Ég hef aldrei verið eins einmana og þegar pabbi dó þegar ég var 11 ára. Pabbi var minn besti vinur og hafði einstakt lag á því að búa til verkefni fyrir mig – hvatvísan, ofvirkan með athyglisbrest. Ég hafði mikinn áhuga á vísindum og hann setti mér fyrir verkefni til að leysa og ég þurfti að grúska í ýmsum bókum til að finna lausnina. Ég átti líka efnafræðisett og hann þýddi tilraunabækurnar á íslensku fyrir mig – las þær inn á segulband sem ég gat spilað þegar hann var í vinnu. Hann kunni á mig.
Ég varð reiður þegar hann dó – hataði Guð og trúði ekki á hann. Mamma sagði mér síðar að hún hefði þrisvar sinnum keyrt mig í kirkjugarðinn þar sem ég fór að leiðinu hans pabba. Mamma keyrði í burtu og leyfði mér að vera einum með honum. En hún fór ekki langt og gat séð mig og heyrt í mér. Ég öskraði, grét og talaði við gröf hans. Ég man ekkert eftir þessu og í raun man ég einungis slitrur í rúmt ár eftir að pabbi dó. Geðlæknirinn sem ég var hjá sagði að það væri klassískt dæmi um áfallastreituröskun.
Ég komst aldrei að því hvort pabbi hefði verið einmana en ég veit að hann var vinamargur og hann sinnti fólkinu í kringum sig. Mamma sagði mér að pabbi hefði stundum boðið fólki sem hann vissi að væru einir í mat á aðfangadagskvöld. Mamma tók því vel enda var hún alin upp við það á Flateyri að afi og amma buðu einstæðingum í mat um jólin.
Í síðustu viku kom þátturinn Á vettvangi einmanaleikans á hlaðvarpsveitur og í honum koma fram ískaldar sögur um einmanaleika í ýmsum birtingarmyndum í samfélaginu okkar. Síðan í vor hef ég verið að safna að mér efni í þennan þátt og þrátt fyrir sorglegu sögurnar sem koma fram í þættinum finn ég fyrir þakklæti því það eru svo margir sem hugsa um náungann og passa upp á fólkið í kringum sig.
Sjálfur ætla ég að heyra í fólki í kringum mig sem ég veit að er einmana og ég ætla að gefa mér tíma til að spjalla, spyrja og fyrst og fremst hlusta – því það að hlusta er það mikilvægasta í samskiptum fólks. Ég ætla líka að gröf mannsins sem við segjum frá í þættinum og setja hjá honum ljós og minnast hans – þrátt fyrir að ég viti nánast ekkert um hans lífshlaup. Saga mannsins er mikilvæg því hún er saga svo margra í samfélaginu okkar – en þær sögur þurfa ekki að enda eins og mannsins sem hvílir í Fossvogskirkjugarðinum.
Athugasemdir