Enn eru Kóreuríkin í sviðsljósinu, nú vegna hræðilegs flugslyss sem átti sér stað í gær, sunnudaginn 29. desember, í Suður-Kóreu. Það kemur í kjölfar uppistands sem varð í landinu vegna furðulegrar tilraunar Yoon Suk Yeols forseta til að skella á herlögum.
Í Norður-Kóreu er Kim Jong Un einræðisherra hins vegar í óða önn að senda lítt þjálfaða og ráðvillta hermenn sína út á vígvöllinn við hlið Rússa í Úkraínu og er tilgangurinn augljóslega sá að tryggja hinu umsetna ríki sínu stuðning Rússa.
Ég hef verið að rekja sögu Kóreuríkjanna tveggja í undanförnum greinum.
Og hér segir svo í þriðju greininni frá lokum þess stríðs.
Eftir Kóreustríðið voru bæði Norður- og Suður-Kórea í sárum en kommúnistaríkið í norðri var mun fljótara að ná sér en systurríkið í suðri.
Fasismi færist í aukana
Þar kom fleira en eitt til. Samfélagsumbætur í anda kommúnismans höfðu til skamms tíma góð áhrif í sveitunum, heilsugæsla batnaði stórum og almenn grunnmenntun. Mikil iðnvæðing hófst, fjármögnuð ekki síst með aðstoð frá Sovétríkjunum. Í ríkinu var tekin upp stefna sem nefnd var Juche og átti í fyrstu að fela í sér sjálfsþurftarbúskap í marxísk-lenínískum anda.
Er árin liðu breyttist Juche hin vegar eftir því sem Norður-Kórea varð eindregnara erfðaríki, beinlínis í eigu fjölskyldu Kim Il-sung.
Þegar kom fram á síðasta fjórðung aldarinnar var Juche í raun farið að svipa meira til fasisma en kommúnisma, því áherslan er nú öll á samstöðu og einingu þjóðarinnar og hlutverk leiðtogans.
Um leið fór að draga úr efnahagslegum og félagslegum þrótti Norður-Kóreu. Ríkið varð eindregnara og forstokkaðra kúgunar- og kvalræðistæki Kim-fjölskyldunnar og 1994 tók sonur Kim Il-sungs, Kim Jong Il, við völdum.
Þá þegar voru lífskjör almennings farin að versna verulega, enda stöðnun í efnahagslífi og einangrun landsins orðin nær algjör.
Hungursneyð laust fyrir 2000
Þótt lítil vinátta væri með Sovétmönnum og Norður-Kóreumönnum undir það síðasta héldu Sovétríkin þó áfram að styðja Kim þangað til þau hrundu árið 1991. Eftir að sá stuðningur var úr sögunni hallaði mikið undan fæti í Norður-Kóreu og undir aldamótin 2000 geisaði þar hroðaleg hungursneyð.
Fjöldi fólks dó úr næringarskorti en erfiðlega hefur gengið að slá föstu hve margir dóu enda er landið svo harðlæst og lokað að þaðan berast afar fáar fréttir.
Um aldamótin bjuggust flestir við því að Norður-Kórea væri komin að fótum fram og Kim-veldið hlyti að falla fyrr en síðar. En það fór á annan veg. Kínverjar ákváðu að veita Norður-Kóreu ákveðinn stuðning og nógu miklar umbætur voru gerðar í efnahagslífi til þess að meirihluti þjóðarinnar er nú ekki lengur undir hungurmörkum.
Kjörin eru þó afar kröpp, nema yfirstéttarinnar sem Kim-ættin styðst við.
Norður-Kórea þróar kjarnorkuvopn
Í stað þess að nota það svigrúm sem skapaðist þegar aðeins hægði um eftir hungursneyðina til að bæta líf alþýðunnar, þá tók Kim Jong Il hins vegar þá ákvörðun að hefja þróun kjarnorkuvopna og síðar langdrægra eldflauga til að skjóta fjendum þjóðarinnar skelk í bringu og þar stendur nú, þegar þriðji Kim-inn er kominn til valda, að landið á þó nokkrar kjarnorkusprengjur eftir því sem best er vitað.
En þjóðin býr sem í risastórum fangabúðum. Raunar eru lýsingarnar á þeirri hræðilegu harðstjórn sem þjóðin í Norður-Kóreu býr við þannig að þær hljóma næstum ótrúlega — hátt í 25 milljónir manna lifa sem í grimmustu fangabúðum og allt er Kim-feðgunum til dýrðar.
Þróunin í Suður-Kóreu varð öll önnur. Hinn illræmdi Syngman Rhee fór áfram með völdin eftir Kóreustríðið og sýndi andstæðingum sínum hina mestu hörku. Honum var steypt af stóli 1960 og var þá komið á lýðræði en það varð skammvinnt.
Ári seinna rændi hershöfðinginn Park völdum og ríkti sem einræðisherra til 1979 þegar hann var myrtur af yfirmanni kóresku leyniþjónustunnar.
Lýðræði loks í Suður-Kóreu
Chun nokkur hrifsaði þá til sín völdin en óánægja almennings með stjórnarfarið færðist sífellt í aukana og eftir mikil og stöðug mótmæli sem blossuðu upp reglulega árum saman kringum 1990 komst loks á almennilegt lýðræði.
Jafnframt þessu hafði efnahagur Suður-Kóreumanna batnað stórkostlega síðan þeir fóru loks fram úr Norður-Kóreumönnum upp úr 1970. Mikill kraftur var settur í iðnvæðingu, tækniþróun og útflutning. Suður-Kórea varð nú á fáeinum áratugum eitt allra ríkasta Asíulandið.
Hið furðulega uppátæki forsetans nú, að skella á herlögum virðist hafa falið í sér afturhvarf til tíma Syngmans Rhee, Parks og Chun og það er áreiðanlega heitasta ósk nærri allra Suður-Kóreumanna að ekki verði farið lengra á þá braut.
Athugasemdir