Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, gaf í dag í fyrsta sinn til kynna að Bandaríkin gætu beitt hernaðarvaldi til þess að ná undir sig Grænlandi, sem og Panamaskurðinum.
Fyrr í dag var sonur hans, Donald Trump jr, í persónulegri heimsókn á Grænlandi, þar sem hann ræddi meðal annars við fjölmiðlafólk.
Spurður af fréttamönnum á setri hans við Mar-a-Lago í Flórída hvort hann myndi útiloka að beita „hernaðarlegum eða efnahagslegum þvingunum“ til þess að ná Panamaskurðinum og Grænlandi undir Bandaríkin sagði Bandaríkjaforseti „nei“. „Ég get fullvissað þig um hvorugt, en ég get sagt að við þurfum þau fyrir efnahagslegt öryggi,“ sagði hann.
„Eignarhald og yfirráð yfir Grænlandi er alger nauðsyn,“ sagði Donald Trump í desember.
Þá sagði Trump í dag að ef Danmörk myndi ekki gefa Bandaríkjunum Grænland, skyldu Bandaríkin „beita Danmörku tollum á háu stigi“.
„Þetta verður gullöld Bandaríkjanna. Við erum núna land í umsátri,“ sagði Trump að lokum.
Bæði grænlensk og dönsk yfirvöld hafa staðfastlega tekið fram að Grænland sé á forræði íbúa þess, en líklegt er talið að framundan séu kosningar um sjálfstæði landsins.
Múte B. Egede, forsætisráðherra Grænlands, segir í tilefni orða Trumps að hvorki Danir né Bandaríkjamenn muni ráða framtíð Grænlands. „Lof mér að endurtaka það: Grænlands er Grænlendinga. Okkar framtíð og barátta fyrir sjálfstæði er okkar mál,“ sagði hann. „Danir, Bandaríkjamenn og allir aðrir geta haft skoðanir, en við látum móðursýkina ekki fanga okkur eða stýrumst af öðrum. Því okkar framtíð er okkar og verður mörkuð af okkur.“
Athugasemdir