Hann hélt að dagar sínir væru taldir. Að hann myndi aldrei líta dagsljós aftur. Og enda í maga hvals, rétt eins og Jónas forðum. „Ég hélt að hann hefði étið mig, að hann hefði gleypt mig,“ sagði kajakræðarinn Adrián Simancas sem hnúfubakur skóflaði upp í sig úti fyrir ströndum Chile um síðustu helgi. Hann var aðeins í kjafti hvalsins í örfáar sekúndur áður en honum var hreinlega spýtt út aftur. Faðir hans náði atvikinu á myndband, sem þykir einstakt, en atvikið sem slíkt er það líka. „Engin þekkt dæmi eru um að hvalir éti menn,“ segir Edda Elísabet Magnúsdóttir, hvalasérfræðingur og lektor í líffræði við Háskóla Íslands. Tannhvalir gætu mögulega étið manneskju. En þá þyrftu þeir fyrst að búta hana niður í hæfilega bita. Þetta hljómar ógeðfellt, viðurkennir Edda, en þarft að taka fram til að svara lykilspurningu blaðamanns: Éta hvalir menn?
„Stórir skíðishvalir eins og hnúfubakurinn, í hvers kjafti blessaði kajakræðarinn lenti inn í, geta ekki étið menn“
„Stórir skíðishvalir eins og hnúfubakurinn, í hvers kjafti blessaði kajakræðarinn lenti inn í, geta það ekki,“ svarar hún. „Þeir geta í fyrsta lagi ekki bútað manneskju niður, til þess vantar þeim tennurnar, en svo gætu þeir ekki kyngt manneskju í heilu lagi heldur. Þrátt fyrir gríðarlega stærð þá eru þeir með nokkuð lítið kok og geta þar af leiðandi bara étið ákveðna stærð af dýrum. Enda er þeirra aðalfæða agnarsmá svifdýr og litlir torfufiskar.“
Þessar risavöxnu skepnur, sem sumar eru þær stærstu á jörðinni, nærast nefnilega á því smáa. Og manneskja, með eða án kajaks, er af þeim sökum ekki á matseðlinum.
En eru þeir þá að éta alveg gríðarlegt magn af litlum dýrum?
„Þetta er einmitt oft í umræðunni hér á Íslandi þegar kemur að hvalveiðum,“ svarar Edda Elísabet. En í því samhengi telur hún nauðsynlegt að stíga til baka og skoða þróun hvala.
Hringstraumurinn gjöfuli
Fyrir um 35 milljónum ára losnaði Suðurskautslandið frá meginlandinu og allt breyttist í umhverfi hafsins. Öflugir hafstraumar mynduðust sem enn hringa sig um suðurskautið. „Við þær aðstæður varð mikill þróunarfræðileg innspýting hvað varðar tegundamyndun þörunga og í kjölfarið varð meira af svifdýrum og lífmassi þessara lífvera varð miklu meiri.“

En það voru ekki mörg rándýr sem gátu nýtt sér þessa fæðu og það virðist hafa ýtt undir þróun á síun hjá ákveðnum hvölum. „Þeir þróa með sér síunarbúnað, skíðin,“ útskýrir Edda. Þannig fóru þeir að geta nærst á agnarsmárri fæðu í hafinu og fór samhliða því að vegna vel. Og vegnar nokkuð vel enn þann dag í dag.
Það er vegna þess að á kaldari hafsvæðum og þar sem kaldir og heitari hafstraumar mætast, rétt eins og við Ísland, verða til sérstakar aðstæður fyrir framleiðslu á miklum lífmassa, agnarsmáum lífverum á borð við svifþörunga og svifkrabba sem og á smærri torfufiski eins og loðnu og síld.
„En núna hafa orðið breytingar í hafinu og við farin að sjá mjög miklar breytingar á útbreiðslu þessara lífvera,“ segir Edda. Það setji okkur mannfólk í vandræði, því við veiðum þessar tegundir og nýtum, en líka hvalina sem finna ekki fæðu sína á sömu slóðum og áður. „Já, hvalir eru stórir og éta mikið,“ heldur hún áfram, „en þeir eru aðlagaðir að þessari einstöku auðlind sem er sérstaklega mikið af norðarlega og sunnarlega á hnettinum. Þess vegna hefur vistkerfi jarðar getað haldið uppi þessum gríðarstórum skíðishvölum.“
Hafið við Ísland er að hlýna og það er að súrna. Þetta hefur áhrif á smærri og næmari lífverur, sérstaklega á þroska lirfa hryggleysingja sem og fiska. Lirfur þurfa ákveðið hitastig til að þroskast. Þær eru hitanæmar, líkt og Edda orðar það. Og það eru einmitt þessar næmu lífverur sem hvalir treysta á sér til lífs. Við þessar breyttu umhverfisaðstæður getur orðið hrun í ákveðnum kynslóðum fisktegunda en einnig geta þeir fært sig annað til að hrygna. „Við erum að sjá meiri breytingu í útbreiðslu fiska,“ segir Edda, „og við erum til dæmis að sjá hval inni í Hafnarfirði á veturna, annan veturinn ef ekki þann þriðja í röð. Þar sjáum við dæmi um hval sem virðist naskur á að leita uppi vísbendingar um fæðu. Þegar fæðan þeirra er ekki til staðar þá fara þeir annað að leita hennar.“
Umhverfisbreytingar stóri áhrifavaldurinn
Edda segir klárt að meginorsök þess að lítið finnst af loðnu við Ísland um þessar mundir séu þessar umhverfisbreytingar í hafinu þótt aðrir þættir spili líka inn í, s.s. afrán annarra tegunda. Loðnan er kulsækinn fiskur og útbreiðsla á hrygningarsvæðum hennar hefur breyst síðustu áratugi. „Núna erum við í miklum vandræðum með að finna hana. En við vitum ekki hvort að það sé vegna þess að hún hefur fært sig á nýjar slóðir eða hvort það sé brestur í stofninum.“
Það gæti vissulega haft áhrif á efnahag íslensku þjóðarinnar, líkt og mikið er nú rætt um í fjölmiðlum, en þó ekki síst á allt vistkerfi norðurslóða enda loðnan mjög mikilvæg í því sambandi.
Nokkuð stór meðafli
En færum okkur aftur suður til Chile, á þær slóðir sem feðgarnir voru að róa á kajökunum sínum - í miðri fæðulendu risavaxinna hnúfubaka.
„Þótt kajakræðarinn hafi aldrei verið í hættu á að vera bútaður niður hefði hann getað drukknað,“ segir Edda. „Það kann að líta út fyrir að hvalurinn hafi ætlað sér að gleypa manninn en miðað við líffræði þeirra og hegðun þá tel ég það afar ólíklegt. Maðurinn er þarna á kajak þar sem hvalurinn er að éta. Verstu slysin sem ræðarar verða fyrir í tengslum við hvali eiga sér stað þegar farið er inn á fæðuslóðir. Þar er hvalurinn mjög einbeittur að veiða og éta.“

Þegar þeir eru í mikilli fæðu og hafa safnað sér góðri orku þá eru þeir líklegri til þess að stökkva. Það er áhrifamikil sjón en skapar að sama skapi hættulegar aðstæður fyrir ræðara. Þeir geta velt bátum, lent ofan á þeim og þar fram eftir götunum.
„Í þessu ótrúlega tilfelli lenti maður uppi í kjaftinum á hvalnum,“ segir Edda. „Við höfum séð það þegar hnúfubakar eru að éta upp við yfirborðið að sjófuglar slæðast með en þeir eru fljótir að hleypa fuglinum út. Stundum svolítið vönkuðum. En í þessu tilfelli var þetta nokkuð stór meðafli hjá þessum hval, myndi ég segja.“
Athugasemdir (1)