með sköpun sinni.
Athugasemdir