Sunna Ósk Logadóttir og Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson eru rannsóknarblaðamenn ársins 2024 og blaðamaður ársins er Freyr Gígja Gunnarsson. Blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands voru afhent í Grósku fyrr í dag. Þau eru veitt í fjórum flokkum – fyrir umfjöllun ársins, viðtal ársins, rannsóknarblaðamennsku ársins og blaðamannaverðlaun ársins.
Verðlaunin fyrir rannsóknarblaðamennsku fengu Sunna Ósk Logadóttir og Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson fyrir fréttaskýringar um fyrirtækið Running Tide í Heimildinni.
„Áhrifamikil umfjöllun sem afhjúpaði skýjaborgir fyrirtækisins Running Tide sem seldi vanhugsaðar lausnir á loftslagsvandanum. Rætt var við fjölda vísindamanna sem gagnrýndu vinnubrögð fyrirtækisins og þá var fjöldamargra gagna aflað við rannsóknina sem vörpuðu ljósi á hvernig bæði stjórnvöld og eftirlitsstofnanir brugðust hlutverki sínu varðandi starfsemi Running Tide. Fyrirtækið hætti starfsemi sinni bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum um það leyti sem umfjöllun Heimildarinnar birtist,“ sagði í rökstuðningi dómnefndar.
Blaðamannaverðlaun ársins hlaut Freyr Gígja Gunnarsson, fréttamaður á RÚV, fyrir fréttaskýringar sínar í Speglinum. Hann þótti sýna einstaka þrautseigju í að krefja stjórnvöld um svör í ýmsum fréttamálum og hafa dregið nýjar upplýsingar fram í dagsljósið í krafti upplýsingalaga og sett þær í samhengi.
Eva Björk Benediktsdóttir á RÚV fékk verðlaun fyrir viðtal ársins 2024. Viðurkenninguna fékk hún fyrir viðtal sitt við Hafdísi Báru Óskarsdóttur sem varð fyrir lífshættulegri líkamsárás af hendi barnsföður síns og fyrrverandi sambýlismanns.
Verðlaun fyrir umfjöllun ársins hlaut Berghildur Erla Bernharðsdóttir, á fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, fyrir sjónvarpsþáttaröðina Vistheimilin.

Athugasemdir