Það fyrsta sem þarf að skoða er PISA-könnunin. Það er staðreynd að námsfærni barna á Íslandi er dræm. Nemendur standa sig illa í formlegu námi, hvort sem það er lestur eða raungreinar. Staða nemenda versnar með hverri könnuninni. Að sama skapi þá verður að segja að þótt formlega námið sé dræmt, þá eru enn alvarlegri upplýsingar sem liggja í óformlega þætti könnunarinnar. Samvinna og samkennd barna á Íslandi er með því lægsta sem fyrirfinnst í Evrópu, svo eitthvað sé nefnt (1).
Þessir tveir þættir haldast í hendur, hið formlega og hið óformlega. Það á jafnt við um börnin og okkur hin. Ekki er hægt að segja, ef litið er í eigin barm, að maður blómstri í starfi þar sem ekkert samlíf er með samstarfsmönnum manns. Né heldur ef það ríkir ekkert traust meðal fólks á vinnustaðnum. Slíkir vinnustaðir annaðhvort endast ekki, og fyrirtækið fer á hausinn, eða starfsmannavelta fyrirtækisins er svo mikil að aldrei tekst að byggja upp reynslu og mannauð í fyrirtækinu. Það sem meira er, slík fyrirtæki fá á sig óorð sem berast manna á milli í samfélaginu fyrirtækinu til áframhaldandi tafala. Þetta þekkjum við flest, beint eða óbeint, og þetta virkar nákvæmlega eins í skólum landsins. Grunnskólinn er staðurinn þar sem börn læra samskipti, samlíf, samvinnu og samkennd með bekkjar- og skólafélögum sínum. Vanti heilbrigt samlíf barna, aukast vandamál að sama skapi, með tilheyrandi náms- og félagsvanda.
Það sem liggur að baki
Í lok október síðastliðnum skrifaði ég ívið lengri grein en ég ætlaði mér um PISA og niðurstöður þeirrar könnunar hér í Heimildina. Ásetningur minn var að benda á atriði sem fjölmiðlar höfðu ekki farið í að ræða úr PISA-könnuninni. Þótti mér könnunin sýna rót vandans án þess að verið væri að ræða þá rót sérstaklega. Frekar þótti mér umræðan snúast um einkenni og birtingarmynd þess vanda, frekar en vandann sjálfan. Að sama skapi voru fréttir og viðtöl um lausnir á einkennunum, frekar en úrlausn á vandanum sjálfum. En það var þá. Núna er nýtt ár með nýrri ríkisstjórn og það virðist viðra vel til úrbóta.
Eftir grein mína í fyrra fór ég í þá vegferð að skoða þetta málefni aðeins nánar, enda í námi á Menntavísindasviði Háskóla Íslands – Kennaraháskólanum (KHÍ). Því lá það beinast við að spyrja um menntun kennara og menntamál barna á Menntavísindasviðinu sjálfu. Niðurstaða þeirrar vegferðar er efniviður þessarar greinar.
Hver ber ábyrgð á samlífi barna í skólum landsins?
Það vill svo heppilega til að það er að fullu skilgreint og vitað hver ber ábyrgð á mótun samfélagsþroska barna. Foreldrar annars vegar og kennarar hins vegar. Grunnskólinn verður að vinna samkvæmt skólalögum, og þar stendur það svart á hvítu að það sé á herðum skólans að kenna, þjálfa og styrkja nemendur í samfélagsfærni. En þetta stendur ekki bara þar, þetta er einnig skrifað í hæfnisviðmiðum kennararéttinda að kennarar þurfa að hafa þessa hæfni til að geta fengið réttindin. Þetta er því stór þáttur í hlutverki kennara, kennsla í samfélagsfærni og mótun nemenda. Það á jafnt við um námsþroska og almennan félagsþroska.
Tilvonandi kennarar fá ekki menntun í uppbyggingu félagsþroska, og takmarkaða reynslu í námsþroska barna.
Kulnun kennara
Það liggur í augum uppi að ef manni er hent út í aðstæður þar sem ekki er fyrir menntun, hæfni eða færni í, að það sé álagsvaldandi. Sumir stressast upp, aðrir flýja undan íþyngingunni eða jafnvel festast í langvarandi kvíða yfir ástandinu. Þetta á jafnt við kennara og nemendur, eins og með pípara og bankastjóra. Við erum öll mannleg og eigum okkar varnarleið til að reyna að ráða við ástandið sem við finnum okkur föst í. Þetta ástand veldur kulnun í starfi meðal kennara. Þessi kulnun er meiri en í öðrum starfsgreinum (2).
En hvernig getur það verið að kennarar, sem eru með allar þessar reglugerðir og lagaramma um mikilvægi samfélagsins og uppbyggingu þess, séu í tilfinningaþroti í meira mæli en aðrar starfsstéttir? Ætti þessi starfsstétt ekki að vera stoð og stytta allra annarra þegar kemur að þessum þáttum fyrst kennurum er ætlað að þjálfa upp komandi kynslóð samfélagsins í þessu?
Ástæðan fyrir því að ég spyr er sökum þess að engin námsleið kennara er með áfanga tileinkaða þessum gildum. Þónokkrir áfangar drepa á þessum málaflokki, samfélag barna, en enginn áfangi er í skyldunámi kennaranema sem er gagngert gerður til að undirbúa kennara fyrir raunaðstæður í skólum landsins. Það er því alfarið á herðum kennaranna sjálfra að afla sér þessa færni, hvernig sem það er svo gert, svo hann geti kennt í skólastofunni. Þarna er komin rótin á brottfalli nýútskráðra kennara úr starfi. Þarna liggur einnig ástæðan fyrir því af hverju það gengur svona illa að bæta andrúmsloft í skólum landsins og af hverju PISA sýnir trekk í trekk verri og verri samfélagsstöðu nemenda í skólum landsins. Ástæðan er að kennaranemar bókstaflega fá ekki menntun eða þjálfun í að kenna félagslega þátt menntunar.
Ég hef spurt ýmsa stjórnendur í Kennaraháskólanum út í þetta. Svörin sem ég hef fengið er að „það er alltaf umdeilt hvað á að kenna kennaranemum í námi sínu“, „það er alltaf hægt að taka valnámskeið til að læra þetta“, eða „kennarar geta alltaf komið í endurmenntun til að fá þá hæfni sem þeim finnst þá vanta“.
„Það er því að fullu skiljanlegt að kennarar séu að upplifa kulnun í starfi“
Það sem stingur mig hvað þetta varðar er að það stendur skýrt í lögum um menntun, hæfni og ráðningu kennara (kennaralög) (3) að þessi hæfni skuli vera í skyldunámi þeirra. Því gengur það ekki að segja að þetta sé eitthvað umdeilt eða að þetta sé til sem einhver valáfangi. Það gengur heldur ekki upp að nýútskrifaður kennari, eftir fimm ára háskólanám, þurfi að fara í námsleyfi strax eftir nám til þess eins að fá hæfnina til að leiðbeina nemendum í mótun á heilbrigðu lærdómssamfélagi í skólastofunni sinni. Það er því að fullu skiljanlegt að kennarar séu að upplifa kulnun í starfi, þeir eru einfaldlega ekki undirbúnir fyrir kennslu í skólastofu eftir fimm ára kennaranám. En hvað læra kennarar þá á þessum fimm árum?
Líkt og fyrri grein mín tók fyrir, þá er mikil áhersla á formlegan og fræðilegan þátt menntunar. Allar skyldueiningarnar sem kennaralög staðhæfa að eigi að fara í bæði hið formlega og hið óformlega, eru settar í formlega þáttinn. Hinn óformlegi er með öllu afskiptur í námi kennaranema. Þetta vinnur þvert gegn því sem kennaranemar biðja um, skólastjórnendur biðja um, foreldrar biðja um, nemendur biðja um, og þvert gegn því sem ESB ráðleggur.
ESB og PISA
Lönd innan ESB hafa sýnt svipaðar niðurstöður í PISA-könnunum síðastliðinna ára og Ísland hefur. Réttilega hefur verið bent á slíkt í umræðunni um PISA. Ástæðan fyrir þeirri tölfræði er út frá svipuðum forsendum og vandinn sem fyrir liggur hérlendis. ESB gaf út skýrslu í maí 2024 þar sem hver þáttur PISA er skilgreindur og farið ofan í kjölinn hvernig hægt sé að snúa við þessari þróun sem öll Evrópulönd hafa verið að sjá (4). Skýrslan er hönnuð fyrir stjórnmálamenn og þá sem gegna stefnumótandi stöðum innan stjórnsýslunnar, til að gefa þeim valdeflandi tól til úrbóta á þeim vanda sem steðjar að skólakerfi hvers lands fyrir sig.
„Mælt er eindregið með því að færa sig úr því formlega og meira yfir í hið félagslega
Í þessari skýrslu stendur að samfélög hafi ranglega sett of mikla áherslu á hið akademíska og formlega, og að slíkt hafi skilið félagslega þátt barna eftir. Það hafi valdið einangrun og vanlíðan meðal nemenda sem birtist í lægri einkunnum og félagslegri einangrun. Þessi akademíska stefna hefur einnig í för með sér kulnun kennara og flótta úr starfi. Mælt er eindregið með því að færa sig úr því formlega og meira yfir í hið félagslega. Að valdefla skólaumhverfið og kenna markvisst samkennd og samvinnu. Enn fremur er þar tekið fram mikilvægi þess að gefa skólakerfinu tíma til að byggja upp skólasamfélag barna og að tryggja að kennarar hafi þá hæfni sem til þarf til að slíkt lærdómssamfélag raungerist.
Ísland í dag
Akkúrat núna er ekkert sem segir að KHÍ sé að færa sig í átt að hinu félagslega. Það er engin námsleið í kennaranáminu sem leggur áherslu á þetta. Þvert á móti þá er bókstaflega engin námsleið með einn einasta áfanga sem tekur fyrir félagsleg mál barna sem aðaláherslu. Enginn áfangi sem nær utan um þá samfélagslegu þætti sem nauðsynlegir eru til að móta lærdómssamfélag barna.
Enn verra er það að lesa greinar fræðimanna KHÍ þar sem talað er um að til að laga ástandið þurfi að fara enn meira í formlegu fræðin.
Til að móta heilbrigt lærdómssamfélag og valdefla börn til sjálfbærni í leik og starfi þarf að efla félagslega þáttinn. Til að gera slíkt þurfa kennarar að hafa menntun í félagsmótun barna. Því þarf að kenna þá færni og hæfni sérstaklega. Það þýðir ekki að tala bara um mikilvægi þess, eða ætlast til að tilvonandi kennarar öðlist hana sem einhverja afleiðu út frá öðru námi eða öðrum fögum. Það verður að kenna þetta beint og skýrt.
Það klikkaða við þetta er að öll þessi fög eru til innan veggja KHÍ. Það þarf ekki einu sinni að finna þau upp. Fögin eru bara ekki sett í grunnnám kennara, þrátt fyrir beiðni um slíkt síðastliðna þrjá áratugi.
Því spyr ég í lokin. Hvort viljum við kennara sem er menntaður með hæfni til að leiða börn í gegnum nám sitt og félagslíf, eða menntafræðing sem akademískt kann allar kennsluaðferðir til að kenna fagið sitt á kostnað félagslega þátt barnanna?
(2) https://ojs.hi.is/index.php/netla/article/view/3057/1796
(3) https://www.althingi.is/lagas/nuna/2019095.html
(4) https://www.cedefop.europa.eu/files/wellbeing_and_mental_health_at_school.pdf
Athugasemdir