Á liðnu ári er ýmislegt sem hefur átt sér stað í íslensku samfélagi. Ég á stundum erfitt með að muna hvað ég gerði í gær, en ætla að reyna mitt besta til að stikla á stóru hvernig árið hefur snúið að hinsegin fólki á Íslandi, og víðar.
Það má segja að Ísland sé að sumu leyti í fararbroddi þegar kemur að réttindabaráttu hinsegin fólks, en á árinu vorum við í öðru sæti á Regnbogakorti ILGA-Europe, sem tekur saman lagaleg réttindi sem hafa áunnist hjá löndum í Evrópu. Einnig trónuðum við á toppi réttindakorts Transgender Europe, sem gerir sambærilegt kort er snýr eingöngu að lagalegri réttarstöðu trans fólks í Evrópu.
„Þar má helst nefna lög um kynrænt sjálfræði sem var ein stærsta réttarbót í sögu Íslands þegar kemur að lagalegri stöðu trans fólks og intersex fólks
Þetta er vegna þrotlausrar baráttu svo margra einstaklinga og hagsmunasamtaka á undanförnum áratugum, sem hafa náð að vinna náið með stjórnvöldum og knúa fram mikilvægar breytingar fyrir hinsegin fólks. Þar má helst nefna lög um kynrænt sjálfræði sem var ein stærsta réttarbót í sögu Íslands þegar kemur að lagalegri stöðu trans fólks og intersex fólks.
En þó svo að þau hafi verið frambærileg þá þýðir það ekki að þau séu fullkomin, og hafa ýmsar breytingar átt sér stað í kjölfarið – og leggjum við því ekki öll upp laupana og köllum þetta gott. Þrátt fyrir þessar framfarir á Íslandi og víða annars staðar, þá hefur nefnilega verið mjög áberandi bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks víða um heim – þar með talið á Íslandi.
Afturför og upplýsingaóreiða
Bakslagið á sér margar birtingarmyndir, eins og til dæmis í aðgerðum ríkja á borð við Ungverjaland, Rússland, Pólland, Bretland og Bandaríkin, sem hafa bókstaflega dregið úr lagalegum réttindum, aðgengi að þjónustu eða vernd hinsegin fólks – og má þar nýlega nefna ákvörðun breskra stjórnvalda, þvert á álit sérfræðinga, að banna hormónabælandi lyf fyrir trans ungmenni.
„Allt í einu voru allir orðnir sérfræðingar í íþróttum, genafræði, líffræði og íþróttum kvenna – þrátt fyrir að hafa aldrei látið þessi málefni sig varða áður
Orðræða og upplýsingaóreiða hefur sömuleiðis heldur betur látið á sér kræla, og má þar sérstaklega nefna hvernig hnefaleikakonan og Ólympíufarinn Imane Khelif var tekin fyrir af heiminum öllum – þar sem fólk leyfði sér að vera með alls konar misgáfulegar og óviðeigandi yfirlýsingar um hennar líf, líkama og sjálfsmynd. Allt í einu voru allir orðnir sérfræðingar í íþróttum, genafræði, líffræði og íþróttum kvenna – þrátt fyrir að hafa aldrei látið þessi málefni sig varða áður.
Og þrátt fyrir yfirlýsingar sjálfsskipaðra „sérfræðinga“ á internetinu þá stendur það eftir að hvergi eru til „sannanir“ fyrir því að hún sé trans né intersex, annað en óljósar og óstaðfestar niðurstöður ótilgreindra „kynjaprófa“ frá spilltum rússneskum hnefaleikasamtökum.
Þær árásir sem hún þurfti að sæta voru skelfilegt dæmi um hvernig óvægin og fordómafull umræða um trans konur og intersex konur – heldur allar konur sem falla ekki að þröngum staðalímyndum um „æskilegan“ kvenleika og kvenlegt útlit.
Bakslagið hér heima
Bakslagið á Íslandi hefur einnig verið sýnilegt, en hatursorðræða, ofbeldisverknaður og skemmdarverk hafa orðið algengari á undanförnum misserum.
Það þarf ekki að líta lengra en í kommentakerfi á samfélagsmiðlum til að sjá þar mjög ógeðslega og óvægna umræðu um hinsegin fólk, þar sem því er jafnvel líkt við kynferðisafbrotamenn, barnaníðinga eða alvarlegum ofbeldishótunum lýst.
„Það þarf ekki að líta lengra en í kommentakerfi á samfélagsmiðlum til að sjá þar mjög ógeðslega og óvægna umræðu um hinsegin fólk
Sem dæmi má nefna að í október 2024 var maður dæmdur fyrir brot á hegningarlögum í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir mjög ofbeldisfull ummæli þar sem hann hótaði hinsegin fólki lífláti.
Í fyrsta skipti í sögu Íslands sáum við líka stjórnmálaflokk nýta sér áróður og ósannindi um hinsegin fólk í kosningabaráttu sinni, en Lýðræðisflokkurinn borgaði fyrir dreifingu anti-hinsegin efnis í aðdraganda alþingiskosninga 30. nóvember síðastliðinn.
En það var ljóst að í niðurstöðum kosninga hlaut slíkur málflutningur svo sannarlega ekki brautargengi, og er ljóst að fordómar gegn hinsegin fólki eru ekki vinsælir meðal almennings. Það er þó áhyggjuefni að slíkur flokkur hafi boðið fram og nýtt sér slíka upplýsingaóreiðu, enda hefði það eflaust þótt óhugsandi að svona málflutningur kæmi fram í íslenskum stjórnmálum fyrir nokkrum árum.
Menningarlíf hinsegin fólks blómstrar
Það er því ekki alltaf tekið út með sældinni að vera hinsegin – ekki vegna þess að það er eitthvað neikvætt að vera hinsegin, heldur vegna neikvæðra viðbragða einstaklinga í samfélaginu gagnvart hinseginleika. Það er nefnilega bara hluti af mannlífinu að fólk sé hinsegin, og öll þau „vandamál“ sem því fylgja tengjast nefnilega fordómum fólks.
En þrátt fyrir bakslagið þá var mikil gróska í hinsegin menningarlífinu á árinu, og augljóst að við sem samfélag erum hægt og rólega að færast á betri stað. Hinsegin fólk er nefnilega óaðgreinanlegur hluti af okkar samfélagi, og erum við ekkert að fara neitt.
„Við berum öll ábyrgð á því að stíga inn í þegar við heyrum fordóma borna á torg, hvort sem það er á vinnustaðnum, á jólahlaðborðinu eða af ástvinum okkar
Hinsegin dagar voru auðvitað á sínum stað þetta árið, þar sem nýkjörinn forseti hélt stuðningsræðu og glæsilegt tímarit kom út, Hinsegin kórinn var með tónleika, fyrsta hinsegin bókmenntahátíðin, Queer Situations, var haldin, og myndin Ljósvíkingar, þar sem ein aðalpersónan er trans kona og leikin af trans konu, kom út og fékk mjög góða dóma – og þar mætti lengi áfram telja. Ótal viðburðir, verkefni og rannsóknir áttu sér stað sem er ekki hægt að telja til hér, og mætti segja að hinsegin menningarlíf hafi aldrei blómstrað jafnbjart.
Áfram gakk
Þegar við horfum fram á veginn er því ljóst að við höfum aldrei staðið framar, en áskoranirnar eru samt sem áður margar – svo sem að halda áfram að tryggja heilbrigðisþjónustu fyrir trans fólk og ungmenni, aukið fjármagn til hagsmunasamtaka, tryggja betur stöðu eldra hinsegin fólks og banna öll óþarfa inngrip í líkama intersex barna.
Við berum öll ábyrgð á því að stíga inn í þegar við heyrum fordóma borna á torg, hvort sem það er á vinnustaðnum, á jólahlaðborðinu eða af ástvinum okkar. Það hefur í raun aldrei verið mikilvægara að við stöndum saman, vísum fordómum á bug og tökum þátt í að skapa samfélag saman þar sem við getum öll fengið að njóta okkar nákvæmlega eins og við erum. Það þarf ekki mikið til þess að afturförin verði meiri hér á landi, og megum við aldrei verða værukær og sofna á verðinum.
Megi 2025 bera í skauti sér bjarta framtíð, þar sem við stöndum keik gegn öldu fordóma, haturs og upplýsingaóreiðu, og mætum henni með ást, skynsemi og samhug. Þannig sköpum við öruggt samfélag fyrir okkur öll – hinsegin eður ei.
Athugasemdir